Mundu eftir mér

Mundu eftir mér

Getur verið að áhersla okkar á að fólk frá öðrum löndum, sem velur að setjast hér að, læri tungumálið og ljúki íslenskuáföngum til þess að öðlast ríkisborgararétt sé á kostnað þess að við sjáum manneskjurnar sem hingað koma eins og þær eru?

mundu-eftir-mer.jpg
Þau stóðu sig vel Eurovisionfararnir okkar í gær þó að stigataflan bæri þess ekki merki. Til hamingju Gréta Salóme, Jónsi og öll hin sem kepptu fyrir Íslands hönd í gær!

Á hvítasunnu, fyrstu stóru ferðahelgi ársins safnaðist stór hluti þjóðarinnar fyrir framan sjónvarpstækin, notaði tækifærið og bauð í partý og vonaði það besta. Ætli mörg hafi ekki horft á keppnina í sumarbústöðum og á tjaldstæðum um helgina.

Hvítasunna er ein af þremur stærstu hátíðum kirkjunnar, ásamt jólum og páskum en þó er messusókn ekkert í líkingu við hinar hátíðirnar. Þar sem ekki eru fermingar eru yfirleitt ekki mikið af fólki í kirkju.

Er hvítasunnan kannski týnda hátíðin?

Eða er hvítasunnan kannski stórhátíðin sem stór hluti þjóðarinnar heldur hátíðlega úti í náttúrunni, sköpunarverkinu, stærstu kirkjunni?

Gréta Salóme var innblásin af sögunni um Ragnheiði biskupsdóttur og Daða Halldórsson þegar hún samdi lag og texta lagsins sem keppti fyrir Íslands hönd í söngvakeppninni í gær.

Saga Ragnheiðar er sorgarsaga um óréttlæti, misrétti, valdbeitingu föðurs og embættismanns og um misnotkun á trúnni.

Þegar grunur leikur á að Ragnheiður eigi í ástarsambandi við kennara sinn Daða Haldórsson lætur faðir hennar hana sverja þess eið að hún sé hrein mey. Hún sver eiðinn en níu mánuðum síðar eignast hún son. Faðir hennar tekur soninn af henni og rekur hana af heimilinu. Ári síðar deyr Ragnheiður vegna veikinda og sonur hennar lést 11 ára gamall. Brynjólfur biskup, faðir Ragnheiðar, eignast því enga erfingja.

Þau fá ekki að unnast:

Syngur hljótt í húminu. Harmaljóð í svartnættinu. Í draumalandi dvelur sá sem hjarta hennar á.

Hann mænir út í myrkrið svart. Man þá tíð er allt var bjart. Er hún horfin? Var það satt að ástin sigri allt?

En ástin er sterk:

Og seinna þegar sólin vaknar,sameinast á ný þær sálir tvær sem áður skildu, ástin veldur því.

Mundu eftir mér þegar morgun er hér, þegar myrkrið loks á enda er. Við verðum eitt og því ekkert fær breytt. Og ég trúi því að dagur renni á ný.

Þetta fallega en tregafulla ástarljóð fjallar um von þeirra er ekki fá að unnast. Það fjallar um trú. Það fjallar um vonina um að elskendur sameinist á ný. Vonina og trúna á að allt verði gott á ný:

Já, ég trúi því að dagur renni á ný.

Textinn boðar von og trú á lífið, á manneskjuna, þrátt fyrir óréttlæti og mótlæti heimsins. Að ástin sigri þó til séu strangir pabbar, óréttlátir embættismenn, mæður sem ekki alltaf standa með börnunum sínum. Þó mannvonskan og vanþekkingin sé oft kærleikanum yfirsterkari.

Þetta fallega lag, framlag Íslands í söngvakeppni sjónvarpsstöðva, hefur hljómað í útvarpi, sjónvarpi og vefmiðlum undanfarna mánuði. Við höfum vanist því og mörgum þykir orðið vænt um það.

Á hvítasunnu flytja þessir verðugu fulltrúar okkur boðskap um von og trú á lífið. Þau syngja um það sem skiptir öllu máli fyrir manneskjuna, ástina, trú á lífið og jákvæða lífssýn.

Ég efast ekki eitt augnablik um að þau eru fyllt heilögum anda. Það er nefnilega einmitt þannig sem heilagur andi, virkar.

Andinn Andinn, sem oft er kallaður huggarinn eða hjálparinn er eitt birtingarform Guðs á meðal okkar. Andinn er á meðal okkar og í okkur, öllum stundum. Alltaf. Rétt eins og loftið sem við öndum að okkur. Andinn er vonin, trúin og bjartsýnin. Trúin á að ástin og lífið hafi betur.

Þegar heilagur andi kom yfir lærisveinana, uppgötvaði fólk allt í einu að það skildi hvert annað. Þeir töluðu allt í einu tungumál allra. Engin/n var lengur útlendingur.

Samskiptin þeir mismunandi tungumál á þessari stundu eða var það kannski svo að allt fólkið sem var samankomið fylltist heilögum anda og skildi hvert annað á öðru plani? Skildi það hvert annað kannski með hjálp umburðarlyndis og kærleika?

Það að kunna tungumál er vissulega lykill að samskiptum í heiminum en oft á tíðum snúast samt samskipti um annað en talað eða ritað orð.

Tungumálakunnátta er mikilvæg en hún er ekki allt.

Getur verið að við leggjum of mikla áherslu á fallega tungumálið okkar hér á Íslandi? Getur verið að áherslan á að varðveita þetta forna mál hafi kostað það að tungumálið hafi ekki þróast sem skildi. Að oft vanti okkur hugtök yfir tilfinningar og annað sem hafi orðið undir í áherslunni á verndun og varðveislu?

Getur verið að áhersla okkar á að fólk frá öðrum löndum, sem velur að setjast hér að, læri tungumálið og ljúki íslenskuáföngum til þess að öðlast ríkisborgararétt sé á kostnað þess að við sjáum manneskjurnar sem hingað koma eins og þær eru?

Ég á vin sem valdi að setjast að hér á landi vegna ástarinnar. Hann varð ástfanginn af íslenskri stúlku. Giftist henni og eignaðist barn með henni. Þetta er vel menntaður maður, heimsborgari, sem gaf upp gott starf í landinu sínu og settist hér að. Hann var staðráðinn í að læra íslensku og gerði ráð fyrir að hér vildi einhver nýta sér menntun hans.

En eftir fimm ára búsetu hér á landi og fjölda íslenskunámsskeiða hefur enn enginn stofnun eða fyrirtæki viljað ráða hann í vinnu nema í ótryggt hlutastarf. Þrátt fyrir að auglýst séu störf með kröfu um menntun og reynslu sem hann einmitt hefur, þótt tekið sé jafnvel fram að viðkomandi þurfi ekki að hafa góða íslenskukunnáttu. Þá er alltaf Íslendingur ráðinn í starfið.

Við, vinir hans og tengdafjölskylda, höfum þurft að fá áminningu um að byrja ekki samræðurnar við hann, í hvert skipti sem við hittumst, á að spyrja: -Og hvernig gengur svo með íslenskuna-. Við höfum þurft að vera minnt á að þessi maður er svo mikið meira en tungumálakunnátta hans. Að hann er meira en strákur á íslenskunámskeiði.

Við, sem teljum okkur svo fordómalaus og opin fyrir fólki frá öðrum löndum (í það minnsta hinum réttu löndum) erum kannski ekki alltaf jafn fordómalaus og við teljum okkur vera.

Við sendum þau skilaboð að ef þú vilt búa hér þá þarft þú að læra erfiða tungumálið okkar og helst að vera betri í því en við sem eru fædd hér og uppalin ef þú ætlar að fá vinnu hér og verða eitthvað. Reyndar er ekki víst að það verði nóg því að við munum alltaf fylgjast með því hvort þú kunnir raunverulega eins mikið og þú lætur sem þú gerir.

Á sama tíma finnst okkur reyndar allt í lagi að flytja til Noregs og fá vinnu þar án þess að kunna málið. Við erum nú svo fljót að læra það. Við höfum nú öll lært dönsku í skóla þegar við vorum börn og unglingar. Er þetta ekki ósköp svipað?

Okkur finnst allt lagi að flytja til Lúxemborg og læra ekki lúxemborgsku, frönsku eða þýsku. Við tölum nú svo góða ensku.

Rannsóknir í samskiptafræðum hafa leitt í ljós að við komum aðeins litlum hluta af því sem við viljum tjá með hinu talaða orði. Líkamstjáning, svipbrigði, tónninn í röddinni, möguleg snerting og fleira gefur orðunum innihald og segja oft mun meira en orðin sjálf. Og oft eru orðin, tungumálið alls ekki nauðsynlegt.

Hlýja, umburðarlyndi og kærleikur í samskiptum skipta kannski mun meira máli en orðin sjálf, en tugumálakunnáttan.

Andinn Kannski var það alls ekki skyndileg tungumálakunnátta lærisveinanna sem gerði það að verkum að fólkið skildi þá þennan dag.

Jesús hvetur vini sína og fylgdarfólk til þess að fara út og gera allar þjóðir að lærisveinum. Þeir eiga að skíra og kenna. Þeir eiga ekki að sitja heima og bíða eftir að fólkið komi til þeirra og krefjast þess að það læri fyrst íslensku eða Arameísku. Þeir eiga sjálfir að fara út, læra ný tungumál og samskiptaform. Kynnast nýjum menningarheimum og fólki með annan bakgrunn en þeir sjálfir. Þeir eiga að temja sér umburðarlyndi og losa sig við fordóma svo að fólk taki trú og vilji láta skíra sig.

Mundu eftir mér Mundu eftir mér þegar morgun er hér. Þegar myrkrið loks á enda er. Við verðum eitt og því ekkert fær breytt og ég trúi því að dagur renni á ný.

Guð man eftir þér! Guð sendir þér og mér heilagan anda, gefur okkur aukinn skilning og úthellir nærveru sinni yfir okkur. Heilagur andi gefur okkur vonina um að dagur renni á ný. Að við sameinumst að lokum. Að hið góða sigri ávallt að lokum. En okkar er valið. Viljum við þiggja hann? Amen