Í hverri bæn liggur möguleiki kraftaverksins

Í hverri bæn liggur möguleiki kraftaverksins

Sumt fólk er eins og litli drengurinn sem var spurður af prestinum sínum hvort hann bæði daglega og hann svaraði: “Nei, ekki á hverjum degi. Suma daga vantar mig ekki neitt.”

Og Jesús sagði við þá: Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: Vinur, lánaðu mér þrjú brauð, því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann.

Mundi hinn þá svara inni: Gjör mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð?

Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf.

Og ég segi yður: Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða. Er nokkur sá faðir yðar á meðal, að hann gefi syni sínum, er biður um fisk, höggorm í staðinn, eða sporðdreka, ef hann biður um egg?

Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann. Lúkasarguðspjall kafli 11.5-13

Eftir gríðarlega spennandi kosningarnótt er ljóst að stjórnin heldur velli. Sumum er niðurstaðan gleði á meðan aðrir eru ósáttir. En mig skyldi ekki undra þó að það færðist værðarblundur yfir einhvern undir ræðunni eftir allar vökurnar.

Hvernig sem kosningin hittir okkur skulum við hafa í huga að allir sem gefa sig út í stjórnmál gera það af því þeir vilja koma góðum málum áleiðis og bæta samfélagið. Þeim er vandi á höndum og með lýðræðislegu kjöri bera þeir mikla ábyrgð. Við hvert og eitt höfum líka ábyrgð að styðja kjörna fulltrúa í störfum sínum. Við getum gert það á margvíslega. Tekið þátt í samfélags­umræðunni á ábyrgan hátt. Tekið þátt í stjórnmálaflokki eða notað þá leið sem við förum í dag á almenna bænadeginum og biðjum fyrir stjórnmálamönnunum. Það gerum við sérstaklega með bænarorðum biskupsins. Við biðjum að hugur þeirra og störf megi stýrast af mannúð og samhygð. Við biðjum um styrk okkur til handa til að styðja stjórnmálamennina til góðra verka. Við biðjum um blessun yfir land og þjóð.

II Það er brauðilmur í loftinu. Rúnstykkin nýbökuð á borðinu. Fjölskyldan safnast saman og fær sér næringu fyrir daginn. Vinnudagur framundan. Kyrrð kvöldsins færist yfir. Brauðið er búið, ilmurinn horfinn, fjölskyldan býr sig til náða. Þá er drepið á dyr. Frændi úr fjarlægum dal er kominn í heimsókn. Hann hafði beðið af sér mestu sólarsvækjuna, lagt af stað síðdegis og nú er hann kominn.

Það verður uppi fótur og fit. Það þarf að fæða frænda. Gestrisni gyðinga býður ekki upp á annað. Leifar kvöldverðarins eru dregnar fram, en það er ekki nóg. Nú eru góð ráð dýr, hvað skal gera?

Hér er húsbóndi í þörf. Þörf fyrir hjálp. Hvað gerir hann? Hann fer bónarveg til vinar í næsta húsi.

Húsbóndinn í næsta húsi fer úrillur fram úr þegar vinurinn ber upp bæn sína og gerir rúmrusk hjá honum. Hann heyrir beiðnina og sökum áleitni vinarins fær hann honum brauð eins og hann þarf. Í umræðu messuhópsins um texta dagsins kom fram sú snjalla ábending að hér væri um fyrirbæn að ræða. Maðurinn lét reyna á vináttu hjá nágranna sínum af því hann var að biðja um brauð fyrir annan. Hann lagði þarfir frændans fram. Það má vera okkur hvatning til bæna fyrir öðrum. Jesús dró fram með dæmisögunni að Guð er margfalt glaðari í gjafaútlátum en úrilli nágranninn í sögunni. Guð þráir að gefa okkur góðar gjafir. En það er ekki samasem merki á milli þess og að við fáum allt sem við biðjum Guð um. Drottin allsherjar er ekki sjálfsali. Guð svarar bænum okkar eftir sínum vilja og á sínum tíma sem fer ekki endilega saman með okkar tíma. Það getur reynst okkur erfitt.

En Jesús hvatti okkur til bæna. “Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða.” Lúk.11.9 Hverju hvatningarorði fylgir fyrirheit. Með því að biðja muntu öðlast, þú finnur þegar þú leitar og dyrum verður upp lokið ef þú knýrð á. Jesús vill sannfæra okkur um að á okkur sé hlustað og að hugur Guðs sé velviljaður gagnvart okkur. En við fáum ekkert fyrirhafnarlaust. Við þurfum að leggja okkur eftir því með bæn, beiðni og þakkargjörð. Við þurfum kannski að biðja oft eða með þunga áður en bænasvarið lýkst upp fyrir okkur. “Knýið á – þá opnar sig ástríkt Drottins föðurhjarta” sb. 163 v.3 V. Briem

III Sumt fólk er eins og litli drengurinn sem var spurður af prestinum sínum hvort hann bæði daglega og hann svaraði: “Nei, ekki á hverjum degi. Suma daga vantar mig ekki neitt.”

Stundum er okkur svona farið en það er misskilningur á bæn ef við höldum að hún sé aðallega pöntunarlisti. Bæn er vináttusamfélag við Guð. Að vera í bæn er að dvelja með Guði. Þar er flæði á milli. Þú andar að þér Guði og öllu því góða sem hann gefur og þú andar þér inn í Guð. Þú leggur orð í belg, en það er ekki aðalmálið. Þú hefur opnað þig fyrir Guði í bæn, þú ert í nærveru hans anda, það skiptir mestu. Andi Guðs og friður yfirskyggir þig og þú hvílir með allt þitt í Guði. Áhyggjurnar af bænaefnunum hverfa af því þú veist að Guð sem elskar þig eins og þú ert hefur tekið málefni þín að sér. Þegar bænin þroskast ferðu að treysta Guði fyrir því að framkvæma bænaefnið eftir hans vilja því þú veist að Guð elskar þig meir en nokkur móðir eða faðir getur gert. Þú veist að Guð einn hefur heildaryfirsýnina yfir líf þitt og hann vill að allt samverki þér til góðs. Með fyrri reynslu af bænheyrslu Guðs ferðu smám saman að treysta því að best sé að biðja um hans vilja því hann veit hvað er þér og þínum fyrir bestu. En þetta traust byggist ekki upp nema þú biðjir reglulega til Guðs. Þú þarft að byggja upp þetta vináttusamband með samveru í bæn. Einungis með ræktun við bænina lærirðu að treysta því þegar þú leggur hana fram fyrir Guð að hann muni vel fyrir sjá. Stundum erum við ekki í stuði til að biðja eins og einn messuþjónninn nefndi. Ráð hans var mjög gott í þeim aðstæðum. Notaðu gömlu góðu bænaversin, farðu með þau upphátt og hugsa um innihaldið því þau eru eins og vel slípaðar steinvölur á sjávarströnd.

IV Nú gæti einhver spurt. Hvernig stendur á því að stundum fæ ég ekki bænasvör? Þessa spurningu hafa allir biðjendur glímt við. Svörin geta verið ólík. Stundum biðjum við um það sem er okkur ekki til góðs. Kannski vitum við það innst inni, en í önnur skipti er það skammsýni okkar sem byrgir sýn. Við höldum að við þurfum á þessu að halda á meðan raunveruleg þörf okkar er önnur. Guð þekkir þarfir okkar betur en við sjálf og hann svarar þörf okkar en ekki öllum óskum. Stundum er bæn okkar sjálfselsk. Slíkri bæn getur Guð svarað neitandi. Það er líka bænasvar. Við höfum dæmi úr ævi Jesú þar sem hann fékk bæn sína ekki uppfyllta eftir eigin ósk. Það var á angistarstund hans í Getsemanegerðinum. Hann vissi að krossinn beið hans, það var honum þungbær raun og hann vildi í angist sinni komast frá þeirri þjáningu. Hann bað: “Faðir, ef þú vilt, þá tak þennan kaleik frá mér! En verði þó ekki minn heldur þinn vilji.” Lúk.22.42 Hann kom ósk sinni á framfæri, en hógvær var hún og innsigluð í bak og fyrir með bæninni, verði þinn vilji Drottinn en ekki minn. Vilji Guðs var að Jesús tæki á sig syndir mannanna með því að deyja á krossinum. Jesús gekk undir þann vilja. Hann þagði í yfirheyrslunni en varði sig ekki. Í sársaukanum á krossinum hrópaði hann: Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig? Í mestu þjáningunni upplifði hann að Guð, faðirinn og huggarinn var ekki þar. Jesús upplifði aðskilnað minn og þinn frá Guði. Hann gekk í dauðann til að leysa mig og þig undan eilífum aðskilnaði frá Guði vegna synda okkar. Jesús opnaði okkur greiða bænaleið að Guði þar sem hann horfir á okkur í gegnum fórnardauða Krists með fyrirgefandi augnarráði. Guð þráir að eiga samfélag við okkur, Guð þráir að svara bæn okkar. Það er okkar að biðja.

Þegar sjúkur maður sem biður um heilsu fær ekki bænasvar eru engin einföld svör til. Við skiljum ekki alltaf þjáninguna. En sá sem ekki fær bænasvar getur horft til Jesú sem einnig átti þessa erfiðu reynslu að fá ekki bænasvar í slæmum aðstæðum. Þar á hann meðbróður í þjáningunni. Meðbróður sem sigraðist á illsku og dauða og er allt vald gefið til að dæma lifendur og dauða. Kristur hefur liðið á allan hátt á undan okkur og hann er nærri okkur þegar við líðum. En hann getur svarað bæninni á annan hátt en við væntum. Guð svara eftir sínum vilja og á sínum tíma eins og okkur er fyrir bestu. Þegar sjúkur maður biður og sér ekki bænasvar má hann hafa í huga að bænin getur líka verið kvörtun. Við höfum leyfi til að kvarta við Guð eins og Jesús gerði í bæninni, - hví hefur þú yfirgefið mig-. Við megum klaga og kvarta þegar þörfin krefur. Eða eins og Pétur postuli sagði: “Varpið allri áhyggju yðar á (Guð), því að hann ber umhyggju fyrir yður.” 1.Pét.5.7 Sálmaskáldið Valdimar Briem hefur þetta viðhorf til bænarinnar:

Og þótt ég öðlist eigi gef ei ég hugsa megi: “Mín bæn til einskis er”. Þótt ekkert annað fái ég í auðmýkt hjartans má eg í von og trausti tengjast þér. sb. 338,v.5 V. Briem

Bæn er samband við Guð og ekkert tekur því samfélagi fram. Jafnvel þó bænheyrslan standi á sér þá er bænin ekki til einskis, því við höfum tengst Guði og nærumst í bæn. Og þegar við vitum ekki hvernig við eigum að biðja fyrir aðstæðum okkar þá eigum við von í pistlinum hjá Páli er segir: “Þannig hjálpar og andinn oss í veikleika vorum. Vér vitum ekki, hvers vér eigum að biðja eins og ber, en sjálfur andinn biður fyrir oss með andvörpum, sem ekki verður orðum að komið. En hann, sem hjörtun rannsakar, veit hver er hyggja andans, að hann biður fyrir heilögum eftir vilja Guðs.” Róm.8.26,27 Það er þessi heilagi góði andi sem Jesús lofaði að Guð gæfi þeim sem bæði um hann. Biðjum að heilagur andi opinberist í lífi okkar að vilja Guðs.

Á milli þess sem messuþjónarnir leggja fram bænaefnin hér á eftir, munum við syngja, - þinn vilji Guð, verði á jörð. Við gerum það í trausti þess að Guð svarar alltaf á besta mögulega veg. Og við skulum hafa í huga hugsun Kaj Munks sem hann orðaði í einu leikrita sinna að í hverri bæn liggur möguleiki kraftaverksins.

Amen.