Flensa leiðans

Flensa leiðans

Framundan eru dagar sem sumir hverjir bera einungis í sér leiða. Þrátt fyrir að allt bendi til að dagurinn verði heiðskýr himinn og fyrir neðan hann muni heyrast hlátrasköll ævintýra er eins og sumir þessa daga misstígi sig herfilega og eru aðeins skugginn af sjálfum sér og gangi um á hækjum leiðans.

Prédikun Nýársdag 2010

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

Flensa leiðans.

Augnablik. Bók væntingana kom úr prentsmiðju hugans á miðnætti. Útgefandi þeirra bókar ert þú sjálf/ur. Hún er prentuð í einu eintaki en ef áhugi er fyrir þá fer önnur prentun af stað án nokkurs fyrirvara. Reynslan segir okkur líka að fyrsta prentun er ólík þeirri sem endanlega er gefin út í lok árs. Enda er verið að tala um um bók væntinga okkar. Á seinni hluta síðastliðins árs fór hún að taka á sig mynd bókin. Bókin er harðspjalda prýdd framkölluðum myndum væntinga um hverning árið á að vera. Hún telur heilar 364 blaðsíður á flestar þeirra er búið að skrifa textann en margar eru auðar eins og snjóhvít auðn þar sem engin maður hefur stigið fæti sínum á. Aðeins þú stendur frammi fyrir þessari auðn. Geislar sólar renna sér fótskriðu á yfirborði þess og ljær henni mynd ekki þessa heims. Því vart er sá lófastóri blettur til á jörðu sem ekki hefur verið numin af manneskjunni. Helst vildi maður hafa það þannig áfram en hjá þvi verður ekki komist að marka þá auðn með manns eigin sporum og eða þeirra samferðamanna sem eiga leið um árið 2010. Við vitum líka að þótt við erum búin að setja myndir væntinga okkar inn á nær hvern dag ársins sem hóf sitt skeið fyrir fáeinum stundum að þeirra staður er ekki endilega tryggður akkúrat á þeirri síðu á þeim degi sem þeim var komið fyrir. Það verða alltaf óhjákvæmilegar tilfærslur, sumar sárar og aðrar tilfærslur til hins betra. Kann það valda kvíða og óöryggi um stund sem þegar frá líður kann að kalla fram bros út í annað en það sem við ætluðum að yrði. Því lífið er sífellt að koma okkur á óvart gerir okkur hverft við svo mjög að við förum blaðsíðuvillt könnumst við okkur eða finnum okkur vera komin lengra en við ætluðum okkur að vera. Finnum til ómótstæðilegrar löngunar að dvelja um stund og lesa af síðunni það sem verður. Ef við eigum að draga lærdóm af þvi, sem mér spakari menn segja að við eigum að gera þá eigum við að halda okkur róleg á þeirri síðu sem við erum á hverjum tíma. Okkur er gefið af skaparanum að vera forvitin vegna þessa horfum við yfir sem snöggvast á blaðsíður dagana sem framundan eru og ætlum út frá augnabliks áliti þeirra og þeim væntingum sem þeir vekja hjá okkur að komast að því að við aðeins eitt augnablik litum á þá og sáum ekki fyrir augnablikinu sem skyggði á allt annað það sem það hafði að geyma bak við – augnablikið. Ævintýri andspænis raunveruleikanum.

Við mig var sagt um daginn að „lífið væri eins og eitt augnablik.“ Eitt augnablik er ekki langur tími, mælist vart þeim mæli sem okkur er gefin. Betra að nota tímann vel, sem er ekki ekki langur í huga okkar mannanna. Ég las á síðasta ári hugsanir rithöfunda og skálda, hugsanir sem ekki höfðu haft fyrir því að sækja mig heim vissu kannski ekki um tilvist mína. Ekki frekar að ég viti um tilvist þeirra daga sem safnast saman við fætur mér og á þessum degi þessari stundu eru eins og Esjan slétt og felld í bláma fjarlægðar. Þegar maður nálgast hana greinir maður misfellur og blámi fjarlægðar víkur fyrir gráma, grænum hlíðum og misstórum steinum og gróður jarðar sem hafa fundið sér stað í tilverunni. Una hag sínum hið besta skyldi ætla, eru þögulir en hafa sögu að segja hverjum þeim sem gefur sér tíma setjast niður í kjöltu augnabliksins að hlusta á eins og barn hjá föður eða móður og leyfir huganum að reika frá þangað sem ekki er hægt að setja á hann bönd raunveruleikans. Þannig eru dagar ársins sem framundan eru-sveipaðir móðu bláma en opinberast hver á eftir öðrum hver með sitt einkenni. Hlægjandi, grátandi, hávaðasamir, grámyglulegir, litríkir fylltir fjöri æskunnar sem og þögulir fylltir visku og ristum rúnum augnabliksins sem fer hjá eins feiminn sunnan gola eilífrar æsku. Strýkur vanga og við veltum fyrir okkur hvað hafi orðið af deginum. Kannski er dagurinn eins og við vildum helst að hann væri aðeins ævintýri sem okkur hefur verið talið trú um að væri til í raunveruleikanum.

Leiði til hvers?

„Raunveruleikinn“ sagði einhver „er trunta sem hugsar fátt.“ Hjá því verður ekki komist að við setjum niður fætur á þann raunveruleika sem mætir okkur. Kannski hugsar hann fátt raunveruleikinn. Þar með er ekki sagt að við eigum að gera slíkt hið sama. Raunveruleikinn er sá að samruni hans og nútímans hefur átt sér stað og við látið okkur fátt um finnast. Raunveruleikinn er sá að við erum að ganga inn í tíunda ár þessarar aldar. Samantekin er þessi ártugur, ártugur leiðans. Ef við gefum okkur þá hugsun að raunveruleikinn er trunta og hann og nútíminn hafa slegið saman í group er afkvæmi þess óneitanlega „leiði.“ Það er óneitanlega erfitt og leiðinlegt að segja það, en þegar þetta er skoðað í baksýnisspegli lífsins þá má finna samsvörun þessa í svo mörgu því sem við tókum okkur fyrir hendur síðustu ár. Það kann að vera misminni hjá mér en mig minnir að einn af útrásarþursum þessa lands hafi sagt í tímaritsviðtali fyrir nokkrum árum að hann hafi ákveðið að kaupa þetta og hitt fyrirtækið erlendis vegna þess að honum „leiddist.“ Leiðinn leiddi síðar í ljós að kaupin voru tekin að láni. Það má alls ekki skilja orð mín svo að það sem af hinu slæma að láta sér leiðast eða leiðast yfir höfuð. Þvert á móti að það er hverri manneskju hollt að sýkjast af flensu leiðans svo fremur að það komi ekki heilli þjóð í vanda. Því er ekki á móti mælt að við erum ákaflega upptekinn af því að láta okkur ekki leiðast. Óttumst leiðann eins og hverja aðra svínaflensu og erum tilbúin að taka inn hvað eina sem heldur leiðanum frá okkur sem aftur leiðir ekki til annars en leiða. Framundan eru dagar sem sumir hverjir bera einungis í sér leiða. Þrátt fyrir að allt bendi til að dagurinn verði heiðskýr himinn og fyrir neðan hann muni heyrast hlátrasköll ævintýra er eins og sumir þessa daga misstígi sig herfilega og eru aðeins skugginn af sjálfum sér og gangi um á hækjum leiðans. Þar með er ekki sagt að við eigum að ganga í bandalag með þessum dögum, en það er mín sannfæring að það sé hollt svona stundum. Eins og sumum þykir hollt að að ganga sjálfviljugir út í kalda daga á lendarskýlum einum fata og kannski gúmmíhettu á höfði og synda í enn kaldari sjónum en dagurinn afbrýðissamur getur nokkru sinni boðið upp á þá eigum við að leyfa okkur að baða okkur í leiðindum. Það hressir og bætir þá daga sem á eftir koma brosandi út frá morgni til kvölds.

Band tímans. Ég veit að þið vitið að útgáfa væntinga okkar til nýs árs nær sjaldan samsvörun við þá daga sem að baki eru í lok hvers árs. Ef það væri í raunveru að við gæfum út á fyrsta degi ársins á miðnætti bók væntinga okkar og læsum yfir hana á gamlársdegi. Flettum henni frá blaðsíðu 1 og endum á blaðsíðu 364 er fátt sem ætti sér samsvörun. Hvernig er að hægt að ætlast til þess þegar morgundagur hvers dags segir eitt um daginn og annað að kveldi en það sem sagt var um morguninn. Dagar ársins 2010 vilja eiga samtal við okkur hvert og eitt. Hver og einn þeirra hefur sögu að segja. Hver og einn þeirra á sér drauma sem sumir hverjir ná ekki að fylgja okkur þá leið sem þeir ætluðu eða þangað sem væntingar okkar lágu til. Allir dagar hver stund þeirra hafa sögu að segja sem varir aðeins eitt augnablik. Við skulum leyfa okkur að dveljast í þessu augnabliki setjast á hné þess og hlusta. Því hver dagur er sem ævintýri þrætt upp á band tímans viðkvæmur eins og spörfugl sem flögrar um að því er virðist stefnulaust því við gefum okkur ekki tíma til að sjá hvaðan hann kemur og hvert hann fer í leit sinni - viðurværis á frostköldum vetri eða þýðu sumarsins. Má vera að við látum okkur fátt finnast um það. Má vera að það hafi ekkert að segja um okkar afkomu. Horft yfir dagana sem fylgja árinu á enda virðast þeir óyfirstíganlegir svo ónumdir óendanlegir viðkvæmir. Megi hvert og eitt okkar bera gæfu til að marka spor okkar á breiðu ársins sem liggur fyrir fótum okkar sem ónumin tækifæri ónumdra daga.

Friður Guðs, sem æðri er öllum skilningi, varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú.

Megi góður Guð gefa þér og þínum gleðilegt nýtt ár með þakklæti fyrir gamlar góðar stundir á árinu sem er liðið.