Sjö orð Krists á krossinum og Passíusálmar Hallgríms

Sjö orð Krists á krossinum og Passíusálmar Hallgríms

Inngangsorð að lestri sjö orða Krists á krossinum og útlegging Hallgríms í Passíusálmunum. Flutt í Munkaþverárkirkju á föstu daginn langa 2019. Kór Laugalandsprestakalla flutti sálmana og söng hluta þeirra og aðra passíusálma. Um Passíusálma Hallgríms hefur verið sagt: "Þekktasta verk Hallgríms er Passíusálmarnir. Þeir eru í samtalsformi, innilegt samtal manns við sál sína og við Guð".
Það er föstudagurinn langi.
Fánar eru dregnir í hálfa stöng vegna þess að við minnumst þess að frelsarinn dó á krossi. Passíusálmar Hallgríms Péturssonar hafa í meir en fjórar aldir fylgt þjóðinni, íhugun hans á helgustu trúarsögu kristninnar, píslarsögunni.
Margrét Eggertsdóttir, einn helsti sérfræðingur okkar um Passíusálmana, skrifaði í kynningu á erindi sem hún hélt í tilefni af 400 ára ártíð Hallgríms: 
Þekktasta verk Hallgríms er Passíusálmarnir. Þeir eru í samtalsformi, innilegt samtal manns við sál sína og við Guð. Á sama hátt hefur íslensk þjóð, kynslóð eftir kynslóð, átt samtal við Hallgrím. Hann er einskonar miðja og tengipunktur íslenskrar menningar.
Stór orð en sönn og viðeigandi þegar við íhugun píslarsöguna með orðum skáldsins. Það er viðeigandi nú á föstudaginn langa að íhuga passíusálmana sérstaklega og með umfjöllun um Hallgrím Pétursson og meistaraverk hans.
Skáld og fræðimenn hafa fjallað um Hallgrím í gegnum árin í ræðu og riti. Það yrði löng upptalning en vekur athygli að menn með ólíkar skoðanir og sannfæringu minnast hans vegna einmitt þessa sem Margrét nefnir sem „samtal við Hallgrím“ og „einskonar miðju og tengipunkt íslenskrar menningar“.
Tökum Matthías Jochumsson sem dæmi, sá mikli andi, kveður í minningu  skáldsins magnað ljóð sem byrjar með lýsingu á dánarbeði líkþrás manns, skáldið er yfirgefið og þjáð: „Atburð sé í anda mínum nær…“ Og hvað metur Matthías mest við ljóð Hallgríms? Jú, ljósið í kveðskap hans:

Hér er guðlegt skáld, er svo vel söng,
að sólin skein í gegnum dauðans göng;
hér er ljós, er lýsti aldir tvær. - 
Ljós! hví ertu þessum manni fjær?
Hann spyr sig hvort enginn muni lengur ljóðin hans? En veit þó að þau lifðu í guðrækni þjóðarinnar. Hann segir þau djúp og blíð svo að „heljar-húmið svart … verður engilbjart“. Við vitum að enn lifa ljóðin hans á vörum þjóðar. Það er eins með versið Vertu Guð faðir, faðir minn og Faðir vorið að söfnuðurinn tekur ósjálfrátt undir bænarorðin upphátt ef prestur byrjar að lesa. Við megum vel láta þetta erindi Matthíasar um Hallgrímsljóð fylgja okkur til framtíðar:

Frá því barnið biður fyrsta sinn
blítt og rótt við sinnar móður kinn,
til þess gamall sofnar síðstu stund,
svala ljóð þau hverri hjartans und.

Þeim fækkar sem kunna Passíusálmana meir og minna utan bókar. En sú var tíð að sálmarnir voru sungnir á kvöldvökum á löngu föstu alla daga nema sunnudag. En á sunnudögum var postillan lesin. Ég átti afa sem vandist þessu í Vestur-Skaftafellssýslu. Enn færri kunna að syngja Passíusálmana við gömlu lögin. Það eru til upptökur af þeim. 
Passíusálmarnir voru hluti af heimilisguðrækni Íslendinga, sem var skylda kristinna húsbænda að halda uppi. En ekki hef ég trú á að það hafi verið skyldan ein heldur einnig hluti af menningu að lesa sálmana á löngu föstu eða syngja við gömlu lögin sem Hallgrímur hafði fyrirskrifað mörg hver. Þau breyttust nokkuð í meðförum Íslendinga sem sungu eftir kirkjutóntegundunum gömlu og fimmundarsöngurinn viðhélst hér þó ekki þótti hann við hæfi annars staðar enda kórrangt samkvæmt tónfræðinni. Þannig urðu Hallgrímssálmar þjóðlegir eða hluti af menningararfi Íslendinga og bænahefð.
Hallgrímur varð okkar siðbótarmaður sem gerði guðspjallið að almenningseign, lagði þjóðinni orðin á varir, á meistaralegan hátt. Það er óumdeilt, þó að orðfærið sé okkur stundum framandi, þá er það á kjarnyrtri íslensku og stórkostlegt þegar ljóðin rísa sem hæst, eins og við fáum að heyra í þessum sjö sálmum sem verða fluttir hér á eftir. 
Sjö orð Krists á krossinum. Þau mynda ákveðið ris í Passíusálmunum. Þau helgustu orð sem sögð hafa verið á jörð. Hallgrímur tekur þau af vörum Jesú og íhugar þau, dregur lærdóm af þeim. Sálmarnir byrja: “Upp, upp mín sál" þannig hefst "innilegt samtal manns við sál sína og Guð sinn" eða eins og Hallgrímur segir sjálfur:

Ég segi á móti: "Ég er hann,
Jesú, sem þér af hjarta ann,
orð þitt lát vera eins við mig";
"elska ég", seg þú, "líka þig";
eilíft það samtal okkar sé
uppbyrjað hér á jörðunne.
Amen, ég bið svo skyldi ske. (Pass. 5: 10)

Þessi innileiki og samtal sálarinnar við sjálfa sig og Guð sinn er megineinkenni Passíusálmana og hefur verið rakið til guðræknibóka á tíma Hallgríms. Nefndist ein þeirra: "Eintal sálarinnar". Með þeim endurnýjast íhugunar og bænahefð siðbótarinnar en Hallgrímur gerir það með sérstökum hætti sem nær til menningar hans og tímans, snertir um leið við taug, sem binst menningu Íslendinga með sterkum böndum eins og Margrét bendir á. 
Hafið það í huga þegar þið hlustið á sálmana, hlustið eftir þeim anda. 
Hallgrímur setur eftirfarandi yfirskrift yfir sálmana: „Historia pínunnar og dauðans Drottins vors Jesú Kristí, með hennar sérlegustu lærdóms-, áminningar- og huggunargreinum…“ Það er einmitt þetta sem sálmarnir gera. Svo dæmi sé tekið úr sálmunum sem verða fluttir í dag þá tekur Hallgrímur hvert orð Jesús á krossinum eftir öðru, hann umorðar það með íslensku ljóðamáli, er ótrúlega trúr orðanna hljóðan í píslarsögunni. Eins og listamaður dregur hann upp þá drætti sem skipta máli við útlegginguna sem fylgir. Eins og í fyrsta sálminum segir hann við sál sína: "Fögnuður er að hugsa um það". Þannig fylgir hann útskýringum samtíma síns en gerir það á sínu máli, ljóðamáli, en um leið liggur líf hans og trúarreynsla í orðunum, eins og hann segir sjálfur að lengi hafa hann hugleitt píslarsöguna. 
Hallgrímur er meistari myndmálsins. Síðasta orð Jesú á krossinum er: "Í þínar hendur fel ég anda minn". Hallgrímur útleggur þessa mynd í Passíusálmi 44 svo unun er á að hlýða. Eins og svo víða í sálmunum ávarpar hann sál sína: 

Hvar hún finnur sinn hvíldarstað 
herrann sýnir þér líka. 
Hönd Guðs þíns föður heitir það. 
Hugsa um ræðu slíka. 
 
Láttu Guðs hönd þig leiða hér, 
lífsreglu halt þá bestu. 
Blessuð hans orð sem boðast þér 
í brjósti og hjarta festu. 
 
Hér þegar mannleg hjálpin dvín, 
holdið þó kveini og sýti, 
upp á hönd drottins augun þín 
ætíð með trúnni líti. (Ps. 44:8-12)

 Svo er það áminningin og fagurkeranum kann að finnast þær heldur lítið andlegar enda snúa þær að breytninni. Þar kemur kristindómsskilningur Hallgríms fram að  hann boðar trú og góð verk eins og Lúther siðbótarmaðurinn, sem mönnum yfirsést á stundum. Innileiki trúarinnar kemur fram í þjónustu og lífi í eftirfylgd við Krist - krossferli að fylgja þínum - er raunveruleiki lífsins, þar birtist okkur andlega viska og speki, ekki stóísk ró, heldur friður Guðs í hjarta þess sem biður. Þolinmæðin, að láta Guð um hefndina, að sinna skyldum sínum, fara með bænirnar við burtför af heimili, lengi má telja. Þetta erindi um það fyrsta orð Kristí á krossinum er ágætt dæmi: Faðir fyrirgef þeim:

Lausnara þínum lærðu af 
lunderni þitt að stilla. 
Hógværðardæmið gott hann gaf, 
nær gjöra menn þér til illa. 
Blót og formæling varast vel, 
á vald Guðs allar hefndir fel, 
heift lát ei hug þinn villa.  (Ps. 34:4)

Leyndardómur Passíusálmanna er huggunin sem þeir flytja hrelldri sál. Og þar mætir okkur djúp speki og viska. Það er fagnaðarerindið sem siðbótarmaðurinn Lúther setti fram í sínum ritum en rétttrúnaðurinn villtist frá með ofuráherslu á kenningar og framsetningu trúarinnar í stað þess að halda sér í heimi bænarinnar og reynslunnar. Þannig vil ég meta Hallgrím sem siðbótarmann Íslendinga, ekki aðeins að hann lagði þessi orð okkur á varir, heldur einnig gaf hann okkur trú í hjarta sem stenst hverja eldraun sem á okkur kanna að dynja. Þar stendur Hallgrímur með sína Passíusálma, óhagganlegur, eilífðarsamtalið er byrjað og kynslóðirnar taka undir og enn í dag er þar huggun að finna. Á þeirri hugsun endar hann sálm 44, þar sem hann útleggur andlátsorð Drottins:
 
Dauðans stríð af þín heilög hönd 
hjálpi mér vel að þreyja. 
Meðtak þá, faðir, mína önd, 
mun ég svo glaður deyja. 
 
Minn Jesú, andlátsorðið þitt 
í mínu hjarta ég geymi. 
Sé það og líka síðast mitt 
þá sofna ég burt úr heimi. (Ps. 44:21-22)
Þannig er kristinn trú Hallgríms ögrun við það sem blasir við, dauðinn, bölið, myrkrið, í fullvissu um þá von sem Kristur gaf börnum sínum, von út yfir gröf og dauða. Þannig er rauði þráður Passíusálmanna, píslarganga Jesú með lærisveinum sínum, sem ganga í gegnum marga þjáningu, sorg og að lokum dauða, það er íhugunarefni föstudagsins langa, en í gegnum alla sálmana er gylltur þráður guðspjallanna. "Víst ertu, Jesús, kóngur klár, konungur almættis tignar stór". Jesús er ljósið sem Hallgrímur færði okkur Íslendingum í eilífðar samtali við Guð. Fyrir það erum við í eilífri þakkarskuld. Og Hallgrímur gefur Guði dýrðina. Heyrum nú kórinn syngja lokavers Passíusálmanna: Dýrð, vald, virðing...
---
Nú verða flutt sjö orð Krists á krossinum. Félagar úr kirkjukórnum flytja þessa sjö sálma. Kórinn syngur á milli lestra nokkra af sálmum Hallgríms og aðra passíusálma. Organistin okkar Daníel Þorsteinsson stjórnar kórnum og leikur á orgelið. Eftir hvert orð Jesú og endursögn Hallgríms verður slökkt á einu kerti á sjö arma stjakanum þangað til að síðasta ljósið slokknar. Jesús deyr fyrir mannkyn allt og birtir með því kærleika Guðs, sem gefst okkur. Engin orð ná að skýra það sem gerðist, engin kenning, aðeins hjartað tekur við því í trú. Á altarinu er aðeins kross og stjakinn minnir okkur á orðin sjö af vörum Meistarans. Við skulum svo ganga hljóð héðan í kyrrðinni þegar síðasta sálmurinn hljóðnar.
Það er föstudagurinn langi.