Ódauðleikinn

Ódauðleikinn

Hafið þið séð klukkuna sem Þórunn Árnadóttir ungur vöruhönnuður hannaði nýlega? Hún mælir tímann með perlufesti. Perlurnar á festinni eru litaðar eftir því hvort þær segi til um klukkustundir eða mínútur, rauðar eða bláar.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hafið þið séð klukkuna sem Þórunn Árnadóttir ungur vöruhönnuður hannaði nýlega? Hún mælir tímann með perlufesti. Perlurnar á festinni eru litaðar eftir því hvort þær segi til um klukkustundir eða mínútur, rauðar eða bláar. Festin situr á tannhjóli sem snýr henni þannig að perlurnar detta niður eftir því sem tíminn líður og á perlunum sem detta sjáum við hvað klukkan er. Sérstakar perlur tákna svo miðnætti og hádegi, silfur og gull.

Þetta er ákaflega falleg klukka með engum tölum bara perlum, hún er eitthvað svo ný og fersk, næstum eins og ný leið til þess að mæla tíma. Það eru auðvitað til alls konar leiðir til þess að mæla tímann og alls konar klukkur. Það var samt ekki fyrr en ég sá þessa klukku sem ég fattaði að það var einhver sem hannaði það hvernig tíminn birtist á tölvu úri eða þessari venjulegu skífuklukku sem við þekkjum vel, klukkuna sem stjórnar því eiginlega hvernig við sjáum fyrir okkur tímann, en við gætum allt eins séð hann fyrir okkur í bláum, rauðum og gylltum perlum á festi.

Amma mín var handverkskona og hönnuður. Ef þið hefðuð flett henni upp í símaskránni þegar hún var á lífi hefðuð þið samt lesið húsmóðir og kannski fiskverkakona í hálfu starfi, svo passaði hún mig líka þegar hún var ekki að vinna.

En eftir hana liggja fjöldi listaverka. Flest af þeim eru úr postulíni sem hún málaði á. Mest af því sem hún málaði var eftir forskrift. Til dæmis á blómavasa, lampa, bolla, og platta. En hún málaði líka stundum mynstur sem hún bjó bara til, sem hún hannaði. Svo málaði hún líka eftir ljósmyndum, landslagsmyndir af fjöllum, trjám og lækjum.

Eftir ströngustu skilgreiningum er það kallað handverk þegar fólk býr til hlut eftir forskrift sem einhver annar hefur hannað. Hönnun er svo ferlið þegar eitthvað nýtt er búið til. Skilin þarna á milli eru samt fljótandi, hönnun byggir oft á eldri hugmyndum og innblæstri og í handverki getur oft falist hönnun. Til dæmis þegar ég próna eitthvað eða hekla, þá á ég það oftast til að breyta því aðeins eftir mínu höfði, raða saman nýjum litum eða búa til eitthvað nýtt mynstur. Amma hefði nú samt kallað þetta allt saman dund. En hún stundaði samt sem áður bæði handverk og hönnun eða list. Hin amma mín, amma í sveitinni, prjónaði mikið og eftir hana á ég í dag ullarvettlinga og sokka sem minna mig á hana. Ég á til dæmis afskaplega fallega ljósbláa þæfða vettlinga sem hún gaf mér bara ári áður en hún dó. Það skiptir ekki máli hvort vettlingarnir eða postulínslampi sem ég á eftir ömmur mínar eru þeirra hugsmíð eða ekki. Þetta hlutir sem ég get notið þess hafa í kringum mig til að minna mig á þær löngu eftir þeirra daga. Fallegir hlutir sem þær gáfu ást og vinnu í, eitthvað sem nýtist, gefur köldum puttum yl eða ljós við lestur á kvöldin.

En tölum um guðspjallið. Þessi texti er áhugaverður fyrir margar sakir. Þetta er einn af fáum textum í biblíunni þar sem stúlku börn birtast. Jafnvel einn af fáum textum úr hinum forn grísk rómverska menningarheimi þar sem við sjáum eitthvað um stúlkur. Það eru til einhverjar heimildir um líf barna frá þessum tíma en þær einskorðast mest við drengi. Lítið er um heimildir sem sýna okkur líf stúlkna á fyrstu öldum okkar tímatals og þær eru líklega sá fjölskylduhópur sem við vitum hvað minnst um.

En guðspjallið sýnir okkur samt móður sem er ekki Ísraeli heldur Kanverji, eða heiðingi og dóttur hennar. Þessi kona birtist okkur sem mikill báráttukona fyrir veika dóttur sína. Fyrst hundsar Jesús hana og lærisveinarnir segja honum að vísa henni í burtu og okkur til undrunar tekur Jesús undir það og segir henni að hann sé ekki sendur fyrir hennar fólk heldur týnda sauði af Ísraelsætt, Jesús staðfestir því þessa hefðbundnu túlkun að hjálpræðið sé fyrst og fremst fyrir gyðingana. En konan lætur ekki segjast og biður hann aftur en þá segir hann að ekki sæmi að taka brauðmolana af borði barnanna og gefa hundunum, brauðmolarnir sem tákna hjálpræðið séu sem sagt ekki fyrir hennar þjóð. En hún svarar honum með dálítið snjöllum hætti, að hundarnir borði nú samt molana sem detta af borðum barnanna. Þá segir hann ,,Kona mikil er trú þín, verðir þér sem þú vilt.“ Það sem er áhugavert við þessa frásögn er hvað kanverska konan er mikill gerandi í textanum. Hún leiðir samtal sitt við Jesús, hún lætur ekki segjast og að lokum segir hann, verði þér það sem þú vilt, það er að segja, dóttir þín læknast vegna þinnar þrjósku.

Þetta er svosem ekki mikil heimild um líf stúlkna á þessu tíma, við vitum bara að dóttir konunnar beið veik heima hjá sér, kannski ein, og að mamma hennar var þessi hörku kerling sem fann Jesús og til þess að redda málinu.

Þær litlu heimildir sem við höfum um líf stúlkna og kvenna fyrri alda er einmitt handverk þeirra, það voru þær sem prjónuðu og saumuðu fötin sem fólk klæddist, gerðu ílát til þess að borða úr og alls kyns aðra nytjahluti. Margt af þessu var listilega unnið, þróuð voru alls kyns uppskriftir og mynstur fyrir peysur, vettlinga og meira að segja leppana í sauðskinsskónum. Það er nefnilega nauðsynlegt að hafa eitthvað fallegt í daglegu lífi.

Verk þessara kvenna lifir áfram í hlutunum sem þær hafa skapað, hannað, prjónað, saumað, leirað, smíðað og málað. Konur og stúlkur eru miklir áhrifavaldar þó svo að við tökum ekki alltaf eftir því. Það hvernig við mælum tímann hefur til dæmis mikil áhif á það hvernig við sjáum daginn fyrir okkur og krúttleg perlufesti er á einhvern hátt notalegri en til dæmis gamli útvarpsvekjarinn með tölustöfunum.

Eins var kanverska konan áhrifavaldur í guðspjalli dagsins. Hún knúði á og breytti svari Jesú um það til hverra hann var sendur, fyrir hverja hjálpræðið er. Það er ekki bara fyrir týnda sauði Ísraels heldur hina líka, heiðingjana, sem sagt fyrir allan heiminn. Ég er ekki að segja að sú tilhögun sé frá henni komin en í þessari frásögn er það hún sem fær Jesús til þess að líta til sín og dóttur sinnar. Jesús segir ,,Kona mikil er trú þín“ hennar trú bjargar þeim og færir okkur þar með þá vissu að hjálpræði Guðs er fyrir okkur öll. Hvaða hlutverki sem við gegnum í lífinu og hvort sem eftir okkur liggja ódauðleg listaverk eða smart ullarpeysa þá eigum við öll hlutdeild í hjálpræði Guðs, fyrirgefningu syndanna og eilíft líf.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen