Ástæðan var ást

Ástæðan var ást

Hann rak út illa anda viðtekinna hefða og hleypti þannig fóki, sem valdaöflin vildu halda utan við samfélagið, inn og gerði þau að þátttakendum. Hann opinberaði valdaruglið þegar hann ráðlagði okkur að rétta frekar fram hina kinnina en að taka þátt í ofbeldinu og berja frá okkur. Að gefa frekar nærfötin okkar líka til þeirra sem vilja eignast yfirhafnirnar okkar heldur en að taka þátt í óheiðarlegum viðskiptum

I Guð sendi son sinn í heiminn til þess að deyja fyrir okkur!

Er ekki svolítið harkalegt að senda einhvern, hvort sem það er Guð eða manneskja, í heiminn til þess að deyja?

II Heimurinn okkar er fullur af illsku. Í honum ráða öfl sem erfitt er að ráða við eða berjast gegn. Þessi öfl eiga sér ólíkar birtingarmyndir eftir því hvar í heiminum við erum stödd.

Ég er sannfærð um að flestar manneskjur séu í eðli sínu góðar og vilji ráða niðurlögum þessara afla. En þrátt fyrir góðan vilja þá gengur það ekki vel.

Flestar manneskjur eru á móti stríði. Samt sem áður geysar stríð reglulega á mörgum stöðum í heiminum. Flestar manneskjur eru á móti þrælahaldi. Þrátt fyrir það viðgengst þrælahald víða í heiminum t.d. í formi mansals. Og fyrir stuttu var yfir 200 skólastúlkum í Nígeríu rænt til þess að nota þær sem þræla. Og þetta á sér stað árið 2014. Mér þykir líklegt að meirihluti fólks í heiminum vilji jafnrétti allra, í það minnsta í orði. Þrátt fyrir það ríkir hvergi fullkomið jafnrétti.

Og svona mætti lengi teja.

Hver eru þessi sterku öfl sem stjórna öllu þessu ójafnvægi og ofbeldi í heiminum?

Ég veit það ekki. En þeim er stjórnað af fólki. Þau eru innbyggð í hugsunarhátt fólks og stofnanna. Í mörgum tilvikum eru þessi öfl orðin að sjálfstæðum skrímslum sem virðast lúta eigin lögmálum. Þau snúast alltaf um völd. Þau snúast alltaf um peninga. Þau snúast um hagsmuni og tengsl. Vina- og fjölskyldubönd. Þau snúast um sjálf sig.

Það er erfitt og leiðinlegt að vera þessi sem er alltaf á móti. Sá eða sú sem bendir á óréttlætið, ójafnvægið og ekki vill taka þátt í leiknum. Oft er beinlínis hættulegt að vera sú manneskja.

Á hverjum degi stöndum við mörg frammi fyrir spurningunni hvort við viljum taka þátt eða draga okkur út úr. Ætlum við að spila með og velja völdin og peningana eða ætlum við að standa með þeim sem verða undir. Og eiga á hættu að verða undir sjálf.

Valið er erfitt og svarið er ekki alltaf augljóst. Og oft sjáum við ekki einu sinni spurninguna því við erum svo samdauna þessum valdakerfum samfélagsins.

Kjósum við valdaöflin í von um að þau útvegi okkur áhrif og komi okkur til metorða, upp á hærri tinda og í virðingastöður? Eða kjósum við þau sem við teljum að muni huga að hagsmunum allra. Þau sem hafa kjark til þess að opinbera vitleysuna og neita að taka þátt?

Jesús stóð reglulega frammi fyrir þessu vali. Hans var freistað í eyðimörkinni af valdaöflum sem buðu honum völd, frama og ríkidæmi ef hann gengi í þeirra lið. Hann var nýskírður þegar þetta átti sér stað og hafði aðeins sinnt boðun sinni í skamman tíma. Guðspjöllin lýsa þessi vali hans sem gríðarlega erfiðu og þjáningarfullu. Hann sem var birtingarmynd Guðs í heiminum átti ekki auðvelt með að standa þessar lokkandi freistingar. Eftir miklar þjáningar og erfitt val sagði hann NEI! Og oft þurfti hann að grípa til þess að segja NEI!

Það má rökstyðja að öll tilvera Jesú hafi gengið út á að mótmæla valdaöflum og viðteknum hefðum, gegnsýrðum af spillingu og sérhasmunum, á friðsamlegan hátt.

Jesús var nefnilega “aktivisti”.

Hann boðaði að betra væri að vera fátæk og réttlát en rík og hluti af spillingu valdaaflana. Hann rak út illa anda viðtekinna hefða og hleypti þannig fóki, sem valdaöflin vildu halda utan við samfélagið, inn og gerði þau að þátttakendum. Hann opinberaði valdaruglið þegar hann ráðlagði okkur að rétta frekar fram hina kinnina en að taka þátt í ofbeldinu og berja frá okkur. Að gefa frekar nærfötin okkar líka til þeirra sem vilja eignast yfirhafnirnar okkar heldur en að taka þátt í óheiðarlegum viðskiptum.

Hann snerti þau sem voru óhrein og tók með því stóra áhættu. Já, hann var alltaf að taka áhættu. Hann gætti sín ekki á því að halda öllum góðum og segja ekkert sem gæti “stuðað” nokkra manneskju til þess að vera “inni” og vera elskaður af öllum.

Enda fór þetta illa.

Þetta fór svo illa að hann var tekinn af lífi vegna þess að hann spilaði ekki með. Vegna þess að hann sýndi hugrekki og tók stöðugt áhættu. Vegna þess að hann var “aktivisti”.

Boðunartími hans einkenndist allur af mótmælum gegn óréttlæti valdaafla þess samfélags sem hann var hluti af og valdaafla sem eru stærri og magnaðri en nokkur samfélög. En hann mótmælti friðsamlega. Svo friðsamlega að hægt var að svíkja hann með kossi og negla hann á kross.

III En var þetta allt saman vitað? Gerðist Guð manneskja til þess að deyja fyrir okkur. Svo að við fengjum eilíft líf. Var þetta fyrirfram ákveðin fórn?

Eða getur verið að þetta hafi snúist um eitthvað annað?

Hefði hann kannski átt að þiggja frægð og völd? Sýna heiminum að hann var sannarlega Guð? Nota karismann til að byggja risastóran söfnuð og gera heiminn að betri stað með því að spila svolítið meira með?

Er það ekki það sem við oft veljum til þess eins að lifa af? Að spila með til þess að koma einhverju góðu til leiðar?

Ég hef gert það og mér þykir ekki ólíklegt að þú hafir einhvern tímann gert það líka.

En Jesús spilaði aldrei með og því myndum við sjálfsagt telja hann félagslega óhæfan í dag og giska á hvaða greiningar hann gæti verið með. Og kannski var hann jafn félagslega óhæfur og óþægilegur þá og við myndum mögulega telja hann nú.

Getur verið að þetta hafi kannski allt saman farið á einhvern allt annan veg en það átti að gera?

I Tónninn í guðspjallinu sem við heyrðum áðan er tregafullur. Mennska þessa friðsama mótmælanda, sem er birtingarmynd og holdtekning Guðs í heiminum, er alls ráðandi.

Það er eins og hann sé að reyna að fá vini sína til að skilja að þetta er alvara. Að hann er á förum. Og hann er ekki leiðinni í frí til Spánar. Hann mun brátt deyja. Hann veit að hann hefur ögrað of mikið og nú er það aðeins dauðinn sem bíður hans.  Lærisveinarnir gera sér ekki grein fyrir aðstæðunum. Þeir vita bara að vini þeirra líður illa en skilja ekki af hverju. Kannski þorir enginn þeirra almennilega að nefna það.

Það er ekki óvenjulegt þegar fjölskyldumeðlimur á stutt eftir að enginn geti eða vilji tala um það, þó allir viti í hvað stefni.

Mikið held ég að hann langi til að sleppa við þetta. Að halda bara áfram að vera með vinum sínum og hætta að vera Guð. Að hætta að vera alltaf svona réttlátur og sannur.

V Getur Guð sem birtist okkur í heiminum sem friðsami aktivistinn Jesús, sent son sinn í dauðann?

Gengur það upp?

Nei, það gengur nefnilega ekki upp á nokkurn hátt. Jesús beitti sér gegn öllu ofbeldi og boðaði ást og frið.

Það voru sjálfsagt flókin öfl og pólitík sem leiddu til dauða Jesú Krists og það er skelfilega sorglegt. Ég er sannfærð um að hann átti að lifa því verki hans var ekki nærri lokið. En það voru valdaöflin í samfélaginu sem ekki þoldu þennan friðsama “aktivista” sem tók engum rökum og hafði ógnað hinum óörugga Heródesi alveg frá því hann kom í heiminn. Þess vegna var hann tekinn af lífi.

En það merkilega gerðist. Valdaöflin sigruðu ekki. Hvað haldið þið að hafi verið gaman að drepa Jesú sem tók ekki á nokkrun hátt þátt í leiknum. Það sem gerðist á krossinum var að Jesús opinberaði valdaöflin, dró úr þeim máttinn og frelsaði okkur að nokkru leyti úr þeirra greipum. Krossfestingin var kannaski hin fullkomna leið friðsamra mótmæla gegn valdaöflum heimsins. Mótmæli þar sem Jesús (Guð) hefur tekið sér stöðu með öllum þolendum valdkúgunnar, með öllum þeim sem líða óréttlæti.

Jesús sigraði valdaöflin ekki einungis á krossinum heldur einnig með upprisu sinni þar sem völdin eru ekki af okkar heimi heldur af heimi yfir, undir og handan þessa heims.

Þessi öfl eru enn til staðar og þau verða það sjálfsagt svo lengi sem manneskjan byggir þessa jörð. Þau eru mannleg og ómannleg. Stundum eins og skrímsli sem hefur öðlast sjáfstæða tilvist. Og alltaf snúast þau um völd, peninga og eiginhagsmuni. Vonin sem líf Jesú, krossfestingin og upprisan gefur okkur er að það er hægt að mótmæla.

Að það hefur áhrif að mótmæla. Að það er hægt að opinbera vitleysuna og gera hana berskjaldaða.

Að Jesús Kristur getur boðið okkur annan möguleika sem er líf þar sem við látum þessi öfl ekki hafa betur. Gefur okkur hugrekki til að vera sönn og taka afstöðu með þeim sem verða undir. Alltaf.

Ég trúi því að ástæðan fyrir dauða Jesú Krists hafi ekki verið sú að Guð þyrfti einhverja fórn. Það samræmist ekki þeim Guði sem Jesús Kristur kynnir okkur með tilvist sinni.

Ástæðan fyrir dauða Krists var sú að hann gafst ekki upp fyrir valdaöflunum. Hann elskaði manneskjuna og réttlætið. Já hann elskaði. Ástæðan var ást Guðs á okkur og á heiminum. Ástæðan var ást. Amen.