Orð aðventunnar

Orð aðventunnar

Hvaða orð vantar í söguna um fyrstu jólin þannig að einstaklingurinn sem pælir í sögunni í dag finni sjálfan sig í sögunni? Sjálfur bíð ég ekki eftir komu nýs konungs. Hugur minn og hjarta þráir nýja grasrót, nýtt stjórnarfyrirkomulag, nýjan heiðarleika, nýja samstöðu. Jólafastan er gengin í garð. Í anda hennar verðum við að leyfa okkur að ögra þægilegu hugmyndunum.

Bibliubrudur
Ég er þeirrar skoðunar að eitt stærsta vandamál okkar sem þjóðar, sem við stöndum frammi fyrir í dag, er að það er búið að setja hinni ómenntuðu alþýðu svolítið þröngar skorður. Fólk vantar jafnvel orð. Það á ekki lengur orð til að útskýra hugsanir sínar, af því að það þekkir ekki orðin. Þetta er mjög alvarlegt. Þannig að akademían hefur tekið svolítið frá fólkinu og orðin og vísindin eru öll í háskólanum. [...] En hugtakaleysið eykur á reiði, kvíða og ofbeldi. Af því að fólk á ekki orð til að lýsa því hvernig því líður og getur ekki tjáð sig öðruvísi en með dónaskap eða því að skemma eitthvað.

Þessi orð sem höfð eru eftir Jón Gnarr í viðtali í sunnudagsblaði Morgunblaðsins í gær (2.12.2012, bls. 47) vöktu mig til umhugsunar. Kannski sérstaklega af því að ég vinn hjá stofnun sem framleiðir orð og vill viðhalda merkingu orða í ljósi hefðar, sögu og trúar. Mín tilfinning er sú að okkur, kirkjunnar þjónum, hætti stundum til að þykja mikilvægara að nota orð hefðarinnar heldur en að efla einstaklinginn sem mætir eða mætir ekki í kirkjuna svo hann geti tjáð sig um eiginn skilning á því sem fram fer og sagt er. Skoðum málið aðeins og notum lýsingarorð Jóns Gnarr í þessu samhengi, óháð því hvort við samþykkjum þau sem merkimiða á ákveðna hópa í samfélaginu eða ekki.

Jón Gnarr nefnir hér sérstaklega tvo hópa til sögunnar, öðrum hópnum gefur hann merkimiði „hinnar ómenntuðu alþýðu“ og hinum hópnum merkimiða ,,akademíunar“. Að mínu viti tveir merkilegir hópar því svo skemmtilega vill til að í sögunni um fyrstu jólin eru það fulltrúar þessara tveggja hópa sem koma við sögu. Eða hvað þykir þér, lesandi góður?

Fjárhirðar = fulltrúar ,,hinnar ómenntuðu alþýðu“? Öðrum hópnum lýsum við gjarnan í frásögn okkar í kirkjunni sem fjárhirðum og ekki er laust við að líf þeirra fái jafnvel á sig ævintýrablæ þess sem berst við vargdýr sem vilja ráðast á lömbin og situr við varðeld hvert kvöld við söng og hljóðfæraleik. Jafnvel sjáum við fjárhirðana fyrir okkur á grænum, grösugum gresjum þar sem lækur liðast yfir Betlehemsvelli þannig að dýrin hafa nóg að drekka.

En var því svo farið? Ekki viljum við trufla okkar eigin jólahelgi með því að kafa dýpra ofan í söguna og benda á að vel geti verið að kvöldið sem engillinn sótti fjárhirðana heim á Betlehemsvöllum hafi þeir misst nokkur lömb þann daginn því að vargurinn hafi haft betur, að þurrkar hafi gert það að verkum að erfitt var að finna vatn fyrir dýrin og matur hafi verið af skornum skammti og enginn saddur þetta kvöld.

Getum við talað um fjárhirðana sem fulltrúa ,,hinnar ómenntuðu alþýðu“? Og ef svo er, hvaða orð vantar í söguna um fyrstu jólin þannig að einstaklingurinn sem pælir í sögunni í dag finni sjálfan sig í sögunni?

Vitringar = fulltrúar ,,akademíunnar“? Hinum hópnum lýsum við gjarnan í frásögn okkar í kirkjunni sem vitringum, sonum konunga og fursta. Ævistarf þeirra fær á sig blæ akademíunnar, dregin er upp mynd af þeim sem allt á, allt hefur og fleira veit heldur en þorri fólks. Jafnvel sjáum við þessa konunga fyrir okkur í stórum höllum þar sem gnægt er að finna af mat og drykk og þjónar á hverju strái.

En var því svo farið? Ekki viljum við trufla okkar eigin jólahelgi með því að kafa dýpra ofan í söguna og benda á að vel geti verið að ferðin sem þeir hafi lagt að baki sé þeirra eina von um að fá viðurkenningu í foreldrahúsum eða í samfélaginu. Getur verið að þrýstingurinn frá foreldrum um að koma heim með nýja þekkingu hafi verið við það að buga þá og að gjafirnar megi því frekar skilja sem tákn um feginleik þeirra að hafa nú loksins frá einhverju nýju að segja heldur en tákn um lotningu þeirra við hið nýfædda barn?

Getum við talað um vitringana sem fulltrúa ,,akademíunnar“? Og ef svo er, hvaða orð vantar í söguna um fyrstu jólin þannig að einstaklingurinn sem pælir í sögunni í dag finni sjálfan sig í sögunni?

Hinn nýfæddi konungur = ,,hin nýja grasrót“? Óháð því að mér þyki erfitt að flokka fólk upp í hópa eins og ,,hina ómenntuðu alþýðu“ og fulltrúa ,,akademíunnar“ þá vil ég nota tækifærið sem orð Jóns Gnarr veita mér til þess að horfa gagnrýnum augum á þau orð sem ég nota á aðventunni um söguna frá jólunum fyrstu.

Ég ætla að leyfa mér að spyrja sjálfan mig gagnrýnum spurningum í þessu samhengi í anda jólaföstunnar. Alvarlega verðum við að taka þau varnarorð Jóns Gnarr um að orðleysið geti leitt til reiði, kvíða og ofbeldis. Að mínu viti hefur hann mikið til síns máls.

Sjálfur bíð ég ekki eftir komu nýs konungs. Í mínum huga er ekki eftirsóknarvert að búa í konungsríki. Þess vegna get ég ekki skilið gleðina yfir því að krjúpa við jötu ,,hins nýfædda konungs“. Menntun mín segir mér að ég eigi að skilja þetta í samhengi sögu, hefðar og guðfræði. En það er lítil hjálp í því. Hugur minn og hjarta þráir nýja grasrót, nýtt stjórnarfyrirkomulag, nýjan heiðarleika, nýja samstöðu. Þegar ég krýp við jötu Jesúbarnsins þá fagna ég einmitt þessu, fæðingu hins nýja samfélagsforms. Því trú mín er milliliðalaus, það er bara ég og Jesúbarnið. Við tölum beint hvor við annan. Þurfum engan túlk og ég legg vanmátt minn hvað reiði, kvíða og ofbeldi varðar í hans hendur. Því ég veit að hann mun vel fyrir sjá.

Hvað er Jesúbarnið þér?