Vonglöð þjóð skriftar

Vonglöð þjóð skriftar

Það tekur á að umbera erfiðar og óumflyjanlegar aðstæður og láta ekki gremjuna, bölmóðinn og dómsýkina bera þrekið og vitið ofurliði, því þrengingin er líka aflvaki endurreisnar til heilla. Uppgjöf er ekki til í samfélagi Guðs og manns.

Mikið er þetta falleg saga sem guðspjallið segir frá. Sagan um konungsmanninn sem bað Jesú að bjarga lífi sonar síns í dauðvona veikindum. Hún er falleg af því að hún endar vel. Ljósið sigraði myrkrið, vonin uppskar fögnuð í stað örvæntingar.

Herra hins jarðneska valds með fullar hendur fjár, konungsmaður sem hafði daglegan starfa af að ráða um lífskjör fólks, var á stalli upphafinn yfir lýðnum og allt átti að vita og kunna, en var nú ráðþrota gagnvart veikindum sonar síns þar sem öll mannleg ráð höfðu brostið. Það hafa verið þung sporin af stallinum niður á jörðina þar sem fólkið barðist um brauðmolana til að komast af frá degi til dags, því þar var Jesú að finna mitt á meðal fólksins. Fyrir konungsmann að auðmýkja sig andspænis fólkinu og standa því jafnt frammi fyrir Guði og biðja sér hjálpar í beinni útsendingu, var erfið reynsla. Leita á náðir Jesú sem ekki þótti háttskrifaður á meðal yfirstéttarinnar. En það gerði konungsmaður og treysti Guði þegar á reyndi. Barnið hans réð þar úrslitum, ástin í kærleika sem öllu vill fórna svo barnið mitt megi lifa. Þá brýtur kærleikurinn alla manngerða múra.

Leiktjöldin, sem maðurinn byggir um sig í munaði og glysi þegar allt leikur í lyndi, duga skammt og hrynja skjótt þegar alvara lífsins á í hlut. Það hefur aldrei gagnast nokkrum manni að leggja allt sitt traust á slíkan búnað, heldur langtum fremur ruglað sýn á verðug lífsgæði. Græðgin verður engum til farsældar. Það er slæmt ef almennt gildismat er fólgið í að fjárhagslegur ávinningur verði æðstur mælikvarði allra verka og viðhorfa. Reynslan staðfestir það, sem leiðir að lyktum til skipbrots eins og komið er á daginn. Vandinn við að njóta lífsins er ekki síst fólginn í að skynja takmörk sín, sníða sér stakk eftir vexti og kunna að njóta þess sem er hér og nú. Því sælir eru hógværir, þeir munu landið erfa. Öfgar glepja sýn og rugla fólk í ríminu. Það birtist svo vel í fjölmiðlun nútímans sem mælir gjarnan fréttnæmt í ýktum uppákomum og furðusögum.

“Þér trúið ekki nema þér sjáið tákn og stórmerki”, sagði Jesús. Afskaplega eru þetta nútímaleg orð. Dauðvona barn vakti föður til að horfa í eigin barm og leita sér hjálpar hjá Guði. Og kraftverkið þar sem Guð bjargar sannfærði einhverja stundarbil um tilvist Hans og hjálpræði , en aldrei nóg. Sígjörn krafan um stærri tákn og undur virðist takmarkalaus. Um þetta fjallar Biblían frá fyrstu til síðustu blaðsíðu, um sambandið á milli Guðs og manns þar sem Guð beitir öllum sínum ráðum til að leiða sjálfumglaðan mann til farsældar, opna hin blindu augu á lífsgæðin sem þyngst vega og leiða mann frá villu síns vegar. Oftar en ekki er skellt við skollaeyrum og þykir þá jafnvel fínt að hafa sjálfan Guð í flimtingum og banna með opinberum ákvörðunum aðgang nemenda grunnskóla að samleið með kristinni kirkju. Sagan er alltaf að endurtaka sig, hvort sem það er í dansinum í kringum gullkálfinn eða byggingum Babelsturna sem ná eiga til himins. Maðurinn er svo gjarn á að neita að horfast í augu við sjálfan sig og Guð, en hreykir sér upp í eign mætti, maður sem er svo ófullkominn að hann getur ekki einu sinni haldið á sér hita né nærst án fulltingis dýra og jurta. Þess sárara og erfiðara verður því fallið þegar það ríður yfir og maðurinn stendur berskjaldaður gagnvart sjálfum sér fyrir opnum tjöldum í neyðinni. Það upplifði konungsmaður gagnvart Guði þegar honum varð ljóst hvað af öllu var kærast. Barnið mitt, fjölskyldan, samferðafólkið, þjóðin. Við hvert með öðru.

Lærum af reynslunni þó hún kunni að vera dýrkeypt. Bænin um að eiga æðruleysi til að sætta sig við það sem ekki verður breytt, kjark til að breyta því sem breyta má og vit til að greina þar á milli á svo vel við nú og alla daga. Bæn sem róar, nærir og vonar. Það tekur á að umbera erfiðar og óumflýjanlegar aðstæður og láta ekki gremjuna, bölmóðinn og dómsýkina bera þrekið og vitið ofurliði. Því þó sagan um manninn hafi oft verið sár og þyrnum stráð, þá er þrengingin líka aflvaki endurreisnar til heilla. Af því að við gefumst ekki upp. Það er kjarninn í sögum aldanna um samfélag Guðs og manns. Þar er aldrei uppgjöf að finna. Ekki einu sinni á krossinum á Golgata þegar útrýma átti Guði í eitt skipti fyrir öll. Þeirri aðför umbreytti Guð í stærsta sigur lífsins í upprisu Krists frá dauðum, sem engin maður hafði gert ráð fyrir og látið sér til hugar koma. Guð gefst ekki upp þótt manni finnist allar bjargir bannaðar.

Jesús rak ekki konungsmann á dyr og sagði að þetta væru hans maklegu málagjöld. Hann sá að konungsmaður hafði tekið einlæga umhyggju fyrir barni sínu fram yfir hrokann og stærilætið, brotið odd af oflæti sínu og treysti nú Guði. Konungsmaður bað Jesú að koma með sér. Það gerði Jesú ekki, heldur sagði: “Far þú sonur þinn lifir”. Konungsmaður treysti þeim orðum, en heimtaði ekki allt samkvæmt sínum vilja. Hvernig gæti Jesú læknað barn án þess að koma á staðinn? En konungsmaður spurði ekki hvernig, heldur treysti Guði.

Og hversu oft hefur sagan ekki einmitt vitnað um stærstu framfarasporin til farsældar sem rætur eiga að rekja til neyðar og þrenginga? Við getum hvert fyrir sig horft í eigin sögu og séð hvernig mál þróuðust oft allt öðruvísi en nokkur hafði séð fyrir. Á augnbliki tímans þá vissum við ekki hvernig, en treystum í von að úr rættist. Því er svo mikilvægt í erfiðum aðstæðum að láta ekki bugast og vinna úr því sem er í hendi jákvætt og gott, leyfa vitinu að fá næði til blómgast og þrekinu rúm til að uppbyggjast. Og umfram allt að hlúa að trausti og kærleika og rækta það sem glæðir dýrmæt lífsgæði. Þá skiptir máli að hlúa vel að þeim sem mest líða og leyfa þeim að vera í forgangi umfram eigin hag. Fórnarhugur er arðbær fjarfesting í hamingju.

Það er mér dásamleg upplifun að fylgjast með börnunum í afmæli barnabarna minna. Horfa á barnið koma færandi hendi með gjöf til að gleðja, afmælisbarnið kannski ofmettað af gjafaflóðinu, en gefandinn með þessi einlægu og hamingjuríku tindrandi augu og hjartað yfirfullt af vellíðan yfir því að gera gott í fögnuði. Þessa tilfinningu þekkjum við öll þegar við höfum lagt gott að mörkum án þess að það sé merkt verðmiða endurgjaldsins. Þannig blómgast samhugur í verki. Það sjáum við svo vel í margs konar félagsstarfi sem borið er uppi af hugsjón og fórnfúsri þjónustu. Þess hefur kirkjan hér notið ríkulega, sem stendur og fellur með slíku starfi. Þar mættu fleiri koma að liði og eru boðin hjartanlega velkomin til þátttöku. Það er ástæða til að þakka þeim sem hitann og þungan bera með óeigingjörnum og fórnfúsum verkum í kirkjunni og öðru frjálsu félagastarfi hér í byggðarlaginu. Þar er mikið að mörkum lagt.

Í fermingafræðslunni erum við m.a. að fjalla um lífsgæðin og hvað þyngst vegur í lífinu. Börnunum og unglingunum vefst ekki tunga um tönn og hafa alveg á hreinu hvað skiptir mestu máli þegar á reynir. Það er kærleikur. Því er svo brýnt að þeim sé gefið stórt svigrúm til að rækta kærleikans gildi. Sú rækt á sér uppsprettu á heimilinu. Þess vegna er svo mikilvægt að samstarf heimilis og skóla og annarra sem með börnum og unglingum starfa sé traust og náið. Ég legg áherslu á að í fermingarfræðslunni erum við saman barnið og presturinn, kirkjan og heimilið.

Sagan um konungsmanninn er ekki síst falleg af því að Guð breiðir faðminn á móti honum og býður velkominn til lífs og fylgdar. Það gildir einnig um alla umgjörð sem við byggjum um lífið okkar, hvort sem varðar heimili eða þjóðarbú, að við séum hjartanlega velkomin í samfélagi hvert með öðru, engir útundan né útvaldir í sérstökum forgangi.. Við viljum byggja á bjargi, en ekki sandi. Þar duga engin skammtímaleiktjöld enda alltof mikið í húfi. Við erum saman ein þjóð í blíðu og stríðu. Því miður urðu margir útundan í góðærinu og áttu engan aðgang að veislunni né Babelsturnum, en kunna að líða nú óverðskuldað sárt í þrengingunum sem eru mannanna verk. En nú horfum við öll saman til framtíðar í einni von í að byggja upp samfélag sem hefur raunsönn lífsgæði í forgrunni og engum verði gleymt í þjóðfélagi sem á sér réttlæti að hornsteini. Það er stóra vonin sem við eigum öll saman. Við erum saman á veginum, enda Babelsturnar fallnir og veislunni lokið. Þá er gott að feta í fótspor konungsmanns sem alslaus kom fram fyrir Guð, bað hann hjálpar og treysti orðum Guðs skilyrðislaust. “Maðurinn trúði því orði, sem Jesús mælti til hans, og fór af stað” eins og segir í guðspjallinu. Nú leggur þjóð af stað úr vegamótum og við biðjum þess að hún megi treysta orði Guðs, sem er með í för. Tökum undir orð postulans í ritningarorðunum sem hér voru lesin: “Styrkist nú í Drottni og í krafti máttar hans” og megi orð Jesaja spámanns rætast sem einnig voru hér lesin: “Fögnuður og gleði skal fylgja þeim, en hryggð og andvarpan flýja”. Amen.

Nú kom Jesús aftur til Kana í Galíleu þar sem hann hafði gert vatn að víni. Í Kapernaúm var konungsmaður nokkur sem átti sjúkan son. Þegar hann frétti að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona. Þá sagði Jesús við hann: „Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.“

Konungsmaður bað hann: „Drottinn, kom þú áður en barnið mitt andast.“

Jesús svaraði: „Far þú, sonur þinn lifir.“

Maðurinn trúði því sem Jesús sagði við hann og fór af stað. En meðan hann var á leiðinni ofan eftir mættu honum þjónar hans og sögðu að sonur hans væri á lífi.

Hann spurði þá hvenær honum hefði farið að létta og þeir svöruðu: „Í gær upp úr hádegi fór hitinn úr honum.“ Þá sá faðirinn að það var á þeirri stundu þegar Jesús hafði sagt við hann: „Sonur þinn lifir.“ Og hann tók trú og allt hans heimafólk. Jóh. 4 46-53