Já!

Já!

Kristin trú kennir okkur að það er alltaf hægt að rísa upp úr öllum aðstæðum, hversu hræðilegar sem þær kunna að vera hvort sem við erum þolendur eða gerendur.

„Því hann er besti vinur sem þú eignast getur hér því hann gaf sitt líf á krossi fyrir þig.“

Það er fallegt viðlagið við þennan söng sem við vorum að syngja og við ættum að muna þessi orð alltaf. Jesús er besti vinur okkar, sem við getum talað við um allt sem hvílir á okkur.

Það er frábært að vera hérna, stórkostleg upplifun að vera á landsmóti. Algjör foréttindi að fá að vera hér með 600 öðrum unglingum og upplifa allt það sem hér hefur verið í boði.

Já, þið eruð heppin. Þið eruð lánsöm vegna þess að þið munuð búa að þessari reynslu alla ævi. Þið munuð muna eftir þessu landsmóti alla ævi.

Ég var með dóttur minni um síðustu helgi sem er 26 ára og við vorum að ryfja upp ýmislegt sem gerðist þegar ég var barn og unglingur og hún var líka að ryfja upp margt sem gerðist þegar hún var barn og unglingur. Sumt mundi hún og sumt mundi ég. Það er nefnilega þannig með lífið að flestir dagar falla í gleymsku. Við munum kannski um 10% að öllu sem við upplifum, en ég get lofað ykkur því að þessu landsmóti munuð þið ekki gleyma. Þið munuð muna þetta alla ævi.

Þið hafið upplifað margt, en þið hafið líka lært mikið. Það fékk ég að heyra þegar ég talaði við leiðtogana ykkar hér þegar ég kom áðan. Og mig langar til að biðja ykkur um að muna líka það sem þið hafið lært.

Já….já……já er kannski mikilvægasta orð í íslensku. Það er mikilvægt af því að það er mikilvægt að vera jákvæður. Jákvæðni mótar hugsun okkar.

Neikvæðni stjórnar líðan okkar. Það vitum við öll, en við verðum að muna að jákvæðni mótar líka líðan okkar. Við getum ákveðið að vera jákvæð.

Við getum ekki ákveðið hvað kemur fyrir okkur í lífinu, en við getum ákveðið að vera jákvæð.

Málið er nefnilega að það er ekki spurning hvað kemur fyrir okkur í lífinu, heldur hvernig við tökum því, hvernig við bregðumst við og hvernig við vinnum úr því sem kemur fyrir okkur.

Ég veit að mörg ykkar hafa lent í erfiðri lífsreynslu. Ég veit það af því að ég er búin að tala við margt fólk á lífsleiðinni. Ég er búin að vera prestur í yfir þrjátíu ár meira en helmingi lengur en þið flest hafið lifað. Ég hef talað við margt fólk á þessum arum í erfiðum aðstæðum. Ég hef talað við fólk sem hefur orðið fyrir ofbeldi innan veggja heimilisins, fólk sem hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni og kynferðislegu ofbeldi. Það er mikil og sársaukafull vinna að vinna sig út úr slíku. Ég veit að mörg ykkar hafa upplifað slíkt. Ég veit að þið hafið gengið í gegnum sorg, misst einhvern ykkur náinn, mörg ykkar hafið upplifað skilnað foreldra, ofbeldi á heimilum, kynferðislega áreitni og jafnvel kynferðislegt ofbeldi.

Ef svo er þá skuluð þið tala um það og leita ykkur hjálpar.

Svo kann það líka að vera að einhver hér inni hafi beitt einhvern ofbeldi, lagt einhvern í einelti, jafnvel kann svo að vera að einhver hér inni hafi beitt kynferðis ofbeldi. Við ykkur vil ég líka segja: Talið um það, leitið ykkur hjálpar.

Kristin trú kennir okkur að það er alltaf hægt að rísa upp úr öllum aðstæðum, hversu hræðilegar sem þær kunna að vera hvort sem við erum þolendur eða gerendur.

Í trú á Jesú, í bæn í ákalli til Jesú gerist eitthvað alveg sérstakt. Jesús heyrir bæn okkar og réttir okkur hönd sína og reisir okkur við. Hann er alveg eins og bóndinn sem tekur á móti lambi á vorin. Ég veit að einhver ykkar koma úr sveit og hafið séð þegar lömbin fæðast. Þá geta þau ekki alveg haldið jafnvægi á litlu fótunum sínum og þá tekur bóndinn utan um lambið og reisir það við og heldur því þangað til það getur staðið. Þannig er Guð. Guð reisir okkur við úr erfiðustu aðstæðum og heldur okkur þar til að við náum jafnvægi.

Jesús gefur okkur styrk og kraft, en hann kennir okkur líka margt. Meðal þess sem Jesús kennir okkur er tvöfalda kærleiksboðorðið sem lesið var hérna áðan um það að við eigum að elska Guð og náungann.

Jesús segir að það að elska Guð og náungann eigi að haldast í hendur. Krossinn sem er tákn okkar kristins fólks finnst mér líka vera tákn um tvöfalda kærleiksboðorðið. Lóðrétti ásinn minnir okkur á kærleika Guðs til okkar og þann kraft og styrk sem Guð gefur okkur og lárétti ásinn minnir okkur á kærleika okkar til hvers annars. Hjálpin kemur að ofan. Þaðan fáum við styrk og kraft og þessum krafti eigum við að miðla til annarra. Við eigum að vera farvegur fyrir kærleika Krists. Eins og árfarvegur tekur á móti vatni og vatnið streymir um farveginn og áfram, þannig eigum við að vera, farvegur fyrir kærleika Krists.

Nú fer að líða að því að við förðum héðan af landsmóti.

Hvað tökum við með okkur héðan og heim til okkar?

Við tökum með okkur kærleika og hjálpsemi. Við tökum með okkur kraft sem við skulum rækta Við skulum ekki loka það innra með okkur sem við höfum upplifað hér, heldur veita því áfram. Guð gefi ykkur blessun til þess í Jesú nafni. Amen.