Metnaður til lífsins

Metnaður til lífsins

Fyrrum var ábyrgð forstjóra og yfirmanna metin af verkum þeirra, en nú kemur ekkert annað til greina en að meta virðinguna til offjár í launaumslögum og bónusum langt umfram það sem mennskir munnar geta torgað. Nær metnaður nútímans ekki lengra en að verða metinn til fjár?

Flutt 5. nóvember 2017 í Heydalakirkja og Stöðvarfjarðarkirkju

Guðspjall: Jóh.4.34-38.

Guðspjallið, sem helgað er þessum sunnudegi, og ég las frá altarinu, beinir sjónum að uppskerunni. Þegar við meðtökum boðskapinn, þá verðum við svo innilega sammála, eins og um almenn sannindi sé að ræða og finnst kannski í fljótu bragði ekki ástæða að hugleiða né ræða meira um það.

Tilefni orða Jesú voru áhyggjur lærisveina hans hvort fólkið, sem kom til að hlusta á Jesú, fengi eitthvað að borða. Hann var á ferðalgi, staddur við vatnsból, sagður vegmóður, hvíldi lúgin bein og horfði á fólkið streyma til sín. Jesús segir þá við lærisveina sína: „Minn matur er að gjöra vilja þess sem sendi mig og fullna verk hans“. Í framhaldi af því vitnar hann til uppskeru verkanna í daglegu lífi, en sagði svo: „Ég sendi yður til að skera upp það sem þér hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað, en þér eruð gengnir inn í erfiði þeirra“.

Á allra heilagra messu, þá minnumst við látinna. Við njótum verka þeirra, uppskerum og búum við meiri þægindi alsnægta en nokkrum manni gat til hugar komið fyrir fáeinum áratugum. Tæknin hefur náð slíkum hæðum í uppskeru sinni, að almennur neytandi veit lítið hvernig það gerist, en virðist engu skipta á meðan allt virkar sæmilega.

Sérfræðingar á öllum sviðum sjá um að allt gangi vel fyrir sig, hvort sem tölvur eða flugvélar eiga í hlut, bifreiðar, rafmagnstækin eða skipin, svo ekki séu nefnd öll sérhæfðu handtökin sem þjóna lífinu. Fermingarbarn sagði einu sinni við mig: „Hvers konar undur er það, að fólk skuli finnast og veljast í öll þessi ólíku störf“. Átti Jesús við þessi nýju störf, ef við setjum orð hans inn í samhengi nútímans?

Einu sinni var talað um þrjár kjarnastofnanir í þjóðlífinu: Fjölskylduna, atvinnu og menningu. Þetta voru burðarstofnanir sem allt byggðist á. Fjölskyldan var álitin heilög, bar ábyrgð á uppeldi barnanna og þar blómgaðist lífið af uppskerunni. Atvinnan væri til að skapa fjölskyldunni framfærslu og líka til að vera vettvangur fyrir skapandi hendur til að byggja upp, þjóna lífinu og láta gott af sér leiða. Í menningunni blómgaðist andans þrá á sviði listrænnar sköpunar og svigrúm til afþreyingar. Þar gegndi kirkjan með trúnni stóru hlutverki eins og saga aldanna vitnar um.
Oftast fyrrum snerust kosningar um fjölskylduna og trausta atvinnu fyrir alla. Stjórnmálaflokkar lögðu fram ítarlegar fjölskyldu- og atvinnustefnur. Nú var tæpast minnst á fjölskylduna, nema í aukasetningum, heldur bar hæst hvernig leysa mætti vandamáin með meiri peningum. Á okkur dynja svo frásganir fjölmiðla af skýrslum stofnanna um sjálfa sig, sem hóta neyð og jafnvel dauða, ef ekki fást meiri fjármunir til rekstrar. Það er líkt og einu sáðkorn nútímans séu peningar. Það ríkir mikl ofurtrú á að fjármunir lagi allt, ef ekki, þá sjá sérfræðingar um restina.

Meira að segja í dýpstu sorg áfalla, þá er okkur talin trú um, að sérhæfð áfallahjálp komi öllu í lag á ný, þó staðreyndin sé nú sú að árangursríkasta áfallahjálpin er samfélag ástvina, þar sem kærleikur ræður för af erfiði í hyldýpi sorgarinnar.

Ef við horfum okkur nær, er þá víst að hamingja fjölskyldunnar standi og falli með fjármunum? Farnast börnum frá tekjuhærri heimilum betur í skólanum en öðrum börnum? Verður hamingja fjölskyldunnar metin útfrá fermetrastærð heimilisins? Tryggir fjárhagsleg afkoma heimilisins að börnin og unglingarnir verði síður fíkniefnum að bráð, sem er einn mesti ógnvaldur í lífi uppvaxandi kynslóðar? Fjölluðu kosningarnar um það?

Fyrrum var ábyrgð forstjóra og yfirmanna metin af verkum þeirra, en núna kemur ekkert annað til greina en að meta virðinguna til offjár í launaumslögum og bónusum langt umfram það sem mennskir munnar geta torgað. Nær metnaður nútímans ekki lengra en að verða metinn til fjár? Það er skammt öfganna í millum. Er öruggt að verðið mæli gæðin?

Einu sinni fann framkvæmdafólk sæld sína í árangri verka sinna, byggðu upp af brennandi hugsjón, sáðu og sáu uppskeruna verða mörgum til farsældar. En var ekki umhugað um persónulegan hag né íburð, heldur naut þess að vera í forystu í samfélagi og verkin blómgast. Það var eftirsóknarvert og mikið á sig lagt án þess að gera kröfu um sérstakan ávinning fyrir sig. Sagan geymir margar minningar um slíkt burðarfólk og njótum enn verka þeirra. Margt og mikið hefur breyst um þetta á skömmum tíma. Nú fer lítið fyrir hugsjónum, en meira fyrir tækifærishyggju og spakaupmennsku.

Hér er ekki verið að gera lítið úr gildi fjármuna fyrir mannlífið og enn síður að fólk sætti sig við minna en því ber fyrir störfin sín. Það eru mannréttindi, að fjölskyldan búi við fjárhagslegt öryggi og þurfi ekki að líða fyrir áhyggjur af að sjá sér farborða af reisn. Nóg er til af fjármunum til að tryggja öllum mannsæmandi lífskjör í landi sem er á meðal þeirra allra ríkustu á jörðinni af gögnum og gæðum. Hvert einasta mannsbarn er dýrmætt og gegnir mikilvægu hlutverki, hver sem störfin eru og hvaða stöðu við gegnum. Öll höfum við sömu þrá og þarfir um að njóta hamingju með ástvinum okkar. En þar þarf meira til en fullar hendur fjár.

Lífið er stutt og jörðina eigum við saman og er Guðs gjöf okkur falin til forsjár. Guð sagði í sköpunarfrásögn Biblíunnar: Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og drottnið yfir lífríkinu. Guð kallaði manninn til að vera samverkamann sinn um að blómga fagurt mannlíf á jörðinni og starfa samkvæmt boði sínu. Þannig er mannsins líf skapað af Guði, og allt, sem á jörðinni vex og blómgast, er fyrir tilverknað hans. Þess vegna sagði Jesús: „Minn matur er að gjöra vilja þess sem sendi mig og fullna verk hans“. Og Jesús vísar til allra hinna hefðbundnu starfa um að yrkja jörðina, sá og uppskera, en gengur skrefinu lengra og segir: Ég sendi yður til að skera upp það sem þér hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað, en þér eru gengnir inn í erfiði þeirra“.
Þetta hljómar eins og ráðgáta. Hvað er það sem lærisveinarnir voru sendir til að gera, sem þeir höfðu ekki gert áður, en aðrir höfðu erfiðað, en lærisveinarnir væru nú gengnir inn í erfiði þeirra?

Hugleiðum það í ljósi sögunnar og í ljósi nútímans? Ekki fyrir svo löngu síðan var prestur í Danmörku sem varð frægur fyrir að stofna stóra ferðaskrifstofu og eitt stærsta flugfélag á Norðurlöndum. Einu sinni bauð hann bæjarstjórninni og mökum í óvissuferð á ónefndan áfangastað sem fáir venja komur sínar á. Bæjarfulltrúarnir urðu afar spenntir og bjuggu sig undir ferðalag með flugi á sólríkan stað með glysi og glaumi, mættu á tilsettum tíma til að fara um borð í rútuna fyrir utan ráðhúsið og reiknuðu með að förinni yrði heitið út á flugvöll. Rútan hélt af stað, ók hring í kringum bæinn og aftur inn í miðbæinn og stöðvaði fyrir utan kirkjuna, þangað sem ferðafólki var boðið inn, þar sem beið messa með presti sínum fyrir altari sem bauð fólkið velkomið á stað sem þeim var í raun framandi þó stæði í næsta nágrenni við ráðhúsið. Þarna var bæjarstjórnin mætt í óvissuferð til að eiga stefnumót með Guði og samferðafólki í sporum erfiðis genginna kynslóða.

Hvernig auðgum við fagurt mannlíf? Er gróðavonin einasti aflvakinn til verka í nútímanum? Jörðin stynur undan ágangi græðginnar, auður jarðar safnast stöðugt á æ færri hendur og meira en helmingur jarðarbúa býr við óbærileg kjör. Það yrði sannarlega nýtt, ef metnaður nútímans setti sér það til erfiðis að breyta því til farsældar. Það er á mannsins valdi með öllu viti sínu og dugnaði, tækni og tólum. Hvenær gerist það að menn þroskist til að skapa frið á jörð?

Við stöndum í sporum erfiðis genginna kynslóða. Það eru ekki svo langt síðan sá þótti ríkur á Íslandi sem átti snærisspotta. Við eigum gengnum kynslóðum mikið að þakka um leið og við njótum verka þeirra og tökum á móti framtíðinni af auðmýkt lifandi vonar. Hver dagur er nýr með öllum sínum tækifærum og áskorunum. Þá er gott að þakka, rækta ábyrgð sína, játast hvert öðru í samfélagi, setja sig í spor hvers annars, þar sem við erum saman og hvert öðru styrkur og skjól. Það er eins og hús sem byggja verður á hverjum degi og byggingarefnið er aðeins eitt og heitir kærleikur og verður aldrei metinn til fjár. Það er áskorun lífsins að setja hann í öndvegi, elska Guð og náungann eins og sjálfan sig.

Það getur útheimt mikið erfiði og kallað á að fara nýjar leiðir. Þá gætum við jafn vel uppskorið þar sem við höfðum ekki gert áður. Þannig kallar trúin til endurmats og opnar augu á lífið sem kennt er við eilífðina. Það opinberast í dauða og upprisu Jesú Krists, þar sem erfiðið í þjáningu dauðans snerist upp í sigur lífsins og krossinn varð að sigurmerki ástarinnar og aflvaka sem breytti meiru en fjármálaveldi heimsins hafa gert, eins og fólkið finnur af eigin raun, þegar alvara lífsins blasir við. Þá reynir á kærleika sem ekki spyr um endurgjald, en áræðir að elska í orði og verki. Amen.