Þitt eigið fíkjutré

Þitt eigið fíkjutré

Hvað finnst þér? Hver er víngarðurinn þinn, ábyrgð þín? Hvaða fíkjutré í þín lífi, þínu samfélagi bar ekki ávöxt þetta ár? Jafnvel þriðja árið í röð? Hvað ætlar þú að gera til að bæta ástandið? Slíta tréð strax upp eða bæta aðstæður þess og gefa málinu eitt ár enn?

Náð sé með yður og friður frá Drottni Guði föður vorum og skapara. Amen.

,,Blessaður. Gaman að sjá þig. Vonandi allt gott að frétta? Þú fyrirgefur, ég er að flýta mér, en alltaf gott að sjá þig! Blessaður.“ Nokkurn veginn svona kom ég fram við ágætan vin hér um árið. Um kvöldið áttaði ég mig svo á því að ég hafði ekki einu sinni gefið honum tækifæri til að bjóða góðan daginn. Slíkur var asinn á mér, já ég var með asasótt þann daginn. Skemmtilegt orð annars „asasótt“, held að það sé komið úr smiðju Sigurbjarnar biskups.

Ég þjáist af asasótt. Stundum er hún slæm, en ég á líka daga þegar ég er laus við þessa sótt sem rænir frá mér tækifærinu að gefa öðrum kærleiksstund. Hvers virði eru orð á jólakorti eða afmæliskveðja í tölvupósti ef ég hef ekki tök á því að taka mér tíma til þess að vera til staðar fyrir viðkomandi? En sem betur fer er hægt að lækna flest okkar (ef ekki öll) af þessari asasótt.

Ágætur kunningi minn sem hefur mikið að gera sat á skrifstofunni sinni þegar ég kom inn. Við höfðum ætlað okkur að ræða saman um sameiginlegt verkefni áður en ég tæki nokkra hluti með úr hlöðunni hjá honum. En nú var ég seinna á ferðinni en áætlað var og með fólk í bílnum sem beið. Hjá honum var mjög mikið að gera, stöðugur straumur fólks út og inn af skrifstofunni hans. Hann sat sallarólegur og afgreiddi málin og ræddi við mig eins og hann hefði allan heimsins tíma.„Pétur, ertu eitthvað stressaður?“ sagði hann og brosti til mín þegar ég gusaði því út úr mér í einni setningu að ég hefði engan tíma, við yrðum að ræða málin í næstu viku og ég færi beint út í hlöðu að ná í dótið.“ Með það var ég þotinn en heyrði þegar ég hljóp út um dyrnar:„Farðu varlega Pétur minn, þér liggur nú varla svona mikið á!“ Þessar tvær setningar hafa verið mér áminningar síðan þá: „Ertu stressaður“ og „Farðu varlega, þér liggur nú varla svona mikið á“. Mér er ljós sá kærleikur sem þessar tvær setningar hafa að geyma. Hann gaf sér tíma, spurði mig um líðan mína: „Ertu stressaður“ og gaf mér í skyn að hann fylgdi mér áfram í huganum: „Farðu varlega, varla liggur þér svona mikið á!“

Sjálfur ætla ég að reyna að taka þennan kunningja minn til fyrirmyndar hvað þetta varðar. Kannski að það lækni mig meira að segja af asasóttinni: Bara ef ég gef mér tíma, gef öðrum kærleiksstund þar sem þeir verða á vegi mínum. Því kærleiksstundin mælist ekki í mínútum heldur í því hvort þú hefur tíma til að hlusta og segja frá hvað hjarta þitt slær.

Jesús tók sér tíma. Hann staðnæmdist undir trénu þar sem stressaði vegatollarinn hafði fundið sér stað til að „kíkja aðeins“ á Jesú. Jesús nam staðar. Og þeir áttu kærleiksstund.

Hvaða kærleiksstundum stóðst þú fyrir á árinu sem er að líða? Undir hvaða trjám namst þú staðar? Tókst þér að afstressa þitt nánasta samfélag eða bjóst þú frekar til stress?

Nýverið spurði ég sjálfan mig: Getur falist kærleikur í því að búa til stress? Svarið sem ég fann í huga mér er: JÁ. Leyfið mér að útskýra þá afstöðu.

Í lok tólfta kafla Lúkasarguðspjalls segir Jesús við fólkið: „Þér sem sjáið ský draga upp í vestri segið jafnskjótt: Nú fer að rigna. Og svo verður. Og þegar vindur blæs af suðri segið þér: Nú kemur hiti. Og svo fer.“ Ég heyri þessi orð og mér hlýnar um hjartarætur, alinn upp við það að tala um veður, finnst mér Jesú vera að hrósa okkur. En Jesús heldur áfram: „Hræsnarar, útlit lofts og jarðar kunnið þér að ráða. Hvers vegna kunnið þið ekki að meta það sem nú er að gerast?“ Og ég hrekk við. Er þetta þessi kærleiksríki Jesú sem var að enda við að hrósa mér fyrir að kunna að spá í veðrið? Ég anda djúpt, vil trúa því að orð Jesú séu töluð í kærleika til mín, til okkar. En hvað á hann við þegar hann spyr: „Þú skilur ekki hvað er að gerast núna“? Hvaða stress er þetta eiginlega?

Í upphafi þrettánda kafla Lúkasarguðspjalls lesum við svo eftirfarandi orð: „Í sama mund komu einhverjir til Jesú og sögðu honum frá Galíleumönnum sem Pílatus lét drepa er þeir færðu fórnir sínar svo að blóð þeirra blandaðist fórnarblóðinu. Jesús mælti við þá: Haldið þér að þessir Galíleumenn hafi verið meiri syndarar en allir aðrir Galíleumenn fyrst þeir urðu að þola þetta? Nei, segi ég yður, en ef þér takið ekki sinnaskiptum munuð þér allir farast á sama hátt.“

Jesús hvetur til sinnaskipta. Orð hans eru óvægin. Afleiðingar þess að halda áfram í sinnuleysinu eru alvarlegar. Tvennt heyrum við þegar við lesum þessa texta í lok tólfta og í upphafi þrettánda kafla Lúkasarguðspjalls: Jesús bendir áheyrandanum á að hann skilur ekki tímanna tákn og að sinnuleysi hans geti orðið hans eigin dauðadómur.

Í framhaldi þessara orða sem mér þykja skapa stress hjá mér kemur að guðspjalli dagsins. Yfirskrift þeirrar málsgreinar er „Enn þetta ár“. Rifjum upp aðalatriðin í þeim orðum. Til að ítreka mál sitt segir Jesús dæmisögu. Maður nokkur átti víngarð. Þar gróðursetti hann fíkjutré. Þrjú ár í röð bar tréð ekki ávöxt. Þá var eigandanum nóg boðið og hann bað umsjónarmann víngarðsins að höggva það upp. Óþarft að láta tré sem engum gerir gagn taka pláss í víngarðinum. En umsjónarmaður garðsins biður um frest. Hann vill fá að bera áburð á tréð, bæta jarðveginn og hlúa að trénu, í þeirri von að það beri ávöxt að ári. Gagnist þær aðgerðir ekki megi og eigi höggva tréð upp að ári.

Hverju eigandinn svarar fylgir ekki sögunni. Enn í beinu framhaldi sögunnar læknar Jesú konu á hvíldardegi og bregst við gagnrýni með eftirfarandi orðum: „Hræsnarar, leysir ekki hver ykkar á hvíldardegi naut sitt eða asna af stalli og leiðir til vatns? En þessi kona, sem er dóttir Abrahams og Satan hefur fjötrað full átján ár, mátti hún ekki leyst verða úr fjötrum þessum á hvíldardegi?“

Aðeins guðspjallamaðurinn Lúkas velur að segja frá þessari dæmisögu Jesú. Hana er ekki að finna í hinum guðspjöllunum. Fíkjutré (Ficus carica) tekur heilmikið pláss. Vissulega getur það orðið tíu metra hátt en á fyrstu vaxtarárum sínum vex það frekar eins og runni og leggur meiri kraft í vöxt á breiddina heldur en á hæðina. Það er ekki auðvelt að rækta fíkjutré. Á meðan plantan er ung þolir hún ekki of mikla sól, en blöð hinnar fullvöxnu plöntu þurfa sterka og mikla sól. Samt þolir stofninn sjálfur og greinar hans ekki of mikla sól. Hér getur verið gott að nota kalk til að bera á stofn og greinar til að þeir þrífist í sterkri sólinni. En kalkið má samt ekki vera of mikið því að ef að jarðvegurinn sem plantan er í og vatnið sem hún er vökvuð með inniheldur of mikið kalk þá visnar plantan. Semsagt ekkert auðhlaupaverk. Í ofanálag er fíkjutrénu komið fyrir í víngarði.

Í samhengi Biblíunnar hefur víngarðurinn, ávextir og afurðir hans mikla þýðingu. Nói, fyrsti vínbóndinn sem nefndur er í Biblíunni, fær það hlutverk að byggja örk og bjarga öllum lífverum. Í sálmum Davíðs er mikilvægi vínsins fyrir lífsgleðina lofað, hjá Salómon konungi þykir vínið hafa lækningamátt. Í myndlíkingum Biblíunnar er víngarðurinn tákn fyrir hina útvöldu þjóð og eigandi víngarðsins er Drottinn sjálfur. Jesús lýsir tengslum sínum við fylgjendur sína sem þeim sömu og á milli vínviðsins og ávaxtar hans, áhrifa hins heilaga anda er lýst sem víni sem tekur að gerast, fyrsta kraftaverk Jesú er þegar hann breytir vatni í vín og í gegnum hina síðustu kvöldmáltíð fær vínið nýja merkingu sem birtist í altarisgöngunni, sem blóð Krists.

Reynum að sjá þetta fyrir okkur. Við erum semsagt stödd í víngarði. Við vitum að víngarðurinn hefur mikla þýðingu í þessu samhengi sem Jesús talar inn í. Í þessum víngarði er fíkjutré og það gengur illa að rækta það.

Nýlegar fornleifarannsóknir á Vesturbakkanum hafa leitt í ljós að þar voru fíkjutré ræktuð fyrir meira en ellefu þúsund árum. Þar með er fíkjutréð elsta ræktaða plantan sem þekkt er, 1000 árum eldri en hveitikornið og 5000 árum eldri en hinn ræktaði vínviður. Löngu fyrir tíma Jesú virðist hin sundurskorna fíkja hafa orðið tákn kærleikans því sundurskorin myndar hún hjartalaga mynd. Þá hefur verið bent á að væntanlega hafi Eva rétt Adam fíkju og ekki epli, því slíkir ávextir voru ekki þekktir á þeim tíma sem sú saga á að hafa gerst. Og blöð af hvaða tré velja flestir listamenn þegar þeir mála Adam og Evu og láta þau hylja sinn einkastað: Jú blað af fíkjutré. Hvar er þinn víngarður? Hvar er þitt fíkjutré? Tókst þér að rækta garðinn þinn á árinu 2015? Tókst okkur sem samfélagi að rækta okkar garð á árinu sem er að ljúka?

Hvað finnst þér? Hver er víngarðurinn þinn, ábyrgð þín? Hvaða fíkjutré í þín lífi, þínu samfélagi bar ekki ávöxt þetta ár? Jafnvel þriðja árið í röð? Hvað ætlar þú að gera til að bæta ástandið? Slíta tréð strax upp eða bæta aðstæður þess og gefa málinu eitt ár enn?

Spurningar sem þessar geta skapað asasótt hjá okkur, allt í einu liggur okkur svo mikið á að við höfum engan tíma til að hugsa, rjúkum úr einu í annað. Ég held að ef við skiljum að með þessum spurningum er vel meint, að ákall Jesú í textum dagsins er beint til okkar í kærleika, að stressinu þessar vangaveltur skapa hjá okkur er ætlað að auka hjá okkur adrenalínið, þá göngum í verkið og látum spurningaflóðið ekki kæfa okkur.

Vanmáttur okkar sem samfélags er held ég oftar en ekki einmitt falinn í þessu: Við látum stressið kæfa okkur í stað þess að nota adrenalínið. Umsjónarmaður víngarðsins þorði að koma með tillögu, þorði að ganga í málið. Guð gefi okkur kraft, styrk og þor til að ganga í málin í okkar samfélagi.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.

Takið postulegri blessun. Náð Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með okkur öllum. Amen. - -

Sálmar 92 Enn bregður Drottins birtu á byggðir sérhvers lands. 89 Sjá, morgunstjarna blikar blíð, sem boðar náð og frelsi lýð 96 Fögur er foldin -- 107 Yfir hverri eykt á jörðu englar Drottins halda vörð. 98 Nú árið er liðið í aldanna skaut -- Inngöngubæn Algóði faðir. Vér erum komin í helgidóm þinn til þess að sameinast í tilbeiðslu fyrir augliti þínu og lofa þig fyrir það, að þú lést elskaðan son þinn fæðast hér á jörðu til þess að vera öllu mannkyni eilífur frelsari frá eymd og syndum. Lát minninguna um fæðingu hans og jarðlíf og daglegt samfélag vort við hann vera oss ljós og líf. Gef, að heilagur kærleiki hans megi glæðast í hjörtum vorum og hjálpa oss þannig til að færast nær fullkommnunartakmarki voru. Lát bænir vorar berast til þín og frið þinn fylla hjörtu vor, svo að þessi stund verði oss öllum heilög tilbeiðslustund. Þess biðjum við þig í nafni frelsara vors Jesú Krists. Amen.

Lexía: Hlj 3.21-26, 40-41 En þetta vil ég hugfesta og þess vegna vona ég: Náð Drottins er ekki þrotin, miskunn hans ekki á enda, hún er ný á hverjum morgni, mikil er trúfesti þín. Drottinn er hlutdeild mín, segir sál mín, þess vegna vona ég á hann. Góður er Drottinn þeim er á hann vona og þeim manni er til hans leitar. Gott er að bíða hljóður eftir hjálp Drottins. Rannsökum breytni vora og prófum og snúum aftur til Drottins. Fórnum hjarta og höndum til Guðs í himninum. Pistill: Róm 8.31b-39 Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum? Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Það er Guð sem sýknar. Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur. Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? Það er eins og ritað er: Þín vegna er okkur dauði búinn allan daginn og við metin sem sláturfé. Nei, í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í krafti hans sem elskaði okkur. Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.

Guðspjall: Lúk 13.6-9 Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.“