Á morgun er í dag

Á morgun er í dag

Á morgun er í dag. Augnablik þessarar stundar er á morgun. Ég hef tekið ákvörðun um fyrir mína hönd að svo skuli vera framvegis. Framtíðin er núna á þessu augnabliki. Ég lifi ekki fyrir þessa stund heldur á morgun. Augnablikið og þau hughrif sem það færir með sér er ekki til vegna þess að ég er komin fram úr sjálfum mér frá og með þessari stundu. Ekki endilega um einn dag heldur hef ég gefið mér sjálfsvald til þess að vera komin viku eða mánuðum fram úr sjálfum mér eftir því sem mér hentar.

Þá kemur Jesús frá Galíleu að Jórdan til Jóhannesar að taka skírn hjá honum. Jóhannes vildi varna honum þess og sagði: Mér er þörf að skírast af þér, og þú kemur til mín!

Jesús svaraði honum: Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti. Og hann lét það eftir honum.

En þegar Jesús hafði verið skírður, sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir, og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig. Og rödd kom af himnum: Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Matt. 3.13-17

Á morgun er í dag. Augnablik þessarar stundar er á morgun. Ég hef tekið ákvörðun um fyrir mína hönd að svo skuli vera framvegis. Framtíðin er núna á þessu augnabliki. Ég lifi ekki fyrir þessa stund heldur á morgun. Augnablikið og þau hughrif sem það færir með sér er ekki til vegna þess að ég er komin fram úr sjálfum mér frá og með þessari stundu. Ekki endilega um einn dag heldur hef ég gefið mér sjálfsvald til þess að vera komin viku eða mánuðum fram úr sjálfum mér eftir því sem mér hentar.

Einhver kann að segja að þetta er ekki hægt. Þú kemst ekki hjá því að finna sjálfan þig eða finna fyrir sjálfum þér í augnablikinu. Annað eru hugarórar sem má finna í vísindaskáldskap. Sá skáldskapur finnur sér ekki stað í lífinu sem við lifum ekki frekar en annar skáldskapur. Þrátt fyrir að gróðurmold skáldskaparins er að finna í lífinu, þessu hversdagslega sem virðist ekki breyta um ásýnd og verður grámygluleg og við reynum að hlaupa frá eftir bestu getu.

En aftur að þessu með að geta ekki í rauntíma lifað framtíðna nú á þessu augnabliki.

Þá er því til að svara. Jú, víst er það hægt. Það er allt hægt ef viljinn sé fyrir hendi segir einhverstaðar. Í raunveruleikanum lifum við flest svona. Líf okkar nútímamanneskja allavega á vesturhveli jarðar er akkúrat þannig að við leyfum okkur ekki að staldra við í augnablikinu og njóta þessa sem hefur svo margt við okkur að segja hvað bíður okkar á þeirri hárfínu stundu sem er á milli augnblikana og við erum gjörn á að kalla einskisverð en er svo djúp og breið, full af visku þess sem er. Við getum ekki staðnæmst við þá hugsun vegna þess þegar til á að taka að njóta erum við komin fram úr okkur og augnablikin mörg að baki. Við segjumst ætla að njóta augnabliksins en gerum það ekki því að hugurinn hefur leitt okkur áfram til þess sem gæti verið - seinna. Ekki sem er núna. Hugtakið “seinna” klæðum við í föt augnabliksins. Hvernig þau föt líta út er ekki hægt að segja til um vegna þess að þegar til á að taka að skoða þau eru þau ekki eins og þau voru augnabliki áður.

Flest okkar ef ekki öll eiga sér drauma og væntingar um framtíðina. Allt gott um það að segja. Að eiga sér drauma um eitthvað er hollt. Væntingar og draumar gera lífið líka flóknara. Ég hef staðið sjálfan mig að því að hugsa sem svo að ég vildi ég ætti mér ekki drauma og væntingar því það segir sig sjálft að þá væri lífið mun einfaldara. Er það ekki sem við erum að leita af, eftir einföldu og fyrirsjáanlegu lífi. Kannski ekki þegar það er hugsað ofan í kjölin. Vandamálið við að eiga sér drauma og væntingar eru þær að við verðum um of upptekin af því að láta þá rætast. Með öðrum orðum að lífið snýst um það að láta eitthvað rætast eitthvað óræðið í stað þess að leyfa okkur að láta það koma okkur á óvart svona stundum. Lífið er langur vegur og leiðirnar margar að markmiði því sem við sjálf setjum okkur í lífinu. Oftast er það svo að okkur liggur á að nema framtíðarlönd væntinga og drauma okkar. Til þess að svo megi verða erum við tilbúin að leggja ýmislegt á okkur og leggjum kannski ekki hugan að því áður, hvernig eða á hvern hátt við nálgumst markmiðið. Orsök og afleiðing gæti verið sú að við upplifum markmiðið áður en nálgunin hvernig sem hún verður er náð. M.ö.o. við förum fram úr sjálfum okkur. Þegar okkur finnst að við nálgumst eða stöndum upp að mitti í miðju augnabliksins sem var í bláma fjarlægðar fyrir ekki svo margt löngu er það ekki lengur spennandi og við höldum áfram að ganga um dali og hæðir væntinga okkar og drauma. Vegna þess að væntingarnar og draumarnir voru ekki fullmótaðir eða ekki var innistæða fyrir þeim, búin að taka væntingarnar og draumana út svo að við höldum ferð okkar áfram á kredit. Snúum við hverri steinvölu sem á vegi okkar verður til þess örugglega að missa ekki af því sem við leitum af. Þessa sem við leitum er vissulega mismunandi. Á meðan ein/nn leitar auðs er annar/önnur að leita kyrrðar og enn annar/önnur af sjálfum sér.

Ég minnist þess þegar ég var níu ára var markmiðið að verða tíu ára. Ég hélt nefnilega að þá myndi allt breytast og ég beið í ofvæni að ná þeim merka áfanga bara til að komast að því að ekkert breyttist og ég fór að hlakka til að verða 12 ára. Þá fór ég að hlakka til að verða tvítugur því þá fengi ég að gera allt sem ég vildi. Þetta allt sem ég vildi varð svo ekkert spennandi og ég fór að sakna þess að vera ekki tíu ára og hlakka til þess…

Manneskja sem hugsar er sífellt leitandi og unnir sér ekki hvíldar. Þegar við finnum höldum við áfram að leita af því sem við höfum ekki fundið hvað sem það er. Við gerum það ekki ein og óstudd. Við speglum okkur í viðhorfum annarra til okkar. Sjálfið sem við áttum sjálf er kramið undir þunga væntinga annarra til okkar. Orðin eins og hver önnur söluvara er gengur kaupum og sölum í glerhýsi kauphallar væntinga og drauma. Við förum að heiman með óljós markmið og ómótaðar hugmyndir af hverju við leitum en leitum samt ef gerast skyldi að við kæmum auga á það. Eða kannski ekki óljósar hugmyndir af hverju við leitum miklu frekar hvaða leiðir við förum til að nálgast það sem við leitum af.

Það er tiltölulega auðvelt að setja á blað og nefna hvað það er sem við leitum. Við leitum af óhamingju, vanmegun og hverju því sem færir okkur vanlíðan í erli dagsins. Þannig hefur það verið og þannig mun það vera. Þessi hugtök voru ekki fundin upp í gær og reynd í dag. Er það ekki skrítið hvernig þessi hugtök eða tilfinningar sækja okkur en við leitum þeirra ekki. Eru svo tilbúin að þvælast fyrir fótum okkar. Við leitum hamingjunnar og velmegunar en virðist haldast illa á þeim. Afhverju leitar ekki hamingjan af okkur? Það er akkúrat þetta að það er svo auðvelt að nefna þessi hugtök en annað að gera þau að raunveruleika lífs okkar í núinu. Það má líkja þessu við slæman draum. Í slæmum draumum eða martröðum erum við á hlaupum eftir einhverju en náum aldrei þangað sem við ætlum okkur og í ofanálag er einhver eða eitthvað óræðið á eftir okkur.

Hvers þörfnumst við og hvernig nálgumst við þá þörf er eilíf, á sér ekki bústað í tíma, heldur er eitthvað sem við öndum að okkur nýtum það efni sem þar er að finna og skilum síðan afgangnum til baka. Það verður ekki skilgreint á nokkurn hátt. Ekki þannig að ein algild sannindi sé að finna. Þannig er það með guðspjallið um skírn Jesú. Erfitt að skilja ef einungis er horft á augnablik atburðarins, en ekki hvað gerðist á undan og þá er ég ekki tala um daga vikur, mánuði heldur ár og ártugi á undan og það sem gerðist í framhaldinu af skírninni. Jesú var ljóst hvað biði hans. En þá er ekki verið að tala um að hann hafi lifað augnablik framtíðarinnar, verið búin að taka það út, öðru nær.

Guðspjallið um skírn Jesú segir öðrum þræði frá því á hvern og hvaða leið er valin að markmiði lífsins. Sú leið var þaulhugsuð af hans hálfu. Ekki þannig að hann hafi lifað það augnablik löngu áður og verið búin að taka það út og eyða því þegar hann stóð í augnablikinu. Ekki lagt af stað í flýti og sjá síðan hvað verða vill. Hann tók eitt skref í einu. Hafði ekki farið fram úr sjálfum sér. Vissi hvað hann var og varð að gera.

Sú manneskja er ekki til er á sér ekki drauma misstóra að vísu. Jesú sem manneskja átti sér drauma allveg eins og við. Það er sammannlegt. Hann vissi, til þess að stórir draumar gætu passað í föt veruleikans, verða fullorðinn, urðu þeir að eiga sér upphaf og nærast af tímanum, augnablikinu eiga sér takmark sem ætti sér sitt augnablik að verða hvort heldur tíu ára, 12 ára, tvítugur, þrítugur eða…fá að þroskast. Geta litið um öxl og brosað af hugsun gærdagsins.

Jesú sem barn skynjaði hvert sitt hlutverk var. Jafnframt skynjaði hann til þess að geta uppfyllt það hlutverk varð hann að vera trúr hinu smæsta og sinna því eftir þörfum. Það er þetta smáa. Það lætur ekki mikið yfir sér, er ekki að hrópa á okkur. Við könnumst öll við hið smáa í lífinu. Ekki ósvipað smáa letrinu í samningum sem engin eða fáir gera sér far um að lesa og skilgreina heldur er staðar numið við það stærsta, mesta, það sem er áberandi því okkur liggur á. Hvort sem okkur liggur á eða ekki þá er það staðreynd að hið smáa hvort heldur það er letur á blaði eða hlutir í kringum okkur, eða verk sem vinna skal er það allstaðar hjá okkur, en kallar ekki á okkur. Stundum heyrum við en látum fátt um finnast vegna þess að við teljum okkur trú um að það skipti ekki máli meðal stærri hugmynda og verka.

Frá þeirri stundu sem við grípum andan á lofti og lítum þennan heim augum er um leið lagðar á okkur skyldur. Hvort heldur það erum við sjálf eða samferðafólk okkar. Ekki aðeins skyldur heldur og líka skyldur sem við á einhvern dulafullan hátt teljum okkur í trú um að verði að framfylgja og á sama hátt annað látið bíða. Þetta eru eins og skyldur heimilisins, skyldur skólans og þaðan í skyldur atvinnunar, skyldur gagnvart maka, skyldur gagnvart barni eða börnum, skyldur á skyldur ofan. Þetta hljómar kalt og fráhindrandi í eyrum manneskja er líta á frelsið til athafna eigi ekki að vera bundið í klafa skilgreiningar á hvernig við eigum að lifa lífinu. Það er engin undankomuleið frá skyldum hvort sem okkur líkar betur eða verr. Í öllum þessum skyldu skógi viljum við reyna eftir mætti að skynja og sjá toppana og gleyma því sem við fætur okkar eru - því smáa. Við teljum okkur trú um að það skipti ekki máli vegna þess að við horfum til framtíðar og hún er svo óendanlega stór-framtíðin. Þegar foreldri kemur með barn sitt til skírnar eru þau að horfa til framtíðar að gefa barninu sínu það besta sem þau geta mögulegast gefið því, nýjan veruleika sá veruleiki er ekki endilega augljós þeim eða öðrum.

Eins og við tók Jesú með lífi sínu á sig skyldur. Reyndar voru hans skyldur nokkrum númerum stærri en okkar. Til þess að verða mætti að hann passaði mátulega í það númer gætti hann að hinu smáa í kringum sig og ekki endilega því augljósa.

Það að láta skírast af Jóhannesi er fyrir okkur ekki eitthvað sem baðað er ljósi skilnings og við fáum glýju í augun. Nei, miklu frekar finnum við okkur í myrkri fákunnáttu og spyrjum eins og Jóhannes hvers vegna er hann að láta skírast - syndlaus maðurinn?! Þarna er varpað ljósi á hið smáa í mikilfengleik þess. Það er nefnilega svo að hið smáa eins og við viljum skilgreina það og helst ekki vita af - það er ekki eitthvað sem við ýtum til hliðar á spássíu lífsins og ætlum því ekki að vera inni í heildarmyndinni. Ef við gerum það vantar stóran part inní þá mynd þann texta eða þriggja stafa orð - líf. Hver stafur þar er mikilvægur. Ef einn þeirra er tekin - skilin frá þá er merking þess óljós ef þá nokkur. Eins er það í okkar daglega lífi ef við skiljum frá það smáa og að okkar mati það sem skiptir minnstu máli lifum við ekki heil. Það vantar eitthvað og við leitum og oftar en ekki förum fram úr sjálfum okkur. Morgundagurinn verður í dag og augnablik þessarar stundar á morgun.

Jesú var fullkunnugt um þetta. Hann horfði til framtíðar en gleymdi ekki augnablikinu - núinu og því sem þar var. Hvað þurfti að gerast til þess að morgundagurinn gæti mætt sjálfum sér. Til þess að eigna sér stað eða tilveru í framtíðinni varð Jesú í lítillæti sínu að skírast. Í skírninni fékk hann fullvissu um að hann væri útvaldi Guðs og vegurinn til framtíðar var vegur krossins, þjáningarinnar, kóróna hans var krossinn. Að lifa framtíðina núna á þessu augnabliki er ekki eitthvað sem við ættum að sækjast eftir. Ég vil leyfa mér að halda því fram að við gerum það ekki af eigin vilja heldur komum okkur í það á ómeðvitaðan hátt. Framtíðin er þarna einhverstaðar og hún er í okkar höndum. Hún fer ekkert á undan okkur heldur bíður okkar, ekki óþreyjufull vegna þess að hún vill að við gefum gaum því smáa í okkur og umhverfi okkar. Kann að vera að við höfum ekki og getum ekki skilgreint það á nokkurn hátt. Við þurfum þess heldur ekki. Jesú í skírn sinni gekk alla leið fyrir okkur líka þá leið sem bíður okkar á morgun og hinn.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verðu um aldir alda. Amen

Þór Hauksson er sóknarprestur í Árbæjarkirkju. Þessi prédikun var flutt á sunnudegi í föstuinngang, 22. febrúar 2004.