Skóli er heimili

Skóli er heimili

En það sem m.a. er ólíkt að hinu ytra er að heimilisfólkið í skólanum býr líka heima hjá sér með fjölskyldu sinni, þ.e. á heima á tveimur stöðum.

Á fyrri hluta síðustu aldar og áður var algengt að börn til sveita fengju formlega grunnskólakennslu sem talin var í fáeinum dögum. En gengu samt mörg síðar lærdómsveginn og létu að sér kveða í íslensku þjóðlífi í mætti menntunar og þekkingar. Í þá daga voru heimilin allt, veröldin sjálf með því sem þar var í boði, oft fjölmenni í bænum samanborið við það sem nú tíðkast. Foreldrar, afar og ömmur og annað heimilisfólk sáu um að mennta börnin, ekki aðeins til að lesa, skrifa og reikna, heldur líka til að vitkast um þjóðlegan fróðleik, landsins gagn og nauðsynjar og verkfærni sem ól með börnum þrek til að gefast ekki upp, þó oft væri margt erfitt.

Nú hefur þetta snúist við. Skólinn hefur tekið börnin að sér og uppfræðir þau að stórum hluta, ekki aðeins í nokkra daga, ekki brot úr degi, heldur liðlangan daginn og rúmlega níu mánuði ársins. Þessi umbylting hefur orðið á einum mannsaldri, þ.e. enn eru á meðal okkar fólk sem ólst upp við gamlan lærdómssið. Þess vegna er skólinn enn að þróast og takast á við gjörbreyttar aðstæður.

Skólanum má því líkja við heimili, þar sem börnin, kennarar og annað starfslið deilir kjörum saman, starfa, nærast og leika sér; og hvílast líka í leikskólanum. Skólinn hefur því tekið yfir stóran hluta af heimilislífinu og uppeldinu sem fjölskyldan sá fyrrum um. Skólinn er því líka heimili.

Þetta blasir svo við í samfélagi skólanna á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði, þar sem ég þekki vel til. Aðstæður hljóta að vera öðruvísi í fámennum skóla, en þar sem mörg hundruð nemendur eru saman undir einu þaki. Fámennið býður upp á gefandi tækifæri um leið og reynir meira á hvern og einn. Það getur enginn falið sig í fjöldanum.

Skólarnir á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði eru því á margan hátt líkir samfélaginu á sveitabæ í gamla daga. En það sem er m.a. ólíkt að hinu ytra er að heimilisfólkið í skólanum býr líka heima hjá sér með fjölskyldu sinni, þ.e. á heima á tveimur stöðum. Yfir þetta sund á milli tveggja heimila verður að vera rammgerð brú, ríkja traust og lifandi samband á milli heimilanna beggja. Þá brú byggja foreldrar og starfslið skólanna saman, ekki einu sinni, heldur á hverjum skóladegi.

Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með hvernig samfélagið í skólunum á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði hefur einmitt byggst á heimilisanda sem skapar öryggistilfinningu hjá börnunum um leið og þau hafa frelsi til að njóta sín, finna sér farveg við hæfi og líta bæði á kennara sína og samstarfsfólk sem vini og uppalendur. Aldrei verður komist hjá að lífið í skólanum er í blíðu og stríðu eins og gerist á heimili fjölskyldunnar. En þá skiptir máli að byggt sé á trausti, þar sem svigrúm og reglur eru til staðar til að takast á við aðstæður til farsældar.

Það eru mikil gæði að búa við góða skóla. Þess njótum við á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði. Þar er starfað af metnaði með þarfir barnanna í fyrirrúmi. Það skiptir máli að standa þéttan vörð um heimilislífið í skólanum, styðja það og styrkja með jákvæðni og heilshugar.

Þessi pistill birtist fyrst í Skólablaði Grunnskólans á Breiðdalsvík í maí 2016.