Fyrirmyndir, trú og skóli

Fyrirmyndir, trú og skóli

Trúarlega víddin í fjölmenningunni hefur fengið lítið rými innan félagsvísindarannsókna. Því er erfitt að taka ígrundaðar ákvarðanir um trú og skóla.

Trúarlega víddin í fjölmenningunni hefur fengið lítið rými innan félagsvísindarannsókna. Því er erfitt að taka ígrundaðar ákvarðanir um trú og skóla. Evrópsk samfélög eru á einn eða annan hátt mótuð af fjölbreytni og margbreytileika hvað trúarbrögð, gildi og menningu varðar. Þrátt fyrir fjölmenningarlegar rannsóknir af ýmsu tagi í gegnum árin og rannsóknir á sviði trúaruppeldisfræðinnar virðist hin trúarlega vídd fjölmenningarinnar ekki hafa fengið rými innan félagsvísindarannsókna að neinu verulegu marki. Svo virðist sem að þessi skortur á rannsóknum eigi einnig við þegar kemur að kennslu í skólum.

Dr. Heinz Streib, prófessor við Háskólann í Bielefeld, Þýskalandi hefur bent á mikilvægi þess að rannsóknir beinist að skilningi nemenda, samtali þeirra og upplifun. Mikilvægt sé að nýta sér tækifærin og kraftinn sem fer af stað þegar nemandinn uppgötvar eitthvað sem honum er framandi. Streib hefur meðal annars rannsakað aðferðir sem eiga að gera nemandanum kleift að fóta sig út fyrir hinn þekkta bakgrunn, þ.e. kennsluaðferðum sem þjálfa nemendur í því að upplifa hið óvænta, framandi, það sem erfitt er að samsama sig við.

Það væri að mínu viti óskandi ef að við sem samfélag fólks bærum gæfu til að taka höndum saman um að þróa samskipti og upplýsingaflæði um trú, lífssýn og heimsmyndir í sátt og samlyndi út frá þörf barnanna sem sækja skóla landsins með markmið og hlutverk skóla í huga. Ef það hefur ekki þegar gerst, þá tel ég að við eigum á hættu með að lenda á sama stað og sum samfélög í Þýskalandi. En það kemur fram í SHELL ungmennarannsókninni frá árinu 2006 að flokka megi ungmenni í Þýskalandi í tvo nokkuð jafnstóra hópa, annars vegar þá sem standa trú sinni nærri og hins vegar þá sem standa hvers konar skilgreindri trú eða trúarbrögðum fjarri og að ungmenni hafi tilhneigingu til flokkadrátta í þessum hópum. Höfundar benda á að stofnanir samfélagsins, veraldlegar og trúarlegar hafi enn ekki brugðist við eða áttað sig á þessum veruleika. Ef ekkert verði gert eigi samfélagið á hættu að fylkingarnar harðni í afstöðu sinni hver gegn annarri eins og þegar sé tilfellið í stöku samfélagi í austurhluta Þýskalands. Koma þurfi á og skapa tækifæri til gagnkvæmrar samræðu og skilnings.

[Pistillinn er útdráttur úr samnefndri grein undirritaðs sem birtist í Morgunblaðinu, 11. júní 2011, bls. 32]