Stórsókn í æskulýðsstarfi

Stórsókn í æskulýðsstarfi

Ég hef verið að velta fyrir mér að undanförnu sýnilegum afleiðingum afkristnunar íslensks samfélags. Þau dæmi sem ég hef séð eru flest þess eðlis að þeirra líkar eru þekkt frá fyrri tíð, meðan kristni var tæki ríkisvaldsins og notuð meðvitað sem óskoraður grundvöllur siðrænnar breytni.

Jesús fór nú um allar borgir og þorp og kenndi í samkundum þeirra. Hann flutti fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi. En er hann sá mannfjöldann, kenndi hann í brjósti um þá, því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa. Þá sagði hann við lærisveina sína: Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir. Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar. Matt 9.35-38

Ég hef verið að velta fyrir mér að undanförnu sýnilegum afleiðingum afkristnunar íslensks samfélags. Þau dæmi sem ég hef séð eru flest þess eðlis að þeirra líkar eru þekkt frá fyrri tíð, meðan kristni var tæki ríkisvaldsins og notuð meðvitað sem óskoraður grundvöllur siðrænnar breytni.

Drykkjuskapur var enn meira böl fyrr á tímum en nú er og þó áfengið hafi verið löglegt vímuefni þá var það iðulega notað af sölumönnum þess í óheiðarlegum tilgangi ekki síður en vímuefnin í dag. Ofbeldi og kynferðisafbrot voru enn verri en þau eru í dag. Þau auðgunarbrot sem mestu vörðuðu voru fæst kærð né upplýst aðeins smáþjófnaðir fátækra manna sem refsað- var óheyrilega.

Okkur er svo tamt að segja að tímarnir versni stöðugt en það er þó ekki einhlýtt að minnsta kosti. Aldrei hefur frelsi verið meira né spilling verið minni en nú á dögum. Aldrei hefur lækning, samhjálp og líkn verið kröftugri í íslensku samfélagi.

* * *

Afkristnun samfélagsins er einnig orðum aukin og fleiri segjast trúa á Guð nú en fyrir aldarfjórðungi og börnum eru kenndar bænir ef dæma má af könnunum. Fólk vill aðskilnað ríkis og kirkju en það treystir Þjóðkirkjunni vel til hennar verka.

Hvað vill þetta segja? Er þá ekki allt í stakasta lagi? Ég held að við eigum að vera þakklát fyrir það þjóðfélag sem við lifum í og sjá í því ávexti heilbrigðrar hugsunar sem við sem horfum af kristnum sjónarhóli þykjumst vita hvaðan eru komnir. En við höfum ástæðu til að óttast að þeir kunni að minnka ef við gáum ekki að undirstöðuatriðunum.

Áhrif kristinnar hugsunar munu vara lengi en sú hætta er fyrir hendi að uppskeran muni dragast saman ef við vanrækjum sáningarstarfið og hlúum ekki nógu vel að því sem er að vaxa.

Ég er að tala um minnkandi áhrif kristinnar kenningar á ungviðið. Stórir hlutar uppvaxandi árganga fara mjög á mis við kristindómsfræðslu og undlingarnir fá nánast ekkert til þess að takast á við í þeim efnum með vaxandi þroska. Það er því uppörvandi einmitt núna að æskulýðsfulltrúinn okkar Hans Guðberg Alfreðsson skuli vera á ferðinni í lífleiknifræðslunni MR með efni um áföll og sorgarviðbrögð. Það er ný opnun sem við gleðjumst yfir en engu að síður eins og vin í eyðimörkinni.

Þjóðkirkjan er að sækja sig í barna og unglingastarfi en það heldur ekki í við minnkandi áherslu á kristinfræði í grunnskólum. Siðfræðikennsla sem var að byggjast upp fyrir aldarfjórðungi í efri bekkjum grunnskólans er alveg fallin niður að kalla og efnið drukknar í samfélagsfræðinni.

Þjóðkirkjan er ekki heldur að standa sig í því að koma á framfæri kristilegu sjónvarps- og fjölmiðlunarefni. Við erum ekki allskostar að hlýðnast skipunum Drottins okkar um að kenna lærisveinunum að halda það sem hann hefur boðið.

Af tölum sem sr. Örn Bárður Jónsson tók saman meðan hann var fræðslustjóri kirkjunnar kom í ljós að það fé sem varið hefur verið til æskulýðsmála er harla lítill hluti útgjalda safnaðanna. Ég hygg að varnaðarorð hans hafi víða hitt í mark og þetta hafi lagast talsvert en stórátak á þessu sviði má í raun ekki bíða.

* * *

Stefnumótun sú er samþykkt var á Kirkjuþingi í haust er góður grundvöllur að slíku átaki en áætlun þar um þarf m.a. að fela í sér skilgreind og möguleg markmið, samhæfð verktök og samstarf við skólana. Hluti af þessu átaki verður einnig að vera ákall til skólans í heild sinni að styðja að sínu leyti með eflingu kristinfræðikennslunnar.

Um það þarf að nást sátt í samfélaginu að skólann megi nota sem vettvang trúaruppeldis enda annað ófært í ljósi þess hversu mikið af tíma barnanna er varið innan veggja og dagskrár skólans. Foreldrar eiga vissulega að geta valið fyrir börn sín í þessum efnum og sumt af efni kristindómskennslunnar er þess eðlis að það á að vera hægt að kenna á hlutlægan hátt og leggja þar með grunn að skilningi á þeim kristna grunni sem svo margt í menningu okkar stendur á og allir þurfa að hafa einhverja nasasjón af til að geta skilið samfélög vesturlanda. Þetta er jafn sjálfsagt og viðeigandi fræðsla um önnur trúarbrögð sem þó geta ekki talist sambærilegir áhrifavaldar í vestrænni menningu en engu að síður mikilvægt að fólk almennt hafi þekkingu og skilning á.

Síðan þarf Þjóðkirkjan og önnur trúfélög að komast inn á stundarskrá barnanna með trúaruppeldis þáttinn eftir óskum foreldra barnanna og í samræmi við jafnfægi skólastarfsins.

* * *

Þessu til viðbótar stundar kirkjan svo sitt æskulýðsstarf á sínum eigin vettvangi. Það verður að standast samanburð um gæði dagskrár við annað í þjóðfélaginu og laga sig að breyttum þjóðfélagsaðstæðum. Mikil áhersla verður að vera á fjölmiðla hvers konar. Bókaútgáfa er okkar fag og þar eru mál betur stödd en annars staðar. Barnaefni fyrir sjónvarp, bæði myndbönd, sjónvarpsþættir og tónlistarefni grípur fólk til eftir aðstæðum sínum og hefur það ómæld áhrif. Á þessu efni er mis kostnaðarsöm útgáfa en þar er án vafa margt sem getur borið sig á markaði.

Svo aftur sé vitnað í sr. Örn Bárð þá eru nú þeir tímar að við verðum að hætta að kalla á steypubíla þegar á að lofa Drottin en einhenda okkur þess í stað í að framleiða efni og dagskrár sem færa Krist inn í hvers manns hjarta.

Þar er kristniboðsakurinn, hjörtu mannanna og í dag erum við í þeirri merkilegu og ábyrgðarfullu stöðu að vera í senn sáðmenn og akur, við sáum í okkar eigin hjartaakur með því efni sem við veljum handa okkur til viðfangs. Þessi ábyrgð var í miklu mæli á höndum yfirvalda áður en nú eigum við þetta frelsi sjálf handa okkur og börnum okkar.

Það er því kallað sterkum rómi til uppalenda, foreldra, afa og amma um að styðja að trúarþroska hinna ungu. Það er ekkert meira virði en fordæmið, bæði í háttum og tali. Við getum gert kirkjusókn að sjálfsögðum háttum með því að fara með unga fólkið til kirkju. Bænalíf verður ekki kennt nema með fordæmi og Guð verður ekki hluti ályktunar um dagleg málefni nema á hann sé minnst.

* * *

Ef við bregðumst í þessu efni núna þá mun fleira blása upp en landið okkar og þeir tímar koma að grundvöllur lífsskoðunar bresti alvarlega og þá um leið siðgæðið. Þá munu þeir tímar koma sem við hefðum ekki viljað sjá og þá munum við líka hætta að vera sú þjóð sem gengur í ljósi þó hún búi stóran hluta árs í landi náttmyrkranna.

Drottinn býður: Farið, skírið og kennið. Sérhver ný kynslóð er kristniboðsakur fyrir kirkjuna okkar og við höfum fyrstu skyldur gagnvart börnum okkar um útbreiðslu fagnaðarerindisins um Jesú Krist sem Guð sendi í heiminn til þess að frelsa okkur frá vondum tilhneigingum hjartna okkar, beina okkur af þeirri leið sem endar í glötun og sjálfstortímingu.

Svo bíða þau mörgu í fjarlægum löndum og eru á þekkingar á blessun Guðsríkisins. Þau eru í viðjum vanþekkingar og geta ekki bjargað sér. Sr. Hjálmar Jónsson sagði eftir ferð sína til Afríku fyrir skemmstu eftir einum af landsfeðrunum í Úganda að það væri umhugsunarvert að Íslendingar sem búa á nöktum kletti í köldu hafi skuli geta kennt Úgandabúum sem byggt hafa frá öndverðu frjósamasta land á jörðu að afla sér fæðu af henni.

Myrkur vanþekkingar og skilningsskortur þjóða er samofinn trúarbrögðum þeirra og þar er um að ræða flókna hluti sem þurfa langan tíma til þess að ná að móta fólk en eru kannski fljótari að mást út en þeir verða uppbyggðir. Við fáum aldrei metið né fullþakkað það að hafa fengið að ganga við ljós Krists frá upphafi vega okkar í þessu landi. Það hefur sannarlega þurft tímann sinn til þess að ná að móta hugsanir okkar og á þarf enn að berast víða. Missum aldrei sjónar á því.

Jakob Ágúst Hjálmarsson er sóknarprestur í Dómkirkjunni í Reykjavík. Þessi prédikun var flutt á Kristniboðsdegi, 9. nóvember 2003.