600 lítrar av lífsgleði

600 lítrar av lífsgleði

Þessi saga gengur að mörgu leyti ekki upp í okkar kristna samfélagi þar sem boðskapur Krists verður oft að einhverjum almennum og góðum siðaboðskap. Þegar Jesús reddar veislunni sprengir hann hugmyndir margra um siðferði og reglur. Þetta gerir hann til þess að gefa gleðinni rými. Sjálfri lífsgleiðinni.

Reykir þú? Drekkur þú? Hefur þú einhverntíma talað illa um náunga þinn? Finnurðu stundum til afbrýðisemi þegar öðrum gengur vel? Borðaðirðu of mikið af óhollustu um jólin?

Úff, þetta eru ferlegar spurningar og nokkrum þeirra get ég akki annað en svarað játandi. Ég veit ekki með þig. En ætli svör þín við þessum spurningum segi eitthvað um þig sem manneskju, svona í alvörunni?

Nú rétt eftir hátíðarnar þegar hversdagsleikann er að ná tökum á tilverunni á ný eftir matarveislur jóla og áramóta, konfekt, kökur, reykt og saltað kjöt, baunir og rauðkál, einmitt þegar líkamsræktarstöðvarnar eru að fyllast eftir jólaátið, komum við í kirkju og fáum að heyra þetta undarlega guðspjall. Við fáum að heyra um það að Jesús hafi breytt um það bil 600 lítrum af vatni í fínasta rauðvín. Við erum ekki að tala um neitt ódýrt kassavín heldur vín af fínustu sort. Hér er ekkert verið að prédika hófsemi og aðhald í mat og drykk líkamsrækt og góða siði. Nei, Jesús gerir kraftaverk til þess að fólkið í giftingarveislunni (sem þegar hafði fengið töluvert að drekka) geti haldið áfram að hella í sig.

Jesús, vinir hans og móðir eru saman í veislu. Vínið klárast. Móðir Jesú hefur áhyggjur, því að hún veit að það er bagalegt fyrir gestgjafa að lenda í því að veitingarnar klárist – eitthvað sem er aðvelt að skilja. Hún talar þá við son sinn og biður hann að bjarga málunum. Hún veit að hann er fær um ýmislegt og hún treystir honum fyrir þessu vandamáli.

Jesús er tregur til að byrja með og hreytir í móður sína að hann sé ekki tilbúinn og að hún eigi ekki að vera að angra hann.

Mamma hans tekur ekkert mark á því og fer beint til þjónanna og segir: ”Allt sem hann segir ykkur, það skuluð þið gera”. Hún þekkir son sinn og veit að hann mun ekki bregðast fólki sem vill standa sig í veisluhöldum. Það var líka, og er, afar mikilvægt að hjónavígslur heppnist vel. Og hvaða gestgjafi vill virðast nánasarlegur í augum gesta sinna?

Og Jesús, sá góði og hlýðni sonur sem hann er, gerir náttúrulega það sem mamma vill og breytir vatninu í vín. Hann breytir 600 lítrum að minnsta kosti í vín.

Hér er eitthvað ekki eins og það á að vera og það er svolítið sérstakt að þessi saga skuli vera í Biblíunni. Hún á ekki að fjalla um svona lúxusvandamál. Þegar Guð gerðist manneskja í Jesú Kristi þá gekk hann um jörðina og læknaði. Hann stóð með fátækum og sjúkum. Hann gaf fólki ást og hlýju. Hann sýndi okkur hver Guð var. Svo breytir hann vatni í fínt vín til að bjarga einni veislu.

Þessi saga gengur að mörgu leyti ekki upp í okkar kristna samfélagi þar sem boðskapur Krists verður oft að einhverjum almennum og góðum siðaboðskap.

Þegar Jesús reddar veislunni sprengir hann hugmyndir margra um siðferði og reglur.

Þetta gerir hann til þess að gefa gleðinni rými. Sjálfri lífsgleiðinni.

Það er eitthvað sem er ekki eins og það á að vera! Þessi setning er eins og rauður þráður í gegnum allt Jóhannesarguðspjall. Eiginlega passaði Jesús aldrei inn. Hann var óvenjulegur og hegðaði sér oft á allt annan hátt en fólk gerði ráð fyrir. Hann braut stöðugt reglur samfélagsins og umgekkst fólk sem hann átti ekki að umgangast, talaði við konur, sjúkt fólk og fátækt. Hann vann á hvíldardegi og svo mætti lengi telja. Jafnvel endalokin á lífi hans hér á jörð voru ekki eins og þau áttu að vera. Hann sem var Guð, konungurinn og hetjan, var drepinn á krossi eins og hver annar glæpamaður.

Það er sannarlega eitthvað sem er ekki eins og það á að vera!

Og til að toppa þetta allt, reis hann upp frá dauðum þegar hann átti að liggja í grafhýsinu og bíða smurningar kvennanna sem elskuðu hann.

En það er einmitt þetta sem allt snýst um. Guð er ekki eins og við höldum! Guð sýnir okkur nefnilega að til er annarskonar vald en við erum vön. Þetta vald er kærleikur.

Kannski er það svo að Guð sem er kærleikur og ekki eins og við höldum hafi eftir allt saman hafið feril sinn hér á jörðu með því að gefa gleiðinni rými, með því að láta vínið flæða án þess að vera með siðaboðskap í kringum það?

Það er alltaf hætta á að Kristin trú sé túlkuð sem, eða álitin vera fallegur siðaboðskapur og reglur um það hvernig þú átt að haga þér til þess að teljast góð trúuð manneskja, að hún verði nokkurskonar leiðbeining eða regluverk um það hvernig þú átt að lifa lífi þínu.

Að sama skapi telja mörg okkar að það sé hægt að sjá það utan á fólki hvort það sé sannkristið eða ekki, að það sjáist á hegðun og framkomu fólks að það sé trúað því það er einhvernvegin siðferðilega betra en annað fólk.

En þetta gengur ekki upp. Kristin trú snýst ekki um það að líta út fyrir að vera heilög, að hegða sér fullkomlega með því að vera alltaf elskuleg við náungann, drekka ekki vín, reykja ekki, borða ekki of mikið, blóta ekki. Kristin trú snýst ekki um þetta nema að litlu leyti. Auðvitað er mikilvægt að drekka ekki of mikið og enn betra að smakka ekki áfengi. Við vitum öll að reykingar eru vondar fyrir okkur og að við eigum alltaf að reyna að vera elskuleg við náungann og ekki að tala illa um fólk. Það þýðir samt ekki að við séum verri manneskjur þegar okkur mistekst eða vegna þess að við föllum fyrir löstum.

Reglur eru mikilvægar og hófsemi er góð. Það er gott að fara reglulega í kirkju og huga að sálinni. Það er gott að fara út úr húsi til að upplifa náttúruna og almættið og líkamrækt getur verið góð. En þetta er allt fyrst og fremst mikilvægt fyrir okkur, manneskjurnar. Svör okkar við spurningunum ferlegu sem ég setti fram hér í upphafi skipta fyrst og fremst máli fyrir okkur sjálf og fólkið okkar. Það segja nefnilega ósköp lítið um okkur sem manneskjur að einhver okkar reyki, drekki eða verði afbrýðisöm. Ég held að Guð sé ekki að hengja sig í þessa hluti.

Hin sanna trú er svo miklu dýpri en hegðun okkar og atferli gefur til kynna. Hin sanna trú snýst um að við opnum okkur fyrir framtíðinni, að við veðrum opin fyrir öllu því góða og fallega sem lífið hefur upp á að bjóða. Trúin snýst miklu frekar um að taka lífið og hvert annað svo alvarlega að þar sé ekki síður rými fyrir gleði og skemmtun en alvöru, samstöðu og baráttu fyrir mikilvægi hverrar manneskju. Að þar sé rýmifyrir 600 lítra af lífsgleði, minnst.

Það hvort þessi saga hafi raunverulega gerst, hvort Guð hafi gert þetta kraftaverk í alvörunni er eitthvað sem ég tek ekki afstöðu til. Ég trúi því að kraftaverk geti gerst og séu alltaf að gerast í kringum okkur en mér finnst það ekki skipta máli hvort Jesús breytti vatni í vín eða hvort sagan hafi breyst í gegnum tíðina eða sé helgisaga, sögð til þess að sýna að Jesús væri ekki venjulegur maður. Það sem mér finnst skipta máli er boðskapur sögunnar. Að Guði er ekki sama um neitt er þér viðkemur, að engin af þínum vandamálum eru of smá til þess að Guð sýni þeim áhuga. Kannski vill Guð að þú sjáir lífið þitt sem veislu og er reiðubúin/n að leggja til 600 lítra af lífsgleði ef þú vilt þiggja hana. Amen.