Er útförin einkamál aðstandenda?

Er útförin einkamál aðstandenda?

Hvernig á maður sem aldrei kemur í kirkju að skipuleggja guðsþjónustu og segja presti fyrir verkum? Það er mikil munur á því að undirbúa útför og árshátíð.

Íslendingar hafa þann sið í heiðri að fjölmenna til útfarar og kveðja látinn ástvin og fjölgar kirkjugestum við útfarir fremur en að fækka eins og gerst hefur í mörgum nagrannalöndum. Þá hefur athöfnin frekar verið að vaxa að umfangi m.a. með meiri fjölbreytni í tónlistarflutningi. Og það heyrir til undantekninga, ef útför fer fram utan kirkju þrátt fyrir að skipulega hafi verið reynt að grafa undan kirkjunni með makalausum áróðri undanfarin misseri. Þegar á reynir, þá er Þjóðkirkjan hið trausta griðarskjól, sem engum bregst. Útförin á Íslandi er guðsþjónusta samkvæmt lútherskum sið og byggir á reynslu aldanna sem fólkið kannast við og líkar vel.

En allt er samt breytingum undirorpið og gildir einnig um útförina. Það hefur verið sagt um Þjóðkirkjuna, að hún sé opin og frjálslynd og vilji öllum þóknast. Flestir vilja samt ganga að fastmótaðri umgjörð í helgihaldinu og að þar gildi ákveðnar reglur. Þá vaknar sú spurning: Eiga aðstandendur öllu að ráða varðandi útför látins ástvinar í kirkjunni ef svo ber undir? Velja ritningarorð eða aðra texta til lestrar í athöfninni, sálma eða dægurlög, semja ræðuna og jafnvel bænir? Auðvitað byggir hefðin á nánu samráði aðstandenda og prests sem útförina annast. En hvar liggja mörkin og hvaða ábyrgð bera aðstandendur á innihaldi athafnarinnar? Er allt leyfilegt við útför innan Þjóðkirkjunnar ef það þóknast nánustu aðstandendum? Ég hef mætt aðstandendum sem hafa talið það heilaga skyldu sínu við hinn látna að velja sálma fyrir útfararathöfn sem honum gætu verið þóknanlegir, þó þeir hefðu ekkert vit né nokkra reynslu af skipulagi helgihalds í kirkjunni. Hvernig á maður sem aldrei kemur í kirkju að skipuleggja guðsþjónustu og segja presti fyrir verkum? Það er mikill munur á því að undirbúa útför og árshátíð.

Það er presturinn sem ber ábyrgð á athöfninni og að inntak hennar samræmist tilefninu og helgi kirkjunnar. Hann leitar eftir upplýsingum frá aðstandendum um hinn látna, hlustar á óskir þeirra ef einhverjar eru og verður við þeim ef aðstæður leyfa. Og um það gilda samræmd viðmið samkvæmt hefðinni í kirkjunni. Þetta er ekki hlutverk útfararstofunnar sem er verktaki til að vinna þau verk sem henni er falið. Því miður þá virðist þróunin á höfuðborgarsvæðinu stefna í þá átt, að presturinn sé að verða einskonar starfsmaður hjá útfararstofunni sem mestu ræður um athöfnina með aðstandendum. Þá er hætt við, að athöfnin hverfi með tímanum úr helgri umgjörð sinni þar sem allt verður leyfilegt. Slíkar kveðjustundir eiga ekki að fara fram í kirkju með presti til skrauts heldur í samkomuhúsum eða á skemmtistöðum.

Það er brýnt að kirkjan standi traustan vörð um helgihaldið og þau grundvallarviðmið sem þar eiga að gilda með Guðsorði í fyrirrúmi og allt fari fram af virðingu og menningarlegum metnaði. Það á einmitt við um útförina, umgjörð hennar, sálmaval, bænir, ritningarorð og ræðu. Útförin er þannig ekki einkamál aðstandenda heldur viðfangsefni kirkjunnar. Þóknunarhyggjan má ekki rugla kirkjuna í ríminu eins og á vinsældartorgi markaðarins. Hér gegnir presturinn svo mikilvægu hlutverki og ábyrgð hans er mikil. Kirkjufólk treystir því að presturinn standi í fæturna einmitt þegar mest á reynir og láti ekki glepjast af vinsældahyggju staða og stunda.

Gunnlaugur Stefánsson, sóknarprestur í Heydölum