Að byggja upp samfélag

Að byggja upp samfélag

Fjöldi fólks sem mætir mér á förnum vegi, á síðum dagblaðanna eða annars staðar á það sameiginlegt að hafa með viðhorfi sínu og kærleiksríkri framkomu lagt jákvæð lóð á vogarskálar samfélagsins. Íslenskt samfélag er framsækið vegna þess að það byggir á slíkri menningu, menningu samtakamáttar, jákvæðni og bjartsýni.

Hólar

Fjöldi fólks sem mætir mér á förnum vegi, á síðum dagblaðanna eða annars staðar á það sameiginlegt að hafa með viðhorfi sínu og kærleiksríkri framkomu lagt jákvæð lóð á vogarskálar samfélagsins. Íslenskt samfélag er framsækið vegna þess að það byggir á slíkri menningu, menningu samtakamáttar, jákvæðni og bjartsýni. Þó þekkjum við líka bölsýnisraddirnar, raddir annarra eða raddir innra með okkur sem eru tilbúnar til að einblína á það sem miður hefur farið. Ef þær eru leystar úr læðingi vitum við að þær geta brotið og bramlað það sem áður hefur verið byggt. Stundum verðum við líka að viðurkenna að í okkur búi báðar raddir, rödd uppbyggingarinnar og rödd bölsýninnar.

Fyrir okkur sem búum saman í samfélagi felur hver dagur í sér það verkefni að takast á við þessar tvær hliðar eins og þær birtast hverju sinni í okkar eigin persónu en einnig í samfélaginu í heild sinni. Eins og á hverju heimili er stundum þörf á tiltekt. Hver þekkir það ekki að óreiðan verður svo mikil í skápnum í geymslunni að einn daginn þegar hann er opnaður hrynur innihaldið út á gólf. Og allt í einu stöndum við fyrir framan fjall óreiðunnar. Á slíkum stundum verður mér gjarnan hugsað til 121 Davíðssálms en þar segir:

Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp? Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar. Hann mun ekki láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki. Nei, hann blundar ekki og sefur ekki, hann, vörður Ísraels. Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar. Um daga mun sólarhitinn ekki vinna þér mein né heldur tunglið um nætur. Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína. Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.

Þessi mynd sem sálmahöfundurinn dregur upp hefur að geyma margs konar fjöll.

Þegar ég les textann get ég séð fyrir mér fagurt fjall þar sem uppgangan virðist greið. Sú mynd vekur hjá mér tilhlökkun, mig þyrstir að ganga á þetta fjall, njóta fegurðarinnar, útsýnisins og vera um stund nær sköpun Guðs. Með þessa mynd í huga er auðvelt að lesa þennan Davíðssálm. Lífið leikur við mig því Guð er góður. Þegar ég les textann get ég séð fyrir mér þverhníptan hamarinn þar sem klifur upp hann er áskorun fyrir þjálfaðan einstaklinginn. Sú mynd vekur hjá mér ugg og spennu. Ég velti vöngum yfir hvað ég þurfi að kunna og geta til að geta klifið þetta fjall, komist á toppinn og notið þess að hafa sigrast á illkleifu fjallinu. Um stund er ég þá sjálfur konungurinn og óþarfi að lesa þennan Davíðssálm. Lífið leikur við mig því ég er einfaldlega góður.

Þegar ég les textann get ég séð fyrir mig óreiðuna í lífi mínu og samfélagsins. Mér fallast jafnvel hendur. Sú mynd vekur hjá mér áhyggjur, fær jafnvel tár til að koma fram. Sú mynd veldur því að ég vil helst flýja og ég fyllist reiði. Mér finnst reiði mín réttlát og ég skammast yfir því sem aðrir kunna ekki né geta. Um stund er ég lítið, vanmegnugt barn sem á í erfiðleikum með að lesa þennan Davíðssálm. Og ég spyr mig hvar líf mitt sé. Svörin liggja ekki í augum uppi. Hver og einn þarf að spyrja sjálfan sig, leita svara. Sjálfur vil ég reyna að hafa Guð með í öllum aðstæðum, spyrja um hans vilja og hvað ég geti gert fyrir hann. En þú?