Hugleiðingar

Daglegar hugleiðingar í  bænaviku

FYRSTI DAGUR

Mánudagur 18. janúar

Kölluð af Guði

Jesús segir: „Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður“
Jóh 15:16a

Lestrar
• 1. Mósebók 12:1-4       Köllun Abrahams
• Jóhannes 1:35-51       Köllun fyrstu lærisveinanna

Hugleiðing
Upphaf ferðarinnar er fundur milli manns og Guðs, milli hins skapaða og skaparans, milli tíma og eilífðar.
 Abraham heyrði kallið: „Far þú til landsins, sem ég mun vísa þér á.“ Eins og Abraham erum við kölluð að yfirgefa það sem við þekkjum og fara á staðinn sem Guð hefur undirbúið innst í hjarta okkar. Á leiðinni verðum við sífellt meira við sjálf, fólkið sem Guð hefur viljað að við værum frá upphafi. Og með því að fylgja kallinu sem beint er til okkar verðum við að blessun fyrir ástvini okkar, nágranna okkar og heiminn.
    Kærleikur Guðs leitar okkar. Guð gerðist maður í Jesú. Í Jesú mætum við augliti Guðs. Í lífi okkar, eins og í Jóhannesarguðspjalli, heyrist kall Guðs á mismunandi vegu. Snert af kærleika Guðs leggjum við af stað. Við þessi kynni hefst leið umbreytinga – tært upphaf kærleikssambands sem sífellt hefst að nýju.
    "Einn daginn skildir þú, að án þess að þér væri kunnugt um það hafði verið ritað „já“ í innstu dýpt þína. Og þess vegna valdir þú að feta áfram í fótspor Krists…
    Í þögninni í návist Krists heyrðir þú hann segja: „Kom, fylgdu mér; Ég mun gefa þér stað til að hvíla hjarta þitt.“ 1

Bæn
Jesús Kristur,
þú leitar okkar, þú vilt bjóða okkur vináttu þína
og leiða okkur til sífellt heillra og fyllra lífs.
Veittu okkur öryggi til að svara kalli þínu
svo að við getum umbreyst
og orðið vitni umhyggju þinnar fyrir heiminum.

1 Bróðir Roger: The Sources of Taizé (2000). Chicago: GIA Publications, bls. 52.

ANNAR DAGUR

Þriðjudagur 19. janúar

Að þroskast hið innra

Jesús segir: „Verið í mér, þá verð ég í yður“
Jóh 15:4a

Lestrar
• Efesusbréfið 3:14-21    Megi Kristur búa í hjörtum okkar
• Lúkas 2:41-52               María geymdi allt þetta í hjarta sér

Hugleiðing
Að mæta Jesú vekur löngun til að vera hjá honum og dvelja í honum: gefa ávexti trúarinnar tíma til að þroskast.
Jesús var að fullu mannlegur og óx og þroskaðist eins og við. Hann lifði einföldu lífi, rótfastur í trú Gyðinga. Í þessu hulda lífi í Nasaret, þar sem ekkert óvenjulegt virðist hafa gerst, nærði návist föðurins hann.
María hugleiddi verk Guðs í lífi sínu og sonar síns. Hún geymdi það allt í hjarta sér. Þannig tók hún smátt og smátt á móti leyndardómi Jesú.
Einnig við þurfum langan þroskatíma, heila ævi, til að uppgötva djúpan kærleika Krists, leyfa honum að dvelja í okkur og okkur í honum. Án þess að við vitum hvernig það gerist lætur andinn Krist búa í hjörtum okkar. Og það er með bæn, með því að hlusta á orðið, með því að deila því með öðrum, með því að framkvæma það sem við höfum skilið, að innri vera okkar styrkist.
    Við látum Krist stíga niður í djúp verundar okkar ... Hann mun gagntaka svæði hugans og hjartans, hann mun hafa áhrif á líkama okkar allt til okkar innstu veru, svo að einnig     við munum að lokum fá að reyna djúp miskunnarinnar.2

Bæn
Heilagur andi,
Við biðjum þess að við mættum taka á móti nærveru Krists í hjörtum okkar,
og hlú að henni sem leyndarmáli kærleikans.
Nærðu bæn okkar,
upplýstu ritningarlestur okkar,
starfa í gegnum okkur,
svo að ávöxtur gjafa þinna geti vaxið í okkur af þolinmæði.

2 Sources of Taizé, bls. 134.

ÞRIÐJI DAGUR

Miðvikudagur 20. janúar

Að mynda einn líkama
Jesús segir: „Elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður“
Jóh 15:12b

Lestrar
• Kólossubréfið 3:12-17              Íklæðist hjartagróinni meðaumkun
• Jóhannes 13:1-15; 34-35       Elskið hvert annað

Hugleiðing
Kvöldið fyrir dauða sinn kraup Jesús á kné til að þvo fætur lærisveina sinna. Hann þekkti erfiðleikana við að búa saman og mikilvægi fyrirgefningar og gagnkvæmrar þjónustu. „Ef ég þvæ þér ekki,“ sagði hann við Pétur, „áttu enga samleið með mér.“
Pétur tók á móti Jesú sem kraup við fætur hans; hann þáði þvott og var snortinn af auðmýkt og mildi Krists. Síðar átti hann eftir að fylgja fordæmi Jesú og þjóna samfélagi hinna trúuðu í fyrstu kirkjunni.
Jesús óskar þess að líf og kærleikur breiðist út gegnum okkur eins og safinn í gegnum vínviðinn, svo að kristin samfélög séu einn líkami. En nú á tímum eins og áður er ekki auðvelt að lifa saman í einingu. Við stöndum oft frammi fyrir okkar eigin takmörkunum. Stundum tekst okkur ekki að elska þau sem standa okkur næst í samfélaginu, söfnuðinum eða fjölskyldunni. Og tímar koma þegar sambönd okkar slitna alveg.
Í Kristi er okkur boðið að vera sveipuð samúð, íklædd góðvild, og byrja sífellt aftur. Viðurkenningin á því að Guði elskar okkur, hvetur okkur til að taka hvert við öðru með styrk okkar og veikleika. Það er þá sem Kristur er meðal okkar.
    Næstum allslaus, ertu skapari sáttar í því kærleiksfélagi sem er líkami Krists, kirkja hans? Gleðjist, styrkt af sameiginlegum framgangi! Þið eruð ekki lengur ein, á öllum     sviðum haldið þið áfram ásamt systkinum í trúnni. Með þeim eruð þið kölluð til að lifa dæmisöguna um samfélagið.3

Bæn
Guð faðir, í Kristi opinberar þú okkur kærleika þinn
og í bræðrum okkar og systrum.
Opna hjörtu okkar svo við getum tekið vel á móti hvert öðru
þrátt fyrir ágreining og getum lifað í fyrirgefningu.
Veittu okkur að lifa sameinuð í einum líkama,
svo að gjöfin sem sérhver manneskja er komi í ljós.
Mættum við öll vera spegilmynd hins lifandi Krists.

3 Sources of Taizé, bls. 48-49.

FJÓRÐI DAGUR

Fimmtudagur 21. janúar

Að biðja saman
Jesús segir: „Ég kalla yður ekki framar þjóna ... en ég kalla yður vini“
Jóh 15:15

Lestrar
• Rómverjabréfið 8:26-27        Andinn hjálpar okkur í veikleika okkar
• Lúkas 11:1-4                      Drottinn, kenndu okkur að biðja

Hugleiðing
Guð þyrstir í samband við okkur. Hann leitar okkar eins og þegar hann leitaði að Adam og kallaði til hans í garðinum: „Hvar ertu?“ (1. Mós 3: 9).
Í Kristi kom Guð til móts við okkur. Jesús lifði í bæn, innilega tengdur föður sínum, meðan hann stofnaði til vináttu við lærisveina sína og öll þau sem hann kynntist. Hann kynnti þeim það sem var honum dýrmætast: kærleiksríkt samband sitt við föður sinn, sem er faðir okkar. Jesús og lærisveinarnir sungu sálma saman og áttu rætur í ríkri hefð gyðinga. Stundum dró Jesús sig í hlé til að biðja einn.
Bæn er hægt að biðja út af fyrir sig eða með öðrum. Hún getur birst í aðdáun, kvörtun, fyrirbæn, þakkargjörð eða einfaldri þögn. Stundum er löngunin til að biðja fyrir hendi en maður hefur á tilfinningunni að geta ekki gert það. Að snúa sér að Jesú og segja við hann, „kenndu mér“, getur rutt brautina. Löngun okkar sjálf er þegar bæn.
Að koma saman í hóp veitir okkur stuðning. Með sálmum, orðum og þögn skapast samfélag. Ef við biðjum með kristnu fólki með aðra trúarhefð, kunnum við að undrast yfir því að vera sameinuð vináttuböndum sem koma frá honum, sem er handan allrar sundrungar. Formin geta verið mismunandi, en það er sami andinn sem leiðir okkur saman.
    Í hinni almennu sameiginlegu bæn okkar vex kærleikur Jesú innra með okkur, við vitum ekki hvernig. Almenn bæn leysir okkur ekki frá persónulegri bæn. Þær styðja hvor     aðra. Gefum okkur tíma á hverjum degi til að endurnýja persónulega nánd okkar við Jesúm Krist.4

Bæn
Drottinn Jesús, allt líf þitt var bæn,
fullkomin sátt við Föðurinn.
Kenndu okkur fyrir Anda þinn að biðja samkvæmt þínum kærleiksvilja.
Megi trúað fólk um allan heim sameinast í fyrirbæn og lofgjörð,
og megi kærleiksríki þitt koma.

4 Bróðir Roger, The Rule of Taizé in French and English (2012). London: SPCK Publishing, bls. 19 og 21.

FIMMTI DAGUR

Föstudagur 22. janúar

Að láta umbreytast með orðinu
Jesús segir: „Þér eruð þegar hrein vegna orðsins sem ég hef talað til yðar“
Jóh 15:3

Lestrar
• 5. Mósebók 30:11-20       Orð Guðs er mjög nærri þér
• Matteus 5:1-12                 Sæl eruð þið

Hugleiðing
Orð Guðs er okkur mjög nærri. Það er blessun og fyrirheit um hamingju. Ef við opnum hjörtu okkar talar Guð til okkar og umbreytir þolinmóður því sem er að deyja í okkur. Hann fjarlægir það sem kemur í veg fyrir vöxt hins raunverulega lífs, rétt eins og vínræktandinn klippir vínviðinn.
Að hugleiða reglulega Biblíutexta, ein eða í hópi, breytir viðhorfum okkar. Margt kristnið fólk biður sæluboðin á hverjum degi. Sæluboðin birta okkur hamingju sem er falin í því sem er óuppfyllt, hamingju sem er þjáningum æðri: Blessuð eru þau sem andinn snertir svo að þau geta ekki lengur haldið aftur af tárunum en leyfa þeim að streyma og fá þannig huggun. Þegar þau uppgötva brunninn, sem falinn er hið innra með þeim, eykst hungur þeirra eftir réttlæti og þorsti til að eiga samskipti við aðra í heimi friðarins.
Við erum stöðugt kölluð til að endurnýja skuldbindingu okkar við lífið, með hugsunum okkar og gjörðum. Stundum skynjum við þegar, hér og nú, blessunina sem mun rætast í lok tímans.
    Biðjið og vinnið svo að Guð megi ríkja.
    Látið Orð Guðs blása lífi í vinnu og hvíld
    allan liðlangan daginn.
    Varðveitið innri þögn í öllum hlutum til að dvelja í Kristi.
    Verið fyllt anda sæluboðanna,
    gleði, einfaldleika, miskunn.5

Bæn
Blessaður sért þú, Guð faðir,
fyrir gjöf Orðs þíns í Heilagri ritningu.
Blessaður sért þú fyrir umbreytandi kraft þess.
Hjálpaðu okkur til að velja lífið og leiðbeindu okkur með anda þínum,
svo að við getum skynjað hamingjuna sem þú þráir að deila með okkur.

5 Þessa bæn biðja systurnar í Grandchamp samfélaginu daglega.

SJÖTTI DAGUR

Laugardagur 23. janúar

Að taka fagnandi á móti öðrum
Jesús segir: „Farið og berið ávöxt, ávöxt sem varir“
Jóh 15:16b

Lestrar
• 1. Mósebók 18:1-5      Abraham hýsir engla í Mamrelundi
• Markús 6:30-44         Samúð Jesú með mannfjöldanum

Hugleiðing
Þegar við látum umbreytast af Kristi vex ást hans í okkur og ber ávöxt. Að fagna þeim sem eru ólík okkur er áþreifanleg leið til að deila kærleikanum sem er innra með okkur. Alla sína ævi tók Jesús vel á móti þeim sem hann hitti. Hann hlustaði á þau og lét snertast af þeim án þess að óttast þjáningar þeirra.
Í frásögn guðspjallsins um blessun brauðanna fyllist Jesús samúð eftir að hafa séð hungraðan mannfjöldann. Hann veit að það verður að næra alla manneskjuna og að hann einn getur sannarlega fullnægt hungri í brauð og lífsþorsta. En hann vill ekki gera þetta án lærisveinanna, án þess litla sem þeir geta gefið honum: fimm brauð og tvo fiska.
Enn þann dag í dag hvetur hann okkur til að vera samverkafólk í skilyrðislausri umönnun hans. Stundum nægir eitthvað eins lítið og vinsamlegt tillit, athygli eða nærvera okkar til að þeim sem verða á vegi okkar finnist þau vera velkomin. Þegar við bjóðum Jesú að helga honum takmarkaða hæfileika okkar kemur á óvart hvernig hann notar þá.
Við skiljum síðan hvað Abraham gerði, því það er með því að gefa það sem við fáum þegar við tökum á móti öðrum, sem við hljótum blessun í ríkum mæli.
    Í gestinum tökum við á móti Kristi sjálfum.6
    Munu þau sem við bjóðum velkomin inn í líf okkar frá degi til dags finna í okkur fólk sem geislar af Kristi, sem er friður okkar? 7

Bæn
Jesús Kristur,
við viljum taka vel á móti þeim bræðrum og systrum sem eru hjá okkur.
Þú veist hversu oft við erum úrræðalaus gagnvart þjáningu þeirra,
en samt ert þú alltaf kominn á undan okkur
og þú hefur þegar tekið við þeim af samúð þinni.
Talaðu við þau með orðum okkar, styrk þau með verkum okkar,
og lát blessun þína hvíla yfir okkur öllum.

6 Rule of Taizé, bls. 103.
7 Sources of Taizé, bls. 60.

SJÖUNDI DAGUR

Sunnudagur 24. janúar

Að vaxa í einingu
Jesús segir: „Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar“
Jóh 15:5a

Lestrar
• 1. Korintubréf 1:10-13; 3:21-23          Er Kristi skipt í sundur?
• Jóhannes 17:20-23                          Eins og þú og ég erum eitt

Hugleiðing
Í nánd dauða síns bað Jesús um einingu þeirra sem faðirinn gaf honum: „að allir séu þeir eitt ... svo að heimurinn trúi“. Tengd við hann, eins og grein er tengd vínviðnum, deilum við sama safa sem dreifist meðal okkar og lífgar okkur.
Sérhver trúarhefð leitast við að leiða okkur að hjarta trúarinnar: Samfélagi við Guð, fyrir Krist, í andanum. Því ríkar sem við lifum þetta samfélag, þeim mun tengdari erum við öðru kristnu fólki og mannkyninu öllu. Páll varar okkur við afstöðu sem þegar hafði ógnað einingu hinna fyrstu kristnu manna: að gera eigin hefð algilda til tjóns fyrir einingu líkama Krists. Mismunur verður þá sundrandi í stað þess að við auðgum hvert annað. Páll var mjög víðsýnn: „Allt er ykkar, en þið eruð Krists og Kristur Guðs“ (1Kor 3:22-23).
Vilji Krists skuldbindur okkur á leið einingar og sátta. Það skuldbindur okkur einnig að sameina bæn okkar til hans: „að allir séu þeir eitt ... til þess að heimurinn trúi“ (Jóh 17:21).
    Sættu þig aldrei við hneyksli aðskilnaðar kristinna manna sem játa svo fúslega ást sína til náungans og eru samt sundraðir. Gerðu einingu líkama Krists heils hugar að     málefni þínu og ætlunarverki.8

Bæn
Heilagur andi,
lifandi eldur og blíði andardráttur,
kom og dvel í okkur.
Endurnýjaðu í okkur ástríðu fyrir einingu
svo að við getum lifað í vitund um tengslin sem sameina okkur í þér.
Megi öll þau sem hafa íklæðst Kristi við skírn sína
sameinast og bera vitni um vonina sem ber þau uppi.

8 Rule of Taizé, bls. 13.


ÁTTUNDI DAGUR

Mánudagur 25. janúar

Að sættast við alla sköpunina
Jesús segir: „Til þess að fögnuður minn sé í yður
og fögnuður yðar sé fullkominn“
Jóh 15:11

Lestrar
• Kólossubréfið 1:15-20       Allt á tilveru sína í Kristi
• Markús 4:30-32                Eins lítið og mustarðskorn

Hugleiðing
Sálmurinn til Krists í bréfinu til Kólossumanna býður okkur að lofsyngja frelsunarverk Guðs, sem nær yfir allan alheiminn. Í gegnum hinn krossfesta og upprisna Krist hefur leið sátta verið opnuð; sköpuninni er einnig ætluð framtíð lífs og friðar.
Með augum trúarinnar sjáum við að Guðs ríki er veruleiki sem er mjög nálægur en samt mjög lítill, varla sýnilegur – eins og mustarðskorn. En það er að vaxa. Jafnvel í neyð heimsins er andi hins upprisna að verki. Hann hvetur okkur til að taka þátt – með öllu fólki af góðum vilja – í óþreytandi leit að réttlæti og friði og tryggja að jörðin verði aftur heimili alls hins skapaða.
Við tökum þátt í starfi andans svo að sköpunin í allri sinni fyllingu geti haldið áfram að lofa Guð. Þegar náttúran þjáist, þegar mannkynið er þjakað, býður andi hins upprisna Krists okkur að verða hluti af frelsunarverki hans – og leyfir okkur sannarlega ekki að missa kjarkinn.
Nýjung lífsins sem Kristur færir, þó falin sé, er ljós vonar fyrir marga. Það er uppspretta sáttar fyrir alla sköpunina og inniheldur gleði sem kemur utan okkar sjálfra: „til þess að fögnuður minn sé í yður og fögnuður yðar sé fullkominn“ (Jóh 15:11).
    Viltu fagna því nýja lífi sem Kristur veitir fyrir Heilagan anda og láta það lifa í þér, meðal okkar, í kirkjunni, í heiminum og allri sköpuninni? 9

Bæn
Þríhelgur Guð, við þökkum þér fyrir að hafa skapað okkur og elskað okkur.
Við þökkum þér fyrir nærveru þína í okkur og í sköpuninni.
Mættum við læra að líta á heiminn eins og þú horfir á hann, af kærleika.
Mættum við í voninni sem þessi sýn veitir unnið að heimi
þar sem réttlæti og friður blómstra,
nafni þínu til vegsemdar.

9 Annað regluheiti Grandchamp samfélagsins.