Heilagt fólk í hversdeginum

Heilagt fólk í hversdeginum

Ég hef líka heyrt leyndarmál sem eru svo mögnuð þar sem fram koma sjálfsfórnir og þrekvirki sem ég hélt að væru ekki til nema í sögubókum, af því að manneskjur eru góðar. Ég hef líka heyrt sorgarsögur, hrakfallasögur og persónuleg vandræði…

Eitt það dýrmætasta í mínu starfi er að setjast niður með fólki til að rifja upp ævi ástvinar sem er farin. Ég heyri oft að þetta sé stund sem fólk kvíði mjög mikið og sjái fyrir sér sem mikla sorgarsamveru þar sem erfitt sé að hafa stjórn á tilfinningum sínum. Ég man eftir eldri konu sem var að undirbúa útför eiginmannsins ásamt fullorðnum dætrum sínum og þegar við vorum búnar að sitja í tvo tíma og hlæja og gráta á víxl og komið var að því að hún kveddi mig, dæsti hún og sagði:„veistu Jóna, ég var búin að kvíða því svo að koma hingað, svo hefur þetta verið eins og besti saumaklúbbur“ og hún brosti afsakandi. Ég sagði við hana að ég væri fegin að heyra þetta því fátt væri betra en að koma í góðan saumaklúbb þar sem trúnaður og vinátta ríkti. Þetta eru algjörlega einstakar stundir af því að manneskjur eru einstakar og stundum hef ég upplifað hláturrokur og miklar sögustundir, af því að manneskjur eru litríkar. Ég hef líka heyrt leyndarmál sem eru svo mögnuð þar sem fram koma sjálfsfórnir og þrekvirki sem ég hélt að væru ekki til nema í sögubókum, af því að manneskjur eru góðar. Ég hef líka heyrt sorgarsögur, hrakfallasögur og persónuleg vandræði sem ekki hefur verið hægt að tala um fyrr en við andlát, af því að manneskjur eru oft kvíðnar. Ég hef líka heyrt svo margar sögur af sigrum og upprisum að ég hef stöðuga trú á fólki, af því að manneskjur eru svo ólseigar og úrræðagóðar.

Ég man eftir manni hér í Garðabæ sem ég jarðaði fyrir nokkrum árum, honum Eyjólfi. Hans einkunarorð voru„allir dagar eru góðir dagar.“ Þessi setning er rituð á kínversku á myndverki sem hangir uppi á heimili fjölskyldu hans. Eyjólfur lét jafnframt setja þessi orð á límmiða í fyrirtæki föður síns og límdi þetta hér og þar sjálfum sér til áminningar þegar hann fór í gegnum sjúkdómsraunir sínar síðustu vikur og mánuði. Það þarf heilmikið af æðruleysi í sál sinni til að hafa þetta sem einkunnarorð þegar lífið er að fjara út. Eyjólfur vissi að lífið er eina listin, sem ætlast er til að við iðkum án undirbúnings og án þess að gangast undir próf áður og þá er ekki verra að taka á móti hverjum degi með fullvissu um að þarna sé á ferðinni góður dagur. Hann náði þeim þroska sem Albert Schweitzer sagði að allir menn ættu að stefna að, er hann sagði: „Þroskinn er fólginn í því, að maður lifi sólskin, regn og storma ævi sinnar þannig, að maður vaxi hið innra.“ Það gerði Eyjólfur svo sannarlega. - Mögnuð mannkynssaga.
Eða hann Addi sem lést langt um aldur fram og var endalaust vongóður allt sitt líf, mikill lífskúnser. Hann var gallharður Liverpool maður og missti aldrei trúna á lífið og liðið sitt. Enginn leikur á ferlinum hefur verið eins eftirminnilegur og úrslitaleikur í meistaradeild árið 2005. Þá voru hans menn komnir til Istanbúl til að heyja baráttu við A.C. Milan. Í hálfleik var staðan 3-0 fyrir Milan og þá var margur maðurinn sem hætti að horfa á leikinn. Vinir Adda voru komnir saman til að fylgjast með og þeir voru orðnir vægast sagt vondaufir nema einn sem sagði mönnum að halda gleði sinni af því Liverpool væri að fara að vinna þennan leik og hann var eins og í eigin heimi í bókstaflegri merkingu því að allir hinir voru farnir sleikja sárin. En eins og margir muna fór svo að ensku fótboltasnillingarnir unnu og þeir sem höfðu gefist upp við að horfa eftir leikhlé misstu af einhverjum eftirminnilegasta knattspyrnuleik allra tíma. Addi vissi betur, hann missti nefnilega aldrei vonina.-Mögnuð mannkynssaga.

Eða hún Agnes vinkona mín sem valdi að lifa í ljósi reynslunnar en ekki skugga hennar. Hún valdi að gefa og næra allt til síðustu stundar. Hún tókst á við ólæknandi krabbamein í 17 ár. Hún valdi að þiggja hjálp annarra af æðruleysi og í þakklæti. Agnes valdi að vera ekki í vörn á lífsleiðinni heldur vænta hins góða og því lífsgildi hélt hún allt til enda. Þess vegna naut hún einstakrar hjúkrunar og vináttu á allri sinni veikindagöngu. Heilbrigðiskerfið vann með Agnesi af því að endurgjöfin hennar var svo einstök. Hún hafði það t.d. fyrir vana um tíma að baka brauð og koma með í krabbameinsferðina handa starfsfólkinu. Svo fór hún einn daginn og keypti hægindastól til að setja á deildina þar sem hún þáði lyfjagjöfina til að hlúa að þeim veiku. Hún prjónaði sjöl í gríð og erg handa starfsfólkinu á krabbameinsdeildinni og fleiri sjúkradeildum til að hafa á herðunum þegar þau gengu vaktirnar. –Mögnuð mannkynssaga.

Ég veit ekki hvort þú hefur lent í lífsháska! Slíkt breytir fólki og lífsviðhorfum þess. Svo kemur björgunin og allt sem þú varst farin að kveðja í huganum mætir þér á nýjan leik. Þá verða allar manneskjur dýrmætari, allir litir sterkari, öll hugsun mildari og þakklætið í bland við kærleika og feginleika verða sterkustu tilfinningarnar. Þetta fékk Sigurður að reyna þegar hann var aðeins 17 ára gamall, en hann bjó hér á Garðaholtinu lengst af ævi sinnar og lést saddur lífdaga fyrir fáum árum. Sigurður var að starfa við uppskipun á unglingaldri. Dag einn gerðist það að hann var á þilfari skips við störf og stóð ofan á lúgunni. Kar fullt af síld skall skyndilega niður á lúguna svo skerstokkarnir sem héldu lúguhlerunum hoppuðu upp úr förum sínum. Við þetta hrundi karið niður í lestina og tók Sigurð með sér. Hann féll átta metra niður í tóma lestina með karinu. Vinnufélagar hans sem urðu vitni að slysinu voru sannfærðir um að hann væri stórslasaður en raunin var önnur. Öll síldin og karið sem féll niður með Sigurði þeyttist einhvern veginn frá honum þannig að hann varð ekki undir neinu og sjálfur fann hann ekki fyrir því að lenda á hörðu gólfinu heldur stóð alheill upp eftir þetta mikla fall. Þegar hann fór að sofa um kvöldið leitaði hann að marblettum, sárum og einhverjum ummerkjum eftir fallið á líkama sínum en fann ekkert. Hann var algjörlega óskaddaður. Þarna upplifði Sigurður að hann hefði notið verndar sem honum fannst hafa fylgt sér síðan. Hann var sannfærður um að bænin væri sterkasta aflið í alheiminum og hann efaðist ekki um hið eilífa samfélag við Guð. –Mögnuð mannkynssaga.

Ég veit ekki hvort þú hefur verið á hrakhólum. En aldrei hafa fleiri verið á hrakhólum í heiminum allt frá seinni heimstyrjöldinni. Jólaguðspjallið fjallar um fólk sem tekst á við erfiðar aðstæður og er á hrakhólum en kemst af vegna samstöðu, vonar og dýrmætra tengsla við samferðamenn. Jólaguðspjallið fjallar um hina heilögu fjölskyldu sem kennir okkur það að allar fjölskyldu eru í raun heilagar, því í fjölskyldum erum við frátekin fyrir hvert annað til að komast af og lifa fallega. Þegar tengslarof verða í fjölskyldum hvort sem er vegna dauða eða erfileika finnum við svo til af því að tengslin skipta okkur svo óendanlega miklu máli. Við vitum að þessi þrjú sem sagt er frá í fjárhúsinu eru alltaf heilög af því að þau stóðu saman og misstu aldrei vonina og vernduðu lífið þó að hættan væri nærri allan tímann. –Mögnuð mannkynssaga.
Og svo er það hitt,„Þá mætir okkur lífsins ljós í litlu, snauðu barni.“ (úr jólasálmi eftir sr.Davíð Þór Jónsson). Það er það besta við guðspjall jólanna að þar birtist okkur guðsmynd sem er svo undursamleg, mannkynssaga sem allir geta séð sig í, aðstæður sem margir þekkja á öllum öldum og guðsmynd sem er umvafin yndisleik, varnarleysi og hreinleika hvítvoðungsins.

Daginn fyrir Þorláksmessu var ég að hlaupa út úr Vídalínskirkju til að gifta, þá komu mæðgin skyndilega á dyrnar og báðu um eina mínútu. Þarna stóð fallegur og gerðalegur 9 ára drengur sem hafði tekið trú á Jesú. Hann hafði kynnst honum í trúarbragðafræði í skólanum og Kristur hafði tekið sér í orðsins fyllstu merkingu bólstað í hjarta hans. Drengurinn var með kross um hálsinn og afhenti mér bænabók sem hann hafði samið. Við sammæltust um að hittast aftur eftir jólin til að ræða okkar uppáhalds„Jesú Krist“. Það er merkilegt hvernig drengurinn frá Nasaret nær að ummynda á öllum tímum og eftir mögnuðum leiðum. Ég fletti í gegnum bænabók unga drengsins og allar bænirnar hittu mig í hjartað. Mig langar að gefa ykkur tvær með mér inn í jólanóttina.

Góði Jesú minn,
Þú strýkur mér á kinnina þegar ég vakna.
Þú verndar mig þegar ég sofna.

Góði Jesús
Ekki gleyma mér
Þó ég gleymi mér.

Heilagt fólk í hversdeginum. Dýrð sé Guði. Amen.