Hvað er Guð að segja?

Hvað er Guð að segja?

Það var í byrjun níunda áratugarins að ég sat í bíl með fólki á Ísafirði. Við vorum á leið til kirkju. Ung kona var með í bílnum og átti síðar þungbæra sorg í vændum en vissi það ekki þá fremur en við nú, og jafnan, hvað framtíðin ber í skauti sér yfirleitt. Í tal barst HIVsmitun og sjúkdómurinn alnæmi sem menn kunnu vart að nefna þá og einkum var talinn leggjast á homma.

† Ég þakka fyrir að fá að ávarpa þessa samkomu í dag. Í þeim hópi sem hér hefur safnast saman í dag býr mikil reynsla og viska, lífsviska sem dýru verði hefur verið goldin en ekki pöntuð, né hennar óskað, þó vonandi þökkuð þrátt fyrir allt.

Það var í byrjun níunda áratugarins að ég sat í bíl með fólki á Ísafirði. Við vorum á leið til kirkju. Ung kona var með í bílnum og átti síðar þungbæra sorg í vændum en vissi það ekki þá fremur en við nú, og jafnan, hvað framtíðin ber í skauti sér yfirleitt. Í tal barst HIVsmitun og sjúkdómurinn alnæmi sem menn kunnu vart að nefna þá og einkum var talinn leggjast á homma. Hún spurði: Er ekki Guð að reyna að segja okkur eitthvað með því að leggja þennan sjúkdóm á okkur?

Við getum látið þessa spurningu vera eins konar leiðarstef þessarar umfjöllunar okkar í dag og velt henni fyrir okkur. Hvað er Guð að reyna að segja okkur með því að leyfa alnæmi í sköpun sinni?

Spurningin var á sínum tíma birtingarmynd ákveðinna fordóma sem við berum með okkur. Að sínu leyti í garð homma og að öðru leyti varðandi það að Guð leiti að sökudólgum til þess að refsa þeim.

Þó HIVsmit hafi sérstaklega hráð samkynhneigða menn á ákveðnu stigi úrbreiðslu þess hefur smitið jafnframt fengið miklu víðari útbreiðslu og kemur í sjálfu sér þeim ekki fremur við en öðrum sem stunda kynferðisathafnir og mögulega blóðblöndun og eru þá fáir undanskildir af mannfólkinu sem upp hafa komist. Unga konan vísaði til hommanna og þess að athafnasemi þeirra á kynlífssviðinu væri Guði sérstaklega vanþóknanleg. Af því sem við vitum um þennan sjúkdóm er ekki að sjá að í honum felist einkarleg skilaboð til homma.

Er Guð þá að segja eitthvað um kynlífshegðun kynþroska fólks yfirleitt með þessu? Segir hann ekki: Þú skalt ekki að drýgja hór? Jú, það er boðorð númer sex. Hvað á hann við með því boðorði? Hann segir líka: Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns. Svo þær eru allar á bannsvæði giftu konurnar og karlarnir líka nema þú eigir sjálfur. En ógiftar konur? Eru þær einnig á bannsvæði og ógiftir menn? Já, eiginlega, samkvæmt boðorðinu! En hvernig á þetta allt þá að fara af stað? spyrð þú. Er enginn æfingatími? Þarf maður ekki að fara í aksturstíma áður en maður fer að keyra?

Svarið við þessu leiðir fram efni áróðursherferða fólki til varnar um ábyrgt kynlíf. Nota þekkingu sem af öðrum verður lærð og sýna ábyrgð. Það getur komið smit og það getur komið barn. Smitið getur leitt til dauða og því sem gæti orðið barn verður kannski eytt eða fætt í ástleysi. Allt er það grafalvarlegt og krefur okkur ábyrgðar gagnvart skapara lífs okkar og þess fólks sem við eigum samskipti við.

Í Afríku sem ég hef kynnst nokkuð með heimsóknum og starfi þar undanfarin ár er HIVsmit útbreytt og mikill fjöldi fókls þegar farinn úr alnæmi. Sjúkdómnum er afneitað víða og talinn til mikillar vansæmdar fjölskyldum þar sem hann herjar. Af þeirri ástæðu er lítið gert til þess að fræða um hann og hjálpa fólki sem hefur orðið fyrir smitun. Það gerir illt svo miklu verra. Þar veit ég um mörg börn sem eru í umsjá ættingja. Ég veit um ömmur sem standa farnar kröftum uppi með barnahópa og vansæmdin afsakar afskiptaleysi um þeirra hag.

Við höfum sem betur fer komist lengra. Við höfum skilning á að mannleg náttúra fer aldrei að öllu samkvæmt boðorðunum og að slæmir hlutir henda einnig gott fólk. Gott verður að gera úr hverri raun.

En þó er sorglegt að fá fréttir um vaxandi ábyrgðarleysi í þessu. Það minnir okkur á að sérhver ný kynslóð þarf á því að halda að læra af lífinu, vera mætt með fræðslu og það þarf líka að upplifa í sínum hóp alvarleika lífsins. Við þurfum alltaf að reka okkur á. Gamalreyndur fróðleikur dugir okkur ekki alskostar. Við þurfum því að halda baráttunni áfram og vinna að því að kennsla í lífsleikni, í víðtækum skilningi þess orðasambands, sé í sífelldri þróun og okkur kennt að horfa í kringum okkur.

Er það bara það sem Guð er að kenna okkur með þessu? Að vera á verði! - Nei, miklu meira.

Það eru tvö atvik sem guðspjöllin geyma sem við skyldum athuga í þessu sambandi. Annað er atvikið með hórseku konuna sem mennirnir vildu grýta en Jesús bjargaði. Þetta atvik er hlaðið afar mikilli merkingu og hefur langan hala. Konan var staðin að verki og samkvæmt lögmálinu átti að grýta hana. Hvar karlinn sem í hlut átti var er látið í þagnargildi og sýnir það tvöfaldan móral lögmálstúlkunarinnar. Jesús skrifar syndir hennar í sandinn og fyrirgefur henni og sendir hana burt með hvatningu um að syndga ekki framar. Hún kemur svo aftur fram síðar og grætur á fætur hans, þerrar með hári sínu og smyr þá olíu í þakkarskyni. Enn minnumst við þessarar ástar.

Drottinn dæmir ekki þessa konu. Hann fyrirgefur og endurreisir, leiðbeinir og hvetur.

Hitt atvikið eru vangavelturnar um það hvort tiltekinn maður hafi verið blindur frá fæðingu vegna þess að hann hafi syndgað sjálfur, eða þá foreldrar hans. Að baki býr hugsunin um að allt það vonda sem hendir okkur sé eins konar hefnd Guðs fyrir syndsamlegt líf okkar.

Nú er það aldrei nema satt að farsæld okkar fer mjög eftir líferni okkar. Allt það tal og áróður sem uppi er um heilsufæði og heilsurækt, óþverra í matvælum osfrv er til staðfestingar um það. Sjálf vitum við að framferði okkar í umferðinni hefur áhrif á öryggi okkar og annarra. Sömuleiðis hefur það áhrif á öryggi okkar hvar við erum á ferðinni og hvernig við hegðum okkur yfirleitt. Það tekur vissulega ekki ábyrgð af höndum þeirra sem kunna að valda okkur tjóni en er almenn skynsemi og kallar okkur til persónulegarar ábyrgðar á eign áthöfnum.

En hverju svaraði svo Jesús þegar menn báru þessa spurningu upp fyrir hann? Hvorki er það af því að hann hafi syndgað eða foreldrar hans, sagði hann, heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum. Hvað þýðir þetta eiginlega. Verk Guðs opinber á manninum..

Gott þetta fyrsta sem hann sagði að maðurinn hefði ekki kallað þetta yfir sig né foreldrar hans. Við eigum sem sagt ekki endilega að kenna okkur sjálfum eða örðum um það að illt hendi, sjúkdómur leggist á mann. Það getur haft flóknar ástæður eins og við höfum k,omist að og ekki rétt að horfa fyrst á það, heldur hitt hvernig böl má bæta.

Jesús læknar svo blinda manninn og hann verður aftur sjáandi. Þannig birtist verk Guðs á manninum að hann varð aftur heill. Já, þetta getur Drottinn Jesús og þetta getum við einnig. Við getum gefið blindum sýn, gert halta gangnadi, brotið fjötra og leyst fólk úr viðjum margra sjúkdóma, og við getum alltaf umvafið þau sem við mætum umhyggju og hjálpsemi. Stórkostlegar sögur úr okkar eigin þjóðlífi eru til dæmis um það.

Jesús sagði við lærisveina sína: Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hvert annað. Eins og ég hef elskað yður skuluð þér einnig elska hvert annað. Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“ Jóh 13:34-35

Þetta er það sem Guð vill segja okkur með HIV smitun og alnæmi sem og hverjum öðrum sjúkdómi. Að við eigum að elska hvert annað og umvefja og þannig birtist dýrð Guðs, fegurð mannlífsins, ljómi elskunnar sem á sér upptök í honum eins og geislarnir sem verma sumardaginn koma frá sólunni.

Elskið hvert annað!

Á degi Alnæmissamtakanna. Jóh 13:34-35 Fríkirkjan 15. maí 2011