Góður matur

Góður matur

Það er merkilegt og ég held að það sé mikilvægt að sjá hvað Jesús lét sér annt um líkamlega líðan fólks að allir hefðu nóg og liðu ekki skort.

Það er svo merkilegt þegar maður les margar af frásögnum guðspjallana hvað Jesú er umhugað um líkamlegar þarfir fólks. Þessi maður heilags anda og eilífðarinnar, sífellt að huga að líkamlegri næringu og vellíðan. T.d. þegar hann læknaði litlu stúlkuna, dóttur Jaírusar samkundustjóra. Þá tók hann í hönd barnsins og sagði: ,,Talíþa kúm“ það þýðir: Stúlka litla, ég segi þér, rís upp.“ Og jafnskjótt reis stúlkan upp og fór að ganga um, en hún var 12 ára. Og menn urðu frá sér numdir af undrun.“ segir orðrétt í guðspjallinu. Frásögninni lýkur á þessa leið: ,,En Jesús lagði ríkt á við þá að láta engan vita þetta og bauð að gefa henni að eta.“ Já, það var sérstaklega tekið fram að hann hafi séð til þess að hún fengi að borða. Eins er frásögnin af því þegar Jesús vildi metta fimm þúsund manns. Hann blessaði matinn og allir urðu mettir. Þá er Jesús iðulega í veislum og við matarborð í hinum ýmsu frásögnum guðspjallana, enda sögðu sumir óvildarmenn hans að hann væri mæti mathákur og vínsvelgur. Svo er það auðvitað frásögnin af síðustu kvöldmáltíðinni þar sem hann er að njóta þessa síðasta málsverðar í næði og góðu samfélagi, og notar þar líkinguna af brauðinu og víninu þegar hann útskýrir fórnardauða sinn. Í þessu samhengi er líka athyglisvert að muna hvernig ferðalangarnir á leið til Emmaus þekktu frelsarann upprisinn, því er svona lýst: „Og svo bar við, er hann sat til borðs með þeim, að hann tók brauðið, þakkaði Guði, braut það og fékk þeim. Þá opnuðust augu þeirra og þeir þekktu hann en hann hvarf þeim sjónum.“ Þeir þekktu hann af handbragðinu hvernig hann hanteraði brauðið. Í bæn Drottins, faðirvorinu, segir hann „Gef oss í dag vort daglegt brauð“. Sagt er að Kóka kóla fyrirtækið hafi farið í Páfagarð til að reyna að fá Páfa til að breyta Faðirvorinu, og hafa það „Gef oss í dag vort daglegt kóka kóla“, en páfi hafi ekki gefið sig og þá hafi sendinefndin staðið í forundran eftir mikil gylliboð og spurt hvað bakarar hafi eiginlega greitt fyrir þess innkomu í vinsælli bæn. Um sannleiksgildi þessarar sögu skal þó ekkert fullyrt.

Það er merkilegt og ég held að það sé mikilvægt að sjá hvað Jesús lét sér annt um líkamlega líðan fólks að allir hefðu nóg og liðu ekki skort. Hann þráði að fólk lifði í fullri gnægð til líkama, sálar og anda. Svo birtist hann upprisinn í guðspjalli dagsins, og enn er sama þema. Hann hvetur lærisveinana til að kasta netunum og allt fyllist af fiski, svo að þeir ná ekki einu sinni að taka netið um borð heldur draga það á land með aflanum. Þegar þeir stíga á land sjá þeir fisk lagðan á glóðir og brauð. Jesús segir við þá: „Komið með nokkuð af fiskinum sem þið voruð að veiða.“ Símon Pétur fór í bátinn og dró netið á land, fullt af stórum fiskum, eitt hundrað fimmtíu og þremur. Og netið rifnaði ekki þótt þeir væru svo margir. Jesús segir við þá: „Komið og matist.“ (Jóh. 21.1-14 )

E.t.v. er það af því að ég er þessa dagana í sérstakri föstu á niðurbrjótandi matarvenjur og borða bara grænmeti að ég verð upptekin af þessu stefi í gegnum öll guðspjöllin. Ég finn svo mikinn kærleika í gegnum þessar frásagnir sem birtist í því hvernig Jesús greinir og virðir líkamlegar þarfir, - maðurinn sem fastaði í fjörtíu daga og fjörtíu nætur. Hann vill að fólk hafi nóg og líði ekki skort. Fæðan er orkan okkar, það er nauðsynlegt að næra líkamann vel til að við virkum í daglegu lífi, það er mikilvægt að börnin okkar alist upp við hollustu og búi ekki við slíka fátækt að orkugjafarnir þeirra séu drasl og óhollusta.

Já, þessa daga er ég að fasta á vondar matarvenjur. Hvernig geri ég það? Með mat. Hreint hollustufæði getur nefnilega hreinsað og læknað líkamann. Þetta er góð upplifun og það er merkileg reynsla að vanda sig svona við það sem maður setur ofan í sig. Það útheimtir heilmikla matargerð, vangaveltur og öðruvísi innkaup. Það sem er kannski það merkilegasta í þessu fyrir mig er það að taka frá svona mikinn tíma í það eitt að hlúa að sjálfri sér. Ég þarf að lesa mig til, ég þarf að kaupa öðruvísi inn, ég þarf að sýna fyrirhyggju í eldamennskunni og ég þarf að passa að nesta mig út fyrir daginn. Margir myndu sjálfsagt dæsa og finnast þetta óttalegt vesen. En það er svo merkilegt að það sem nýtur umhyggju verður fallegt. Ég er viss um að við getum verið sammála um þetta, ég er ekki með þessu segja að ég verði hrikalega sæt eftir þessa föstu en hver veit nema mér eigi eftir að líða betur og það skili sér í einhverskonar fegurð, kannski mun engin upplifa hana nema ég sjálf.

Í frásögn dagsins er Jesús í raun að hitta eftirlifandi ástvini sína og það fyrsta sem hann gerir er að sjá til þess að þeir veiði vel og fái að borða. Það minnir mig á annan mikilvægan hlut í okkar daglega lífi en það er að hlúa að syrgjendum. Mikið hafa þeir verið tættir og sorgmæddir félagarnir á bátnum. Þeir höfðu gengið í gegnum þvílíka hörmungartíma fylgjandi frelsaranum í gegnum þjáningu og niðurlægingu. - Ég ætla hvorki að nota hefndarklám eða orðið brjóstabylting í dag svo það geta allir andað léttar. - Já, öll þeirra framtíðarsýn hafði verið fótum troðin og þeirra lífi líka ógnað. Það var hættulegt að hafa fylgt Jesú, þeir voru hvergi óhultir. Svo er hann allt í einu þarna hjá þeim og segir bara: ,,Komið og matist.“

Eitt af því sem fólk í sálrænni angist og í kjölfar áfalla gleymir oft er að borða, það finnur ekki til svengdar eða getur ekki hugsað um mat og missir alla orku til að hlúa að sér. Það er rétt sem ein vinkona mín sagði við mig er hún hafði orðið fyrir stóru áfalli, að engin getur borið sorgir annarra. En það er hægt að hlúa að fólki hvað varðar líkamlegar þarfir þótt enginn geti tekið sorgina í burtu eða borið byrðarnar. Í mínu starfi er ég oft spurð af vinum og aðstandendum þeirra sem missa hvernig hægt sé að vera stuðningur á þessari erfiðu vegferð. Þá tala ég oft um gildi líkamlegrar aðhlynningar, bæði í formi snertingar og matargerðar. Það er fátt jafn dýrmætt fyrir syrgjendur eins og vera boðin í mat, vera faðmaður og umvafinn. Margir senda blóm og kort heim til syrgjandans og það er gott. En það getur verið miklu dýrmætara að fá heitan mat sendan heim eða gjafakort í nudd. Ein vinkona mín sem varð ekkja fyrir mörgum árum og hefur stundum hjálpað mér að uppfræða þau sem standa nálægt syrgjendum hefur hvatt þau til að gefa nuddtíma eða snyrtingu í stað blóma eða kertastjaka. Hún minnti á að þau sem eiga maka sakna svo náinnar snertingar og eru svo full af streitu og spennu að fátt sé betra en að nuddtími og dekur. Hún talaði líka um matinn og það að sjá til þess að fólk taki inn góð vítamín og bætiefni vegna þess að áfallastreita hefur svo mikil áhrif á ónæmiskerfið.

Það er best að sýna samúð í verki en ekki bara í orðum. Við höfum kannski ekki verið í sporum þess sem syrgir sárt og þess vegna er líka miklu skynsamlegra að hlusta frekar en að vera mikið að tala eða gefa ráð. En góð máltíð sem er borin fram af umhyggju og löngum til að gleðja er betra en flest annað. Ég man eftir því þegar ég var prestur í Vestmannaeyjum að Eyjamenn kunnu þetta. Oft þegar sorgin knúði dyra var sá sem missti umvafinn hagnýtri umhyggju nágranna og vina. Það gat falist í því að setja nýveiddan fisk á hurðahúninn, eða fara með bílinn í þvott, skipta um ljósaperu eða koma með lasagne í kvöldmatinn, passa börnin eða setja upp jólaseríur. Þau sem fá storminn í fangið geta misst svo mikla orku og frumkvæði að svona viðvik geta skipt sköpum, af því að sorgin lamar fólk. Eina sem þarf er að sjá náunga sinn og reyna af fremsta megni að setja sig í sporin hans eða hennar.

Mig langar til að deila þessu með ykkur í dag því frelsarinn sjálfur er stórkostleg fyrirmynd í því að hlúa að líkamlegum þörfum og líka í sorginni, inni í áfallinu. Munum að það sem nýtur umhyggju verður fallegt. Sorgin og gleðin eru systur og móðir þeirra er kærleikurinn. Margir syrgjendur eiga undursamlegar frásagnir af þeirri fegurð sem skapaðist í tengslum við annað fólk sem lagði sig eftir að setja sig í sporin þeirra og mæta þörfum í dagsins önn. Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.