Guðsþjónustan = Kærleiksþjónustan

Guðsþjónustan = Kærleiksþjónustan

Í guðsþjónustunni sem og í kærleiksþjónustunni mætum við Guði. Um leið og enn frekar er það hann sem kemur til okkar, við eigum samfélag í hans nafni hvort með öðru. Þetta samfélag á sér stað á sunnudegi eða hvaða degi vikunnar sem er. Þetta samfélag á sér stað í messunni eða hvar sem er.

Haft er eftir Martein Lúter að ef að allir þjónuðu náunga sínum þá væri heimurinn fullur af guðsþjónustu. Þar sem ég sat á ráðstefnu á Þrándheimi síðasta vetur fékk ég að heyra þessa tilvitnun aftur. Fyrirlesaranum var nokkuð niðri fyrir því hún hafði áhyggjur af því að liturgían gæfi fólki jafnvel kost á því að flýja veruleikann, gleyma hörmungum náungans í guðsþjónustunni í stað þess að gera eitthvað í hlutunum. Guðsþjónustuna mætti aldrei skilja frá kærleiksþjónustunni né öfugt.

Mikið var ég sammála þessum skörulega djákna sem þarna flutti ræðu. Hún heitir Anne Hirsch og er sjúkrahúsdjákni á St. Olav sjúkrahúsinu. Þegar ég nýverið las yfir glósur mínar frá fyrirlestri hennar varð þessi litli pistill til. Hugsaður til umhugunar um tengsl kærleiksþjónustu og guðsþjónustnnar.

Í guðsþjónustunni sem og í kærleiksþjónustunni mætum við Guði. Um leið og enn frekar er það hann sem kemur til okkar, við eigum samfélag í hans nafni hvort með öðru. Þetta samfélag á sér stað á sunnudegi eða hvaða degi vikunnar sem er. Þetta samfélag á sér stað í messunni eða hvar sem er. Og saman skapa þessi samfélög, guðsþjónustan í kirkjunni og kærleiksþjónustan á götunni, hið kristna samfélag. Kærleiksþjónustan hefst með sendingunni í guðsþjónustunni, nær út á götuna og endar í fyrirbæninni í guðsþjónustunni. Eitt samfélag, söfnuðurinn eitt í Kristi.

Í huga mér varð fyrsta fullyrðing hennar um að litúrgían gæti verið leið fyrir fólk til að flýja hörmungar heimsins smáleg miðað við næstu spurningu sem hún setti fram í þessu samhengi. Því hún spurði hvort verið gæti að kirkjurýmið væri þannig hannað að við þessi ófötluðu, vel stæðu, sem hefðum það svo gott gætum sótt kirkju án þess að nokkuð sýnilegt minnti okkur á hörmungar þessa heims eða þær áskoranir sem náungi okkar býr við? Mér var brugðið.

Þar sem ég sat og hlustaði á ræðu hennar öðlaðist ég nýja sýn á hlutum eins og hjólastólabraut upp að altari kirkjunnar: Hjólastólabrautin sem tákn um að upp að altarinu eru allir velkomnir, líka þeir sem geta ekki gengið á tveimur jafnfljótum þangað upp. Sálmabækur fyrir sjónskerta og sæti í kirkjunni þar sem er betri lýsing, ábendingar um hvernig samstilla megi heyrnartæki við hljóðkerfi, leikhorn fyrir minnstu börnin, skiptiborð aðgengilegt á snyrtingu í anddyri kirkjunnar ... Allt skilaboð frá kirkjunni um að hér séu allir velkomnir. Þetta þýðir fyrir okkur að hugsunin ,,Já en þetta eru svo fáir” verður að víkja. Því að þetta snýst þá ekki um hver notar viðkomandi þjónustu heldur skilaboðin: Allir velkomnir, kærleiksþjónustan sýnileg í kirkjurýminu. En auðvitað gildir hér eins og alltaf: Samhengið þarf að vera rétt, merki sem sýna að þú sért velkomin(n) verða að vera í takti við viðhorf þeirra sem mæta þér í kirkjunni.

Það er náðin sem gerir okkur það mögulegt. Afstaða kristins einstaklings að hann sé af náð hólpinn orðinn. Hann er ekki betri en einhver, hefur ekki staðið sig betur en einhver né uppfyllt ákveðin skilyrði heldur tekur Guð á móti honum opnum örmum: Barnið mitt þú ert velkomið eins og þú ert.

Og í ljósi náðarinnar stöndum við öll jafnfætis. Við göngum veginn saman með Kristi og hann gefur okkur þann kraft sem við þurfum til samstöðu. Þannig verður samfélagið sterkt því að ef ég hrasa þá réttir þú mér höndina svo að saman getum við gengið áfram. Og í slíku samfélagi erum við vitnisburður um kærleika Krists, sýnum í verki að við erum eitt í Kristi. Og slík samstaða nær út fyrir borgarmúrinn. Við hugsum hnattrænt og tökum skrefin heima fyrir í því samhengi.

Neyðin á sér margar hliðar og hún er helsta áskorunin fyrir þetta samfélag jafningja. Því er þörf á guðfræði sem bíður upp á form trúarlífs þar sem að hið daglega líf og trúarlífið í guðsþjónustunni haldast í hendur. Sá sem sækir guðsþjónustuna þarf að fá kraft og bjartsýni til að ganga aftur út í hið daglega líf sem hluti af samfélagi sem hefur kraft, þor og áræði til þess að standa saman í gegnum súrt og sætt. Þannig að við eignumst lífsfyllingu sem er full af lífi og rúmar líf hvers og eins.

En slíkt er ekki mögulegt án þess að við sameinumst í syndajátningunni í messunni. Við játum syndir okkar, mistök okkar og hugsunarleysi, við játum samstöðuleysið sem veldur því að aðrir eru utanveltu, þeim ekki sinnt. Og þeir sem mættir eru í messuna játa syndir þessa kristna samfélags sem er brotlegt og breyskt. Og við hugsum til þeirra sem eru í guðsþjónustu dagsins en einnig þeirra sem ekki gátu mætt þennan daginn. Þetta verður sérstaklega skírt í fyrirbæninni þar sem við leggjum neyð og þjáningu systkina okkar í trúnni, mannkynsins alls í hendur Drottins.

Mér þykir ljóst: Ef við sem kirkja viljum áfram vera trúverðug og þjóna Drottni hér á jörð þá þurfum við að taka okkur tak og muna að opin kirkja þýðir meira heldur en að stungið sé lykli í skrá og hurð lokið upp.