Undraráðgjafinn, barnið

Undraráðgjafinn, barnið

Algóði himneski faðir, megi það sem ég tala hér í húsi þínu í dag, vera þér þóknanlegt og fólki uppbyggilegt. Minnstu þess Guð minn að ég, þjónn þinn, er aðeins maður.

Algóði himneski faðir, megi það sem ég tala hér í húsi þínu í dag, vera þér þóknanlegt og fólki uppbyggilegt. Minnstu þess Guð minn að ég, þjónn þinn, er aðeins maður.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Gleðilega jólahátíð!

Jakob Jóhannesson Smári segir allt sem segja þarf, hann er að segja okkur frá barninu, Jesúbarninu – eiginleikum þess, eiginleikum hins Guðlega:

Ó, Jesúbarn, þú kemur nú í nótt,
og nálægð þína ég í hjarta finn.
Þú kemur enn, þú kemur undra hljótt,
í kotin jafnt og hallir fer þú inn.

Þú kemur enn til þjáðra’ í heimi hér
með huggun kærleiks þíns og æðsta von.
Í gluggaleysið geisla inn þú ber,
því guðdómsljóminn skín um mannsins son.

Sem ljós og hlýja’ í hreysi dimmt og kalt
þitt himneskt orð burt máir skugga’ og synd.
Þín heilög návist helgar mannlegt allt -
í hverju barni sé ég þína mynd.

Í hverju barni sé ég þína mynd. Það er þetta eilífa kraftaverk sem alla bræðir einu sinni á ári – og ætti alla að bræða, árið um kring, sem er miðpunkturinn í dag. Um þetta kraftaverkabarn hverfast jólin. Jólin eru þess vegna – og það á að vera til umræðu, eiginleikar þess og eðli. Guðdómurinn.

Það er magnað að vita til þess hve margir kennimenn telja sig þurfa að fara út í náttúruvísindi, í predikunum sínum, þegar jólahátíðin gengur í garð. Þá er algengt að guðfræðingarnir slái um sig með staðreyndum um gang himintunglana, hringrás árstíða, gerist spámannlegir og geri gáfulegir ráð fyrir vaxandi birtu í kjölfar þess að vetrarsólstöður eru nýlega umliðnar. Mikil eru þau tíðindi – en lítið óvænt.

Ég hef aldrei skilið nema í hættulega takmörkuðum mæli fúnksjón alheimsins, gangverk himintungla, sporbauga og stjörnuþokur. Það er naumlega að ég get lesið út úr flóðatöflunni.

Fæðing frelsarans hefur ekkert með það að gera að dagurinn hefur ákveðið að lengjast, í einhverju huldu samsæri með sól og mána og klukkunni. Fæðing frelsarans er því óviðkomandi að það er farið að birta á ný. Andlegir og andlausir þverhausar af öllum sortum mega éta öll þessi vaxandi birtuskilyrði mín vegna – þau eru ekki þeim að þakka; en þeir eru auðvitað með öðrum mönnum þakklátir fyrir þau – reyndar sérstaklega, því þá geta þeir dinglað með í jólahaldinu og þóst vera að fagna einhverju öðru en við hin.

Það sem ég er að reyna að segja er: Ég trúi ekki á Jesú Krist vegna þess að daginn tekur að lengja vegna reglubundins hringlsóls jarðar, sólar og Almanaks Hins íslenska þjóðvinafélags.

Nei, ég trúi vegna þess sem þar segir, í jólaguðspjallinu, því sem þar er boðað, því sem þar er opinberað: „Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn“. Það eru tíðindin, ekki birtuskilyrðin, nema jú þessi: „… og dýrð Drottins ljómaði í kringum þá.“

Tíðindin eru Jesúbarnið, Jesús Kristur, tíðindin eru erindi hans, tíðindin eru frelsun mannanna, „Yður er í dag frelsari fæddur“, tíðindin eru náðin sem hann bar okkur, „velþóknun Guðs yfir mönnunum.“ Tíðindin eru jólaguðspjallið sjálft, boðskapur þess um eilífðar guðdóminn sem gengur til móts við okkur og leysir okkur undan því sem er okkur ofviða. Ótti hirðanna þegar þeir stóðu frammi fyrir guðdómnum, nálægum Guði, var sá sami og ævinlega verður þegar maðurinn stendur í ljósbjarma mikilfengleika sem hann kann ekki að skýra og ræður ekki við: „Þeir urðu mjög hræddir“ – og hvar var þá huggunar von? Jú þar og þá, og óumbeðið, voru skilboð þess hæsta „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð“.

Höfum við litið í jötuna, vögguna, og horfst í augu við endurlausnara heimsins? Augu þess sem ber hörmung og angist veraldarinnar. Höfum við horft undir skínandi ljósi á Eilífðarföðurinn, Friðarhöfðingjann? Jú, um stund, en bara um stund, og því er umhorfs í heimi sem raun ber um vitni. Og svo undrast menn ástandið, í sömu mund og þeir flýja Undraráðgjafann, loka á hann og keppast við að burtskýra undrið; talað er um arfsagnir, mýtur og ævintýri. Menn loka á hann og varna börnunum að koma í fang hans og bítta á glassúrheimspeki Johns Lennon og speki aldanna, þrautreyndri, prófaðri og ígrundaðri, rannsakaðri kynslóð eftir kynslóð – hugmyndafræði sem hefur staðið af sér öll stríð og raunir; hugsjón sem á metsölubók allra tíma alltaf á hverju ári á heimsvísu. Biblíuna.

Flóttinn undan Undraráðgjafanum, stríðið gegn visku hans og ráðgjöf skekur jafnvægi manns, jafnvægi heims, jafnvægi alls. Sá flótti, sú aðför er ein af ástæðum þess að við búum í skekktum heimi, snúinni veröld.

„Úr liði er öldin! Ó mig hryllir við
þeim örlögum að kippa henni í lið.“
(Hamlet I.v. þýð. Helgi Hálfdanarson)

Svo segir Hamlet á einum stað í samnefndu leikriti Shakespeares og enn er spurt, á vorum dögum: Hvað getum við gert? Hvar er vonin? Hvernig? Eða hryllir okkur við að vona? Er von?

Já svo sannarlega, vonin er í litla barninu í jötunni, í augum þess, og vonin er yfir okkur öllum og í okkur öllum því:
„Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna skín ljós.“
Og:
„Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“

Sá er boðskapurinn eini og sanni sem mennirnir fá að heyra, barnið er komið til að vera, til að aflétta okkar eigin djöfulskap, illsku og synd. Barnið er fætt til þess að veita kærleikann, gæsku Guðs og náðina sem hann hefur veitt okkur aumum mönnunum.

Því að barn er oss fætt,
sonur er oss gefinn.

Og svo kemur þessi lína hjá spámanninum, Jesaja:

„Á hans herðum mun höfðingjadómurinn hvíla“

Þarna liggur lykillinn að einu stærsta meini vorrar aldar. Mannkynið hefur gert slag í því að yfirtaka höfðingjadóminn. Leysa af Undraráðgjafann, setja sig í stellingar sem Guðhetju. Það er sama hvert litið er – maðurinn hefur sett sig í sæti Guðs, eða reynt það. Hann gengur gegn náttúrunni, gegn réttlætinu, gegn friði og gegn jafnræði. Hann hefur farið offari, Thor Vilhjálmsson orðar þetta vel í einni af ferðabókum sínum, í meira en hálfrar aldar gömlum texta:

„Maðurinn hefur setzt til að spila á takkaborð guðs almáttugs og vekja og lægja veðrin með tækni sinni og veit svo öngu viti lengur vegna þess að sá sem ekki þekkir sjálfan sig og getur ekki hamið öll þau öfl sem búa í honum hvernig ætti hann að geta drottnað yfir náttúrunni og leikið sér að hinum myrku kröftum hennar.“

(Regn á rykið, 1960)

Nei, höfðingjadómurinn er ekki okkar! Höfðingjadómurinn er hans, á hans herðum mun höfðingjadómurinn hvíla og þá staðreynd ættum við að hafa vit á að virða.
Hitt er fullreynt.

-Það er ekki Jesúbarnið sem stekkur fólki á flótta svo það streymir nú um álfur allar í leit að friði og skjóli og lífsbjörg.
-Það er ekki Jesúbarnið sem afmáir fegurð, ryðst yfir landið og fordjarfar náttúruperlum eða fornum minjum.
-Það er ekki Jesúbarnið sem djöflar flugskeytum og eiturtundrum í loft upp sem svíða og drepa menn og skepnur.
-Það er ekki Jesúbarnið sem mismunar kynjum, þjóðflokkum, þjóðarbrotum eða bara hverjum sem vera vill eftir fjandsamlegum hentugleikum.
-Það er ekki Jesúbarnið sem selur eitur á götunum, hrekur börn í vændi og flytur barnungar stúlkur milli landa til þess að brúka á hóruhúsum auðróna.
-Það er ekki Jesúbarnið sem skiptir ranglega manna á milli þjóðarauði og verðmætum.

Allt þetta gera þeir hinir, sem hafa gleymt – ellegar ekki kært sig um – að horfa í ofan í jötuna, í augu Jesúbarnsins. Og stríðin eru ekki háð Jesúbarnsins vegna, trúarbragðastríð eru sjaldnast vegna trúarbragða heldur vegna manna, grimmdar, græðgi og ráðleysis, ástæðan er „heimsins ráð sem brugga vondir menn“ svo vitnað sé í nóbelsskáldið okkar.

Þetta er ekki spurning um vinstri og hægri í pólitík – hún er tittlingaskítur og húmbúkk – þetta er spurning um jafnvægi og réttsýni. Því þegar þú horfir í augun Jesúbarnsins horfir þú eins í bæði augu og blíðan býr í báðum jafnt, því hægra og því vinstra. Það er þar sem birtan lifir, í jötunni í fjárhúsinu þá og nú – í augum allra barna ævinlega – það er í þau sem þarf að horfa; þangað skal sækja visku – í djúp sakleysis þess sem ekki hefur lært vonskuna, ekki hefur öðlast hrokann til þess að teygja sig eftir höfðingjadómi Guðs almáttugs.

Því yrkir Jakob Jóhannesson Smári svo í sálminum góða:

Þín heilög návist helgar mannlegt allt -
í hverju barni sé ég þína mynd.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda, Amen.

Um höfundinn