Tvær konur

Tvær konur

Augu kvennana mætast yfir fjölskyldupakka af Cheeriosi og ferskum kjúklingi. Önnur setur Always Ultra í pokann sinn á meðan hin spáir í hvort camenbertosturinn sé nógu góður með víninu sem hún ætlar að fá sér í kvöld.

Tvær konur. Þá. Það seytlar, það rennur, það streymir. Óhreint tíðarblóðið. Hún er óhrein. Það er óþægilegt að tala um það sem er óhreint.

Hún á ekki Always Ultra og legnám er ekki í boði. Hennar eini kostur er að halda sig utan við samfélagið, vera án snertingar við nokkra manneskju. Hún hefur verið óhrein í 12 ár, varla snert nokkra sálu á þeim tíma. Nema barnið sitt.

Þar til hún óhlýðnaðist.

Konur dagsins eru tvær. Önnur er ung, mikið veik, jafnvel látin. Hin gæti verið um þrítugt, máttfarin af stöðugum blæðingum, uppgefin og útskúfuð. Önnur á valdamikinn föður sem getur útvegað henni bestu mögulegar lækningar. Hin er óhrein kona sem enginn hefur áhuga á að koma til bjargar.

Önnur óhlýðnast. Hin þarf það ekki.

Óhlýðnar konur eru erfiðar og óþægilegar, svolítið eins og tíðarblóð, nema á tyllidögum eins og alþjóða baráttudegi kvenna. Þá er gott að draga þær fram í dagsljósið því þær áorkuðu svo miklu fyrir okkur hinar.

Þegar óhlýðna konan tróð sér inn í mannþröngina og snerti kyrtil Jesú braut hún skrifuð og óskrifuð lög samfélagsins. Í Móselögunum stendur skýrt að kona sé óhrein þegar hún hefur á klæðum. Þá má hún ekki snerta fólk og á að halda sig innandyra. Óskrifuðu lögin voru kannski þau að konur áttu ekkert að vera að þvælast þarna því Jesús hafði mikilvægari hnöppum að hneppa en að tala við þær.

Eitthvað hefur komið á strákana í kringum Jesú og virðulegu herrana í vönduðu kuflunum þegar hann rak hana ekki í burt. Engum hefði þótt nokkuð athugavert við að hann skammaði hana. Þeir áttu sannarlega ekki von á því að hann hrósaði henni og leyfði henni að fara með reisn. Það sem gerðist stuttu síðar heima hjá samkundustjóranum var enn undarlegra en af allt öðrum ástæðum.

Það sem gerðist þar átti ekki að geta átt sér stað. Kannski var það kraftaverk. Sumir sögðu að hún væri dáin. Hann sagði að hún væri sofandi.

Tvær konur. Nú. Tólf ár eru liðin og þær standa í sömu röðinni í Bónus.

Þær vita ekki af hvor annarri.

Yngri konan er þreytuleg. Hún er með tvö ung börn með sér sem keppa um athygli hennar. Minna barnið grætur en það stærra vill að mamma kaupi nammið sem er svo lokkandi þarna við kassann.

Eftir atvikið fyrir tólf árum vandist hún því að vera sérstök í augum foreldra sinna. Hún var kraftaverkið þeirra. Litla stúlkan sem lifði þegar læknarnir héldu að hún myndi deyja. Hún vissi alltaf að hún var augasteinn foreldra sinna en þau sýndu henni það enn betur, ef mögulegt var, eftir atvikið.

Hún er búin að vera gift í fjögur ár og skilur ekki hvers vegna maðurinn hennar getur ekki elskað hana. Hún hefur alltaf verið elskuð. Hún kynntist honum í gegnum vinkonu sína. Hann var svo sætur og skemmtilegur. Hún féll fyrir honum þegar hún sá hann fyrst. Hann varð líka hrifinn af henni enda ekki annað hægt. Hún svona falleg og góð. Já, og bæði skemmtileg og gáfuð.

Þau giftu sig árið sem þau urðu tvítug og hún var þá komin fjóra mánuði á leið.

Hún skilur bara ekki hvers vegna hann getur ekki elskað hana. Hann segist gera það. En þegar hann slær hana, hrækir á hana og ógnar henni með allskyns hlutum þá getur hann ekki elskað hana. Hann getur ekki elskað hana þegar hann er með öðrum konum, þegar hann kemur heim drukkinn og grobbar sig af því að hafa verið með öðrum sætari og meira til í tuskið en hún er. Hún veit að hann hefur þá verið á stöðum sem kærastar vinkvennanna fara ekki á.

Þau eiga þessi tvö yndislegu börn en hún er hrædd um þau. Þau hafa nú þegar séð hluti sem börn eiga aldrei að sjá. En hún veit ekki hvað hún á að gera. Hún hefur ekki sagt neinum frá þessu. Hún er alveg hætt að hitta vinkonurnar og fjölskylduna hittir hún aðeins á tyllidögum. Kannski ef hún leggur aðeins meira á sig. Fer í brjóstastækkun eða léttist meira. Nei. Einhversstaðar veit hún að þetta snýst ekkert um það. En það sakar kannski ekki að reyna. Þau eiga nú tvö börn.

Það veit enginn hvernig hún hefur það í alvörunni.

Eldri konan lítur vel út. Hún er að versla í kvöldmatinn. Þau ætla að elda eitthvað gott í kvöld, hún og sambýlismaðurinn. Þau eru búin að vera saman í nokkur ár og hún er sátt. Erfiðu árin eru að baki, árin þegar það blæddi sem mest. Það var líka erfitt að fara í legnámið og sætta sig við að eiga ekki möguleika á að eignast fleiri börn. Ekki það að hana hafi endilega langað í annað barn en henni hafði líkað vel að vita að möguleikinn væri fyrir hendi. Eiga valið. Hún á eina dóttur. Það er alveg næg blessun. Það var samt eins og umhverfið gerði ráð fyrir því að henni liði illa yfir því að vera ekki frjósöm lengur. Svolítið eins og hún væri ekki alvöru kona.

Hún ber virðingu fyrir sambýlismanni sínum og upplifir að hann virði hana. Þau eru ekki alltaf sammála en það er allt í lagi.

Eftir að hún fór að taka þátt í jafnréttisbaráttunni, varð þekkt fyrir að vera ”herskár” eða ”öfgafullur” feministi eins og sumir orða það svo fallega, breyttist sumt. Hún var ekki lengur vinsæl hjá karlmönnum á sama hátt og hún hafði verið áður. Það var eins og að veiðileyfi hefði verið gefið á hana. Mörg stóðu með henni en margir voru á móti. Mörg höfðu áhuga á málefninu en fleiri höfðu áhuga á aðferðunum. Það virtist vera skemmtilegra að ræða um persónu hennar en um málefnin. Hún hefur áhyggjur af ofbeldimálum. Kynferðisofbeldi sem ekkert minkar. Öfugri sönnunarbygði brotaþola nauðgana og kynferðisofbeldis. Fáum kærum og vægum dómum í kynferðisbrotamálum. Hún hefur áhyggjur af því að erfitt er að sanna brot sem eiga sér stað án vitna. Henni þykir óréttlátt að réttarhöld séu opin og nöfn birt þegar konur og útlendingar eiga í hlut en séu lokuð og nöfnum leynt þegar áhrifamiklir karlar eiga í hlut. Hún hefur miklar áhyggjur af útlits- og æskudýrkun samfélagsins og klámvæðingu sem sífelt erfiðara verður að sporna við.

Hún vill breyta hugsunarhættinum. Að jafnrétti verði jafn sjálfsagt og önnur mannréttindi. Og þá þarf stundum að ögra svo að fólk hafi áhuga á að hlusta.

Augu kvennana mætast yfir fjölskyldupakka af Cheeriosi og ferskum kjúklingi. Önnur setur Always Ultra í pokann sinn á meðan hin spáir í hvort camenbertosturinn sé nógu góður með víninu sem hún ætlar að fá sér í kvöld.

Örlög þessarra kvenna eru ólík. Þær vita ekki hversu margt þær eiga sameginlegt. Þeim er ekki efst í huga, á þessari stundu, að þær eru báðar elskaðar dætur Guðs. Þær vita ekki að báðar hafa þær upplifað inngrip Jesú Krists í líf sitt.

Þær eru bara að einbeita sér að því að lifa og að lifa af.

Alþjóða baráttudagur kvenna Fyrir þremur dögum var alþjóða baráttudagur kvenna og því kynnumst við þessum tveimur konum í dag. Örlög þeirra eru ólík en þær tengjast í gegnum Jesú Krist. Þær tengjast einnig baráttunni fyrir réttlátara samfélagi, fyrir jafnrétti. Önnur konan býr við ofbeldi og misnotkun og þarf hjálp við að koma sér út úr því. Hin býr við öryggi og góð tengsl við sjálfa sig og umhverfi sitt. En hún verður fyrir stöðugum núningi, skítkasti og jafnvel hótunum frá fólki sem finnst feministar vera öfagullir og leiðinlegir.

Jafnrétti kynjanna er ein af forsendunum fyrir betri heimi og því er ástæða til þess að vekja athygli á alþjóða baráttudegi kvenna. Líka í kirkjunni.

Kynjamisrétti hefur m.a. getið af sér kynbundið ofbeldi, ofbeldi gegn konum og stúlkum sem er eitt útbreiddasta mannréttindabrot okkar tíma. Kirkjan hefur því miður ekki verið undanskilin kynbundnu ofbeldi enda endurspeglar hún það samfélag sem hún er hluti af. Kirkjan hefur löngum verið hluti af og jafnvel boðberi feðraveldisins og það sem gerðist í tengslum við málefni fyrrum biskups kirkjunnar er skýrt dæmi um hvernig kynbundið ofbeldi þrífst þar sem misrétti kynjanna er veruleiki. Kirkjunni, eins og stórum hluta félaga og stofnanna samfélagsins, hefur lengi verið stjórnað af valdamiklum körlum og fáar konur eru þar í áhrifastöðum. Vonandi verður brátt breyting á því!

UN Women

Konurnar tvær sem við heyrðum um gætu allt eins verið frá El Salvador, Kína eða Sri lanka en þau lönd eru meðal þeirra er UN Women hefur stutt undanfarið m.a. með aðstoð við innleiðingu jafnréttislaga og aukna þátttöku kvenna í stjórnmálum. En eitt helsta verkefni UN Women er:

”að vera málsvari kvenna í þróunarlöndum og á átakasvæðum með það að leiðarljósi að störf þeirra séu órjúfanlegur hluti efnahags- og félagslegrar þróunar”.

Það er sannarlega mikilvægt verkefni að rétta stöðu kvenna og jafna stöðu kynjanna um allan heim. Það er margsannað að við græðum öll á því, konur, karlar og ekki síst börn.

Til þess að jafnrétti náist þarf viðhorfsbreytingu, aukna þekkingu og samstöðu. Jafnrétti er komið langt á Íslandi miðað við mörg önnur lönd. Lagaumhverfið hér á landi er orðið nokkuð gott þegar kemur að jafnrétti kynjanna en mikið vantar enn upp á að þeim lögum sé fylgt.

Það gagnast okkur auk þess lítið að eyða tíma og kröftum í að deila innbyrðis um það hver sé besti femínistinn. Ég held að það sé gott að við förum ólíkar leiðir að markinu og fögnum því að við erum ólík og vinnum þetta saman, konur og karlar.

Það er kannski ekki úr vegi að líta til árangursins sem náðst hefur í baráttunni fyrir réttindum samkynhneigðra enda hefur barátta þeirra að mörgu leyti verið árangursríkari en jafnréttisbaráttan.

Jesús læknaði konurnar tvær án þess að spyrja um kyn eða stöðu. Hann ræddi ekkert síður við konur um gleðiboðskapinn og Guðsríki, en við karla. Víst þykir, að konur hafi verið meðal lærisveina Jesú.

Kannski var Kristur fyrsti feministinn? Hann flokkaði fólk ekki í hreint og óhreint.

Kristur sætti sig aldrei við ofbeldi.

Kristur vill ekki heim sem hampar sonum sem hetjum en dáir dætur vegna útlits og æsku. Kristur vill að við elskum okkur sjálf og hvert annað, eins og við erum. Karlar og konur.

Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar manneskja, þræll né frjáls manneskja, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú.