Helfararinnar minnst

Helfararinnar minnst

Þann 27. janúar 1945 frelsaði her Sovétmanna 7.000 manns úr útrýmingar- og fangabúðunum í Auschwitz-Birkenau. Fólkið var allt mjög illa á sig komið, aðkoman var hryllingur einn, mörgum tonnum af mannshárum hafði verið safnað saman á nokkrum stöðum.

Helfararinnar minnst

27. janúar er alþjóðlegur minningardagur helfararinnar. En það var árið 2005 sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna tók þá ákvörðun, 60 árum eftir að heimsstyrjöldinni síðari lauk. Þremur árum áður höfðu menntamálaráðherrar aðildarþjóða Evrópuráðsins gert það að tillögu sinni að slíkur dagur yrði haldinn árlega þar sem að þeirra væri minnst sem urðu fórnarlömb helfararinnar og aðildarríkin hvött til baráttu gegn hvers kyns glæpum gegn mannkyninu. Einstaka ríki velja aðra daga ár hvert í sama tilgangi og tengja þá ákvörðun dagsetningum í sögu eigin þjóðar sem tengjast helförinni í viðkomandi landi.

Þann 27. janúar 1945 frelsaði her Sovétmanna 7.000 manns úr útrýmingar- og fangabúðunum í Auschwitz-Birkenau. Fólkið var allt mjög illa á sig komið, aðkoman var hryllingur einn, mörgum tonnum af mannshárum hafði verið safnað saman á nokkrum stöðum, sum komin í kassa tilbúin til flutnings svo nota mætti þau í vefnað, annars staðar mátti sjá barnaskó í tonnatali, barnafatnað, tanngóma, gleraugu, fatnað, gull úr tönnum og koppa og könnur úr tini svo nokkuð sé nefnt. Allt sorgleg merki um þær milljónir fólks sem höfðu gegn vilja sínum haft viðkomu í þessum dauðabúðum á stríðsárunum. Þar sem lestin endaði við búðirnar var endastöð nær allra. Varlegustu áætlanir ganga út frá því að 1.100.000 manns hafi verið drepið í þessum búðum einum og sér.

Ég átti þess kost síðastliðið sumar að koma til Auschwitz og Birkenau ásamt hópi ungmenna frá Glerárkirkju. Þetta var sólríkur dagur og fagur fuglasöngur í lofti, hópurinn samtals rúmlega 40 ungmenni frá fimm löndum, Frakklandi, Íslandi, Póllandi, Spáni og Þýskalandi. Ungmennaskiptin sem við vorum þátttakendur í höfðu staðið í nokkra daga og hópurinn líflegur og fjörlegur eftir því. Þegar við lögðum rútunni snemma þennan morgun við aðalinngang safnsins sem þar stendur nú, gerðum við okkur enga grein fyrir því sem beið okkar, þrátt fyrir að hafa lesið og rætt um hvað byði okkar.

Seinnipart þessa sama dags þegar heimsókn okkar á þennan sögustað var lokið reyndi ég að átta mig á því hvort að ég gæti sett mig að einhverju leyti í spor einstaklings sem hafði endað tilveru sína hér á jörðu á þessum stað. Ofarlega í huga mér sat bréf sem leiðsögukonan sýndi okkur eintak af og útskýrði fyrir okkur. Það var bréf til íbúa í Þýskalandi af ættum Gyðinga þar sem þeim var tilkynnt að þau fengju tækifæri til að hefja nýtt líf. Þau áttu að mæta á ákveðna brautarstöð á ákveðnum tíma og máttu taka með sér eina litla ferðatösku hvert, helstu nauðsynjar til að geta hafið nýtt líf. Ég geri mér á engan hátt grein fyrir því hvort að það var vonarneisti eða jafnvel tilhlökkun sem réði ferðinni hjá fólkinu þegar það mætti á brautarpallana umræddan dag. Hvort það grunaði að hér væri enn einn liðurinn í ofsóknum á hendur þeim eða hvort að þau trúðu því í raun að hér væri komin útleið úr þeim hörmungum sem þau bjuggu við? Ég geri mér enga grein fyrir því.

Hin ímynda útleið hófst með lestarferð í gripaflutningavagni. Þar með var tónninn gefinn fyrir það sem koma skyldi. Börn og fullorðnir á öllum aldri var flutt frá ýmsum stöðum í Evrópu til Auschwitz sunnarlega í Póllandi. Oftar en ekki var fólki hreinlega troðið í gripaflutningavagnana. Þar mátti það standa upp á endann án þess að fá vott né þurrt og án þess að geta nokkuð gert nema staðið. Sá sem sofnaði átti það á hættu að verða troðinn undir. Þegar á áfangastað var komið, stundum dögum seinna, var fólkið oftast illa á sig komið, saur- og þvag út um allt og alltaf einhverjir í hverjum vagni sem höfðu ekki lifað ferðina af. Kannski voru þau jafnvel heppin.

Ekki treysti ég mér til þess að átta mig á því hvaða tilfinningar bærðust í brjósti þeirra sem mættu í þessar fangabúðir og upplifðu strax á brautarpallinum að þau voru flokkuð eftir kyni, stærð, áliti læknis og öðrum hlutum sem erfitt var að átta sig á en öllum sem einhverju réðu alveg sama um hvort einhver tilheyrði einhverri fjölskyldu. Í síðasta lagi hér sáu allir ímynda ég mér að þau höfðu verið leidd í gin ljónsins. En kannski var svo erfitt að játa sig sigraðan að einhver hélt enn í vonarneistann. Kannski var það vonarneistinn sem hélt lífi í sálinni þá fáu metra sem eftir voru í gasklefann. Kannski var vonarneistinn eina hálmstráið að halda sér í dagana og vikurnar sem þrælað var í vinnubúðunum. Kannski ...

Sagan sem staðurinn segir, húsin, munirnir, þögnin, myndirnar fær mann eins og mig til að gráta. Að vera samferða leiðsögukonu um svæðið sem hefur hlustað á eftirlifendur segja frá, sem þekkir og virðist geta ímyndað sér þær tilfinningar sem bærðust í brjósti fólksins er ólýsanleg upplifun. Upplifun sem er svo sár að hún nær inn að hjartans rót. Og maður er ekki samur á eftir.

Það sem mér þykir verst er að ég held að ég hefði alveg getað verið einn af fangavörðunum, jafnvel einn af þeim sem tók ákvörðun um þær útrýmingar sem þarna fóru fram. Útlitið eða framkvæmdin yrði þó aldrei eins. Því að ég er búinn að læra að ,,svona gerir maður ekki“ þegar kemur að þeim aðferðum og hugmyndum sem þarna var beitt. En það hættulega er að sagan endurtekur sig, bara í öðru formi, á annan hátt. En umgengnin fólks á milli er sú sama. Það erum ,,við“ og ,,þau“, ,,við sem eigum réttinn“ og ,,þau sem eiga engan rétt.“ Ég geri mér á engan hátt grein fyrir því hvort að það verður vonarneisti eða jafnvel tilhlökkun sem ræður gjörðum okkar ná á hvers konar brautarpalla við munum mæta. Hvort okkur mun gruna að hér sé liður í einhvers konar ofsóknum á ferðinni á hendur einhverjum? Ég geri mér enga grein fyrir því.

Eina sem ég veit, er að ég ætla að ekki að reyna að þykjast vera betri. En ég ætla ekki heldur að játa mig sigraðan, heldur halda í vonarneistann að við getum reynt að vinna að því að glæpum gegn mannkyni fækki.