Fjölmenningarfærni og fjöltrúarlegur veruleiki

Fjölmenningarfærni og fjöltrúarlegur veruleiki

Fjöltrúarleg færni felur í sér næmni á fjölbreytileika menningarlegs og trúarlegs bakgrunns fólks, getu og kunnáttu til þvermenningarlegra samræðna.

ldagur (10)Í nýlegri bók ,,Religious diversity and intercultural education; a reference book for schools" sem er gefin út af Evrópuráðinu og fjallar um fjölmenningarfærni og fjöltrúarlegan veruleika í skólum er leitast við að varpa ljósi á þá áskorun sem felst í því fyrir skólayfirvöld að taka þennan veruleika alvarlega. Þar er meðal annars minnt á að trúarleg og siðferðileg gildi eru svið sem fela í sér hugmyndir fólks um gildi lífsins. Slík gildi sé ekki hægt að nálgast í gegnum þröngt sjónarhorn námskrárgerðar eingöngu, né sé mögulegt að miðla þeim einhliða sem þekkingu.

Í bókinni er lögð áhersla á nýja vídd fjölmenningarlegrar kennslu í Evrópu, trúarlegu víddina sem sé bæði frá sjónarhorni mannréttinda sem og sjónarhorni fjölmenningarlegs náms hluti fjölmenningarsamfélagsins og þar með skólasamfélagsins. Markmiðið sé að bæta þjálfun sem hvetur til samtals (e. dialogue), gagnkvæms skilnings og bættrar sambúðar fólks.

Það er niðurstaða höfunda að efla þurfi fjölmenningarlegt nám sem hjálpi nemandanum að þroska með sér fjöltrúarlega færni. Fjöltrúarleg færni felur í sér næmni á fjölbreytileika menningarlegs og trúarlegs bakgrunns fólks, getu til að hafa samskipti við aðra og kunnáttu í þvermenningarlegum samræðum. Hún felst einnig í því að geta unnið í þvermenningarlegum hópi þar sem samræðan einkennist af hluttekningu, hæfileika til að kynna sér trú, venjur, tákn og helgisiði og síðast en ekki síst gagnrýna hugsun og sjálfstætt mat.

Margir fræðimenn eru á svipaðri skoðun og sett er fram í bók Evrópuráðsins sem vitnað er í hér að framan. Þar á meðal þýski fræðimaðurinn Heinz Streib. Að mati Streibs er þörf á viðhorfsbreytingu. Hér leggur hann  til að ný nálgun sé fólgin í nokkurs konar fyrirbærafræðilegu heimspekisjónarhorni (e. phenomenological philosophical perspective). Það felur í sér viðsnúning á viðhorfinu til hins framandi, frá því sem fælir og vekur ótta yfir í það sem vekur forvitni þó það sé um leið jafnvel hárbeitt áskorun.

Streib bendir á að þörf sé á nýrri tegund samsömunar. Þau hefðbundnu rök að einstaklingurinn þurfi að byggja upp eigin samsömun út frá trúarbrögðum sínum, til dæmis samsömun út frá lútherstrú, til að geta tekist á við fjöltrúarlegan veruleika dugi skammt. Þó svo að slík samsömun byggi á innri sannfæringu skorti að hún sé sett í samhengi. Einstaklingurinn verði að sjá eigin samsömun sem ferli sem stjórnast af opnum hug. Streib vill snúa eldri kenningum við og líta svo á að ferli sem feli í sér upplifun af og þátttöku í fjöltrúarlegu umhverfi geti orðið hluti þeirrar undirstöðu sem samsömun er byggð á. Markmiðið sé því að innleiða menningu hins framandi. Hér lærir einstaklingurinn að fást við eigin fordóma og taka við því sem er framandi sem gjöf, nokkru sem auðgi hann sem einstakling.

[Pistillinn er útdráttur úr samnefndri grein sem birist í Morgunblaðinu í dag á bls. 22.]