„Húsamaðurinn sem var leiðinlegur við Jesúbarnið mömmu þess og pabba“

„Húsamaðurinn sem var leiðinlegur við Jesúbarnið mömmu þess og pabba“

Það er ekki hægt annað en að brosa og finna til feginleika að sjá eftirvæntingu barnanna yfir komu jólanna. Enn er það þannig fyrir þessi jól að börnin fá að koma í kirkjuna á aðventunni og hlýða á jólafrásöguna um fæðingu Jesú.

Hugleiðing á aðventu. Um jólin gerast skemmtilegir hlutir, við fáum gjafir og góðan mat. Sterkar tilfinningar geta vaknað þegar við sjáum fyrstu jólaljósin eða heyrum jólalögin í útvarpinu sem gefa til kynna að hátíð er framundan. Hátíð ljóss og friðar, aldrei sem fyrr gefum við okkur tíma frá amstri hversdagsins að huga að vinum og fjölskyldu sendum kveðjur hvort heldur yfir í næsta hús eða einhvers sem bæði fjöll og haf skilja að en hugur stendur nærri aldrei meira en á aðventu og jólum. Það er aldrei sem á jólum að við hugum að náunganum og velferð hans. Borgin ómar af söng kóra og tónum sem sameiginlega ýta við okkur til að fara af stað. Líta upp frá hversdagsverkum okkar og gera okkur glaðan dag þótt ekki væri annað en að gera sér ferð í bæinn til að líta á mannlifið setjast inn á kaffihús, detta ofan í rjúkandi súkkulaðibolla og narta í eitthvað gómsætt milli þess þegar mannlífið er skoðað og eða lita í einum af þeim fjölmörgu bókum sem gefnar eru út um jólin í þeirri von að eitthvað af þeim rati í jólapakka fjölskyldu, vina og kunningja eða okkar eigin. Á jólum og dögunum fyrir hátíðina leyfum okkur aldrei sem fyrr að sleppa huganum lausum til þeirra daga sem allt kann að hafa verið einfaldara og óskaplega hægfara daga sem engan enda ætluðu að taka til að hleypa þeim næsta að bara til þess að það sama endurtæki sig. Blessunarlega höfum við tekið upp þann sið að „lengja“ á þessum dögum fyrir jólin, eins og einhver kom svo skemmtilega að orði, og við njótum hverrar stundar til hins ýtrasta. Það er sætleiki í lofti á dögum aðventunnar. Hann sest í vitund og klæði og umbreytist í eftirvæntingu ekki aðeins ungra heldur og þeirra sem eldri eru. Aldrei sem nú verðum við að leyfa sætleikanum, eftirvæntingunni að ná tali af okkur. Setjast niður horfa á og eiga samtal við það sem býr innra með okkur um leið og við leyfum því sem fyrir utan stendur og knýr á að styðja og hreyfa við okkur því það er tilefni til og tími. Aðventan er og ætti að vera einmitt sá tími þegar við gefum okkur tíma frá „öllu.“ Horfum ekki á „allt“ heldur hið smáa sem við erum ekki að horfa á eða velta fyrir okkur á degi hverjum. Leyfum „öllu“ hinu sem við erum ekki búin að klára að koma til okkar setjast hjá okkur og eiga samtal við okkur. Því það er „allt“ í aðventunni sem segir okkur það. Aðventan fer ekki hratt yfir og hún vill svo sannarlega eiga orðastað við okkur. Við okkur sem eru svo upptekinn við að „klára allt“ fyrir jólin að við heyrum ekki ómþýða rödd englanna á Betlehemsvöllum. „Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnunum.“ Það er velþóknum yfir okkur mönnunum að við fáum að taka þátt og eiga stundir sem þessar í aðdraganda jóla. Þessa dagana eru þau mörg börnin sem spegla sig í litskrúðugum speglandi jólalkúlum, sem draumi líkast og ljósblik eftirvæntingar í augum frammi fyrir verslunargluggum fyllta af eftirvæntingu sem erfitt er að rýna í fyrir marga sem sjá ekki annað fyrir sér en það að horfa á og láta sig dreyma um að á morgun verður allt betra. Það er ekki hægt annað en að brosa og finna til feginleika að sjá eftirvæntingu barna yfir komu jólanna. Enn er það þannig fyrir þessi jól að börnin fá að koma í kirkjuna á aðventunni og hlýða á jólafrásöguna um fæðingu Jesú „ En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina...“ með einni og annari athugasemd þeirra að þau hafi heyrt þessa sögu áður og „húsamaðurinn“ hafi verið leiðinlegur við Jesúbarnið og mömmu þess og pabba og einstaka veit að þau þurftu að flýja og urðu „fljótafólk“ eins og ein lítil hnáta sagði við mig alvarleg á svip um daginn. Sjá á eftir þeim út úr kirkjunni dúðuð með roða í kinnum sæl og glöð eftir örstundar samveru með hugsun samtímans að baki sér „ vonandi ekki orðið meint af.“ Augljóslega og auðheyrilega lifa börnin sig inn í frásöguna þannig að heyra mátti saumnál detta. Þau bókstaflega halda niðri í sér andanum og í kjölfar sögunnar kemur skriða af athugasemdum. Athugasemdir eins og hvað þau ætla að gefa pabba og mömmu í jólagjöf og þau viti afhverju við höldum jól. Þegar þau eru spurð hvað þau ætli að gefa Jesúbarninu í jólagjöf er svarað um hæl að „Jesúbarnið er svo lítið að það getur ekki tekið upp gjafirnar sjálfur og það sem verra er að það er dáið og á heima hjá Guði vegna þess að það var orðið svo stórt. „Það er ekki hægt að senda gjafir til Guðs.“ Þegar þeim er sagt að Guð hafði gefið Jesú okkur að gjöf fara þau að flissa og segja „að það er ekki hægt að gefa barn að gjöf. Það bara kemur af himnum. „ „Nehei“ heyrist þá sagt-„þá meiðir maður sig ef maður dettur af skýjunum...“ Afhverju er ég að deila þessu með ykkur sem eru komin af leikskólaaldri og rúmlega það. Ykkur sem margt hafið reynt og fátt kemur lengur á óvart. Það er akkúrat þetta að fátt kemur lengur á óvart. Eða fátt sem við leyfum að koma okkur á óvart. Okkur hættir til eftir því sem árin líða að horfa framhjá því sem getur mögulega skapað annan veruleika í huga. Þegar við hugleiðum jólafrásöguna skynjum við dýptina í henni. Það eru engir þröskuldar sem hindra hvern þann sem vill hvort heldur það er barn eða fullorðinn manneskja að skynja helgi frásögunnar og hún nær til allra sem vilja leyfa henni að eiga sér stað í huga. Við eigum og það er hollt að leggja við hlustir þegar við heyrum og lesum jólafrásöguna því hún er um allt umhverfis okkur í okkar nútíma veruleika. Ef við lokum eyrum okkar og annari skynjun á hana erum við um leið að afneita veruleika okkar í dag. Jólafrásagan er ekki einhver rykfallinn saga sem átti sér stað í Palestínu fyrir hundruðum árum síðan. Hún hefur verið og er innblástur hverjum þeim sem gefur sér tíma til að staldra við og eiga samtal. Við megum og við eigum að staldra við á þessum tíma á tíma aðventunnar mítt í öllum jólaundirbúningnum hvers vegna erum við að halda jól? Ástæðurnar kunna að vera margar og margvíslegar, sem sum hver okkar vilja bara eiga fyrir sig. Hver sem ástæðan kann að vera trúarlegs eða veraldlegs eðlis þá er eitt sem sameinar en það er mennska okkar. Þörfin til að tilheyra einhverjum eða einhverju. Jólahátíðin kallar fram þörfina sem býr í okkur til að láta vita af sér og vita að vinur/vinkona á stað í huga með því að senda jólakveðju hvort heldur í formi jólakorts eða kveðju í útvarpi. Fyrir mörgum eru jólakveðjurnar sem lesnar eru útvapinu ein varðan að jólum. Það er eitthvað sem sameinar eitthvað sem segir að við eigum saman sem einstaklingar og þjóð. Nýfætt barn minnir okkur á framtíðina – barnið - sem tekur við. Það minnir okkur á ábyrgðina ekki aðeins foreldra þess heldur og okkar allra. Ábyrgð hins daglega lífs til orðs og æðis og til að hlúa að því veika og máttfarna í okkur sjálfum. Ábyrgðina sem hvílir á okkur gagnvart umhverfinu, náttúrunni og náunga okkar. Á hvern hátt við skilum af okkur til kynslóðar þeirrar sem fæðist inn í þennan heim í dag og næstu árin. Kannski er okkur allveg sama segjum sem svo að við þurfum ekki hafa áhyggjur af, því áhrif gjörða okkar koma ekki fram fyrr en við erum farin héðan. Tími aðventunnar er ekki aðeins hið ytra heldur og það sem býr innra með okkur. Kann að vera að við berum kvíðboga fyrir því sem kemur – jólunum og öllu því tilstandi sem þeim fylgir. Minna á milli handana en áður til að gefa eða ástvinur kvatt þennan heim og einsemdin blæs á kertaljós þess sem var. Gefum okkur þá gjöf dagana fyrir jól að tendra ljós innra með okkur þar sem vindar þess ytra ná ekki að slökkva. Megi dagarnir fyrir og um jólin vera þér lesandi góður dagar gleði og uppbyggingar og birtu á tímum sem kannski fátt eitt gefur tilefni til. Þannig var það líka þegar hirðarnir á Betlehemsvöllum ornuðu sér við eldinn og myrkrið grúfði yfir, ekkert sem sagði eða gaf til kynna að þar yrði breyting á sem varð. Þannig skulum við nálgast jólahátíðina. Leyfum eftirvæntingu hugans sækja okkur þar sem við erum stödd og færa okkur sanninn um birtu og gleði jólanna er okkur gefin og við erum velkomin að taka þátt og eiga hlutdeild í þeirri gleði hvort heldur sem við erum ung eða gömul. Megi góður guð gefa þér og þínum gleðilega aðventu.