Sáttaleið til friðar

Sáttaleið til friðar

Þegar deilur taka á sig trúarlegt yfirbragð er oftar en ekki önnur rót að þeim en hin trúarlega. Trúin hefur þá verið „sjanghæjuð“ til þess að þjóna öðrum málstað og ofbeldisfyllri en henni er ætlað. Og trúarleiðtogar láta sig í þeim tilvikum meira skipta bitlinga og greiðasemi valdhafa en umhyggju fyrir þeim sem eru í neyð og hættu.
Einar Karl Haraldsson - andlitsmyndEinar Karl Haraldsson
16. september 2006

Heimurinn yrði ekki öruggari án trúarbragða. Þvert á móti myndi dýpri þekking og innilegri guðrækni verja okkar gegn því að bregðast við ótta með örþrifaráðum. Þetta segir Raymond Helmick prófessor sem ásamt Rodney L. Petersen framkvæmdastjóra tekur þátt í ráðstefnu um Sáttaleið til friðar, sem Kjalarnesprófastsdæmi efnir til í Hafnarfjarðarkirkju 22. þessa mánaðar.

Helmick bendir á að öll trúabrögð feli í sér eiginleika sem oft skapa sterka sjálfsmynd hjá áhangendum. Valdsmenn hafa af þeim ástæðum tilhneigingu til að misnota trúarsamfélagið og reyna að nýta samstöðu þess í þágu hatursherferða, hefndaraðgerða eða útþenslustefnu. En þetta ferli er að hans dómi fremur félagslegt heldur en trúarlegt: Þegar deilur taka á sig trúarlegt yfirbragð er oftar en ekki önnur rót að þeim en hin trúarlega. Trúin hefur þá verið "sjanghæjuð" til þess að þjóna öðrum málstað og ofbeldisfyllri en henni er ætlað. Og trúarleiðtogar láta sig í þeim tilvikum meira skipta bitlinga og greiðasemi valdhafa en umhyggju fyrir þeim sem eru í neyð og hættu.

Þetta er aðeins lítið dæmi um þá tegund umræðu sem þeir Helmick og Petersen standa fyrir. Þeir hafa hvor með sínum hætti þróað kenningar um hvernig best sé að setja niður deilur og koma á raunverulegu sáttaferli eftir erfið og langvinn átök. Í störfum sínum fyrir Guðfræðideild Boston Háskóla og Guðfræðistofnunina í Boston hafa þeir átt hlut að mikilvægri útgáfustarfsemi á þessu sviði. Helmick hefur auk þess reynslu af sáttamiðlun í Norður-Írlandi, Líbanon, Ísrael og Palestínu, löndum fyrrum Júgóslavíu, Austur-Tímor og Suður-Afríku, og með Kúrdum í Írak og Tyrklandi. Þetta eru því ekki bara kenningarsmiðir úr "fílabeinsturni" háskólasamfélags heldur menn með reynslu frá erfiðum átakasvæðum.

Í heimsókn þeirra gefst frekara tækifæri til þess að kynnast því hvað felst í kenningum þeirra um félagslegt sáttaferli og hvernig fyrirgefning, sáttargerð og réttlæti geta leitt til heilbrigðs samfélags. Deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafs virðast engan enda ætla að taka og erfitt er að koma auga á sáttaleiðir. Hvað hafa guðfræðingarnir frá Boston fram að færa sem gæti verið upphaf að sáttaleið til friðar og heilbrigðs samfélags í Palestínu og Líbanon? Og geta þeir gefið Íslendingum vísbendingar um hvernig við ættum á alþjóðavettvangi að leggja lóð á vogarskálar friðar og sátta?