Upprisustef í nútímanum

Upprisustef í nútímanum

Sumir afgreiða páskaboðskapinn sem hættulegt fyrirbrigði, hann blindi ómótaðar sálir, áhrif hans séu mjög óæskileg því allir skynsemisþankar hverfi út í veður og vind. Þetta eru sömuleiðis raddir, sem telja að trú og vísindi eigi litla sem enga samleið.

Gleðilega páskahátíð! Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn! Um sólarupprás komu konurnar að gröfinni, það voru vinkonur Jesú. Gröfin var tóm. Þær ætluðu að smyrja lík hans, ilmsmyrsl voru notuð til þess að varðveita líkami hinna dauðu frá rotnun. Þær höfðu áhyggjur af því að þær gætu ekki velt steininum frá gröfinni, enda var hann stór. Gröfin var hins vegar opin þegar þær höfðu náð áfangastað, það var klettagröf skammt frá Golgata í eigu Jósefs nokkurs frá Arímaþeu, sem fékk leyfi hjá landstjóranum Pontíusi Pílatusi til þess að taka lík Jesú niður af krossinum. Vinkonurnar voru mættar daprar í bragði eftir viðburði föstudagsins langa. Depurðin sú átti hins vegar eftir að snúast upp í mikin páskafögnuð. Þær hittu fyrir ungan mann í hvítri skikkju, það var engill, er flutti þeim tíðindin stóru og bað þær að flytja þau áfram, þau hin sömu og hljóma enn í dag frá þessum prédikunarstól. Kristur er upprisinn! Þær fóru og sögðu lærisveinum og Pétri, Pétur er sérstaklega tilgreindur, leiðtoginn, kletturinn. Hann var þó búinn að gera ófá mistökin blessaður og keyrði um þverbak þegar hann afneitaði meistara sínum þrisvar áður en hani gól tvisvar. Hann vildi víst ekkert við Jesú kannast þegar á hólminn var komið. En þrátt fyrir þau vandræði öll var honum áfram treyst til að leiða lærisveinasamfélagið í Jesú nafni. Ætli það hafi ekki verið vegna þess að hann grét eftir afneitunina sársaukafullu, hann vissi innst inni að hann hafði villst af vegi, öðruvísi verður líka torvelt að halda áfram, sem er jú segin saga? Þessi stóri viðburður, páskaviðburðurinn fær að hljóma á hverju ári í hinum kristna heimi, um víða veröld. Árlega eru þessar fornu fréttir frá Jerúsalem sagðar í tíðindasamfélagi nútímans. Ég velti því oft fyrir mér hvernig fólk tekur við þeim í dag og vinnur úr þeim. Eru þær orðnar fjarlægar okkur, hafa þær úrelst þrátt fyrir að hafa breytt heimsmyndinni með vægast sagt róttækum hætti, þegir fólk þunnu hljóði eftir að hafa heyrt fréttirnar í páskaguðsþjónustum kirkjunnar eða segir það öðrum frá, er það að spjalla um boðskapinn meðan það rennir niður páskasteikinni, meðtekur það upprisufrásögnina af skyldurækni eða hreinum þorsta, hreinni löngun, eða bara alls ekki? Best er að halda því til haga að skilaboðin voru skýr til kvennana forðum hvernig þær áttu að fara með það sem þær höfðu séð og heyrt. Þær fengu við gröfina ráð frá góðum Guði hvernig þær skyldu vinna úr reynslu sinni. Þær áttu sem sagt ekki að bera hana einar, heldur fara strax og deila henni með öðrum. Ég lít svo á að það sé ráð, sem eigi enn við í dag bæði hvað varðar upprisutíðindi, sem og líka það er snýr almennt að lífi og heilsu manneskjunnar. Það er reyndin að upprisuboðskapurinn virkjast og verður merkingarbær í lífi okkar sé um hann rætt og fræðst og hann borinn áfram, þess vegna er lögð svona mikil áhersla á samfélag trúarinnar, samfélag heilagra, kirkjuna. Hinn upplýsti nútími hefur ósjaldan bent á mikilvægi þess að leita raka, rökræða málin og vara sig verulega á öllu því sem dregur úr skynsemishugsun. Ef það er eitthvað sem fær þig til að hugsa um lífið og tilveruna og þau huglægu gæði sem hún felur í sér, þá er það einmitt inntak páska. Þar er um að ræða sérlega ögrandi umhugsunarefni á tækniöld, það er bara að nenna og gefa sér tíma til að hugsa og fjalla um það. Sumir afgreiða páskaboðskapinn sem hættulegt fyrirbrigði, hann blindi ómótaðar sálir, áhrif hans séu mjög óæskileg því allir skynsemisþankar hverfi út í veður og vind. Þetta eru sömuleiðis raddir, sem telja að trú og vísindi eigi litla sem enga samleið. Slíkar skoðanir eru þó sterkur vitnisburður þess að páskaboðskapurinn snertir við og hefur gríðarleg áhrif í nútímanum, vekur upp miklu dýpri hugsanir en okkur grunar hjá ungum sem öldnum, hjá öllum. En hver sé hættan sem stafi af honum þekki ég ekki, væntanlega að einhverju leyti sú að honum er stillt upp gegn húmanískum viðhorfum, þeim er setja manneskjuna og mannshugann í öndvegi. Það er vont að stilla upp gegn einhverju rétt eins og það er vont að búa til óvini, enginn á að komast upp með það, manneskjur þurfa að vinna saman að því sem er gott og mannbætandi.Mér hugnast vel húmanísk viðhorf, lífsskoðunarfélagið Siðmennt hefur að viðfangsefni þau viðhorf og lífsgildi sem eru persónulega mikilvæg og náin hverjum einstaklingi í leit að tilgangi og hamingju í lífinu og er það vel. Það er sammannlegt að leita hamingjunnar og verulega mikilvægt markmið. Það var augljóslega markmið Jesú Krists, að því leytinu til var hann öflugur húmanisti enda tók hann sér stöðu með manneskjunni, leiddi hana þannig áfram í þekkingar-og hamingjuleit. Hins vegar var sú hamingja sem Jesús leiddi til sú er fær þig til að horfa lengra en á lokaða gröf, sem hjálpar þér að lifa í þeirri trú að tilgangi þínum ljúki ekki hér á jörðinni, heldur eigi hann sér frekari víddir, það er stór frétt, mikil gleðifrétt. Þegar þú gengur að gröf ástvinar heyrir þú vonandi bæði orðin um að hinn látni hafi verið góð og gegn manneskja, en líka þessi að sá sem trúir lifi þótt hann deyji. Þá ferðu ekki bara leiður eða leið frá gröfinni, heldur þiggur jafnframt gleði vonar að gjöf. „Nú yfir lífs og liðnum mér skal ljóma sæl og eilíf von. Þú vekur mig, þess vís ég er, fyrst vaktir upp af gröf þinn son.“ Jesús bragðbætir líf okkar, hann gefur meira bragð með lífi sínu, dauða og upprisu, hann er og verður salt jarðar. Lífið verður öllu bragðmeira tökum við páskahugsunina inn í það, viðhöldum henni allt árið, ekki bara á páskahátíð. Þannig horfum við ekki einvörðungu niður til moldar heldur einnig upp til himins. „Ég lifi og þér munuð lifa“ sagði Kristur. Páskaviðburðurinn endurtekur sig í svo mörgu. Lífið er stöðugt að minna þig á inntak páska. Þú getur spurt þig: „Hvað eru páskar í lífi mínu?“ Ég upplifi páskaboðskapinn mjög sterkt eftir að ég snéri aftur í heimahaga mína. Árstíðir og þær breytingar er verða á náttúrunni minna mig ávallt á upprisustefið. Mér finnst ég verða meira var við árstíðabreytingar í sveitinni, get ekki neitað því. Mér finnst sú árstíð er nú fer í hönd dásamleg, vorið er tími eftirvæntingar. Meira að segja gargið í vorgæsinni verður sjarmerandi, þar sýnir sig þessi máttur, sem væntingar fela í sér. Fermingarbörn ganga prúðbúin til kirkju og játast Kristi, það eru páskar í mínum huga, það að vilja fylgja Kristi í eilífðarátt, sannkallað upprisustef. Og talandi um fermingarbörnin, þá fengu þau í vetur að sjá nokkrar ólíkar Jesúkvikmyndir á fermingarnámskeiði. Flestar fylgdu þessar kvikmyndir sögu guðspjallanna og klassískum vangaveltum um upprisuna. Hins vegar var ein kvikmyndanna fremur óhefðbundin hvað það snerti, en engu að síður gild og hefur vakið verðskuldaða athygli. Upprisunni er gerð þar ágæt skil. Myndin heitir Jesús frá Montreal og fjallar um leikhóp er setur upp píslarsöguna og lifir sig mjög svo inn í hana að sagan verður eins og raunveruleiki í lífi leikenda. Aðalsöguhetjan lætur krossfesta sig og telst svo heiladauð eftir að hún hefur verið tekin niður af krossinum og færð á sjúkrahús. Á sjúkrahúsinu er sú ákvörðun tekin að gefa líffæri úr fyrrnefndri söguhetju og það rakið þegar líffæri eins og hjarta og augu veita öðru fólki frekara líf og lífsgæði. Þannig birtist upprisan í Jesús frá Montreal. Við getum hugsað út frá þessu að upprisa Jesú Krists getur komið á þann hátt fram hjá okkur, hjarta hans og augu skulu verða hjarta okkar og augu, með þeim hætti lifir Jesús Kristur áfram í veröldinni. Páskar geta því birst í margvíslegum myndum, það er mikilvægt að við komum auga á þær og lifum þær þannig að þessar fornu fréttir um gröfina tómu í Jerúsalem fái hjörtu mannfólksins til að slá áfram um aldur og ævi. „En farið og segið lærisveinum hans og Pétri.“ Konurnar tóku við þessum skilaboðum á hinum fyrsta páskadagsmorgni. Það er gott að taka á móti skilaboðum sem þessum, sem eru virk enn í dag 2000 árum síðar, þau hvetja okkur til vangaveltna um páska í eigin lífi, þau minna okkur ætíð á það hversu mikilvægt það er að við miðlum þeim páskum til annarra, séum á þann hátt bænheyrsla í lífi náungans. Guð gefi okkur náð sína til þess og Guði sé dýrð um aldir alda. Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn! Amen.