Höfuðdagur
Dánardagur Jóhannesar skírara
Hvítur eða rauður.
Vers dagsins„Dýr er í augum Drottins dauði dýrkenda hans.. Ég færi þér þakkarfórn, ákalla nafn Drottins“. Slm116. 15,17.
Kollekta
Heilagi Guð. Frammi fyrir hinum voldugu þessa heims bar Jóhannes nafni þínu og frelsara heinsins Jesú Kristi vitni og vék hvergi af vegi sannleikans. Við biðjum þig. Gef okkur kraft til þess að við hljótum styrk fyrir fordæmi hans og megum ætíð játa nafn þitt og óttast ekki hatur og baráttu gegn kristinni trú. Fyrir son þinn og frelsara okkar Drottin Jésú Krist sem með þér og heilögum anda lifir og ríkir frá eilífð til eilífðar.
Lexía: Slm.73.1-3,8-10,23-26
Vissulega er Guð góður við Ísrael, við þá sem hjartahreinir eru. En við lá að mér skrikaði fótur, litlu munaði að ég hrasaði þar sem ég öfundaði oflátungana þegar ég sá velgengni hinna guðlausu. Þeir spotta og lasta, af yfirlæti hóta þeir kúgun, þeir gapa upp í himininn og tungan veður yfir jörðina. Því snýr fólk sér til þeirra og drekkur í sig orð þeirra. og kvölin nísti hug minn En ég er ætíð hjá þér, þú heldur í hægri hönd mína, þú leiðir mig eftir ályktun þinni og síðan munt þú taka við mér í dýrð. Hvern á ég annars að á himnum? Og hafi ég þig hirði ég eigi um neitt á jörðu. Þótt hold mitt og hjarta tærist er Guð bjarg hjarta míns og hlutskipti mitt um eilífð.
Pistill: 2.Tím 2.8-13
Minnst þú Jesú Krists, hans sem er risinn upp frá dauðum, af kyni Davíðs, eins og boðað er í fagnaðarerindi mínu. 9 Fyrir það líð ég illt og það jafnvel að vera í fjötrum eins og illvirki. En orð Guðs verður ekki fjötrað. Þess vegna þoli ég allt sakir hinna útvöldu til þess að einnig þeir hljóti hjálpræðið í Kristi Jesú. Það orð er satt: Ef vér höfum dáið með honum, þá munum vér og lifa með honum. Ef vér erum staðföst, þá munum vér og með honum ríkja. Ef vér afneitum honum, þá mun hann og afneita oss. Þótt vér séum ótrú, þá verður hann samt trúr, því að ekki getur hann afneitað sjálfum sér.
Guðspjall: Mark. 6. (6-13) 14-29
Jesús fór nú um þorpin þar í kring og kenndi. Og hann kallaði þá tólf til sín, tók að senda þá út, tvo og tvo, og gaf þeim vald yfir óhreinum öndum. Hann bauð þeim að taka ekkert til ferðarinnar annað en staf, ekki brauð, mal né peninga í belti. Þeir skyldu hafa skó á fótum en ekki tvo kyrtla. Og hann sagði við þá: „Hvar sem þið fáið inni, þar sé aðsetur ykkar uns þið leggið upp að nýju. En hvar sem ekki er tekið við ykkur né á ykkur hlýtt, þaðan skuluð þið fara og hrista dustið af fótum ykkar þeim til viðvörunar.“ Þeir lögðu af stað og prédikuðu að menn skyldu taka sinnaskiptum, ráku út marga illa anda og smurðu marga sjúka með olíu og læknuðu þá. Heródes konungur frétti þetta enda var nafn Jesú orðið víðfrægt. Sögðu sumir: „Jóhannes skírari er risinn upp frá dauðum, þess vegna gerir hann þessi kraftaverk.“ Aðrir sögðu: „Hann er Elía,“ enn aðrir: „Hann er spámaður eins og spámennirnir fornu.“ Þegar Heródes heyrði þetta sagði hann: „Jóhannes, sem ég lét hálshöggva, hann er upp risinn.“ En Heródes hafði sent menn að taka Jóhannes höndum, fjötra hann og varpa í fangelsi vegna Heródíasar, konu Filippusar, bróður síns. Hann hafði gengið að eiga hana en Jóhannes hafði sagt við Heródes: „Þú mátt ekki eiga konu bróður þíns.“ Þess vegna lagði Heródías fæð á Jóhannes og vildi deyða hann en gat ekki því að Heródes hafði beyg af honum og verndaði hann þar eð hann vissi að hann var maður réttlátur og heilagur. Hann komst í mikinn vanda þegar hann hlýddi á mál hans en þó var honum ljúft að hlusta á hann. En nú kom hentugur dagur. Á afmæli sínu gerði Heródes veislu gæðingum sínum, hershöfðingjum og fyrirmönnum Galíleu. Dóttir Heródíasar gekk þar inn og sté dans. Hún hreif Heródes og gesti hans og konungur sagði við stúlkuna: „Bið mig hvers þú vilt og mun ég veita þér.“ Og Heródes sór henni: „Hvað sem þú biður um það mun ég veita þér, allt að helmingi ríkis míns.“ Hún gekk þá út og spurði móður sína: „Um hvað á ég að biðja?“ Hún svaraði: „Höfuð Jóhannesar skírara.“ Jafnskjótt skundaði hún til konungs og bað hann: „Gef mér þegar á fati höfuð Jóhannesar skírara.“ Konungur varð hryggur við en vegna eiðsins og gesta sinna vildi hann ekki synja henni þessa heldur sendi þegar böðul og bauð að færa sér höfuð Jóhannesar. Hann fór og hjó af höfuð Jóhannesar í fangelsinu, kom með höfuð hans á fati og færði stúlkunni en stúlkan móður sinni. Þegar lærisveinar hans fréttu þetta komu þeir, tóku lík Jóhannesar og lögðu í gröf.
Sálmur: Sb. 725
1 Vér stöndum á bjargi sem bifast ei má, hinn blessaði frelsari lifir oss hjá, hans orð eru líf vort og athvarf í neyð, hans ást er vor kraftur í lífi' og í deyð. 2 Þótt himinninn farist og hrynji vor storð og hrapi hver stjarna, þá varir hans orð, þótt eygló hver slokkni við aldanna hrun hans eilífa loforð ei bregðast þó mun. 3 Hann sagði: „Minn þjónn verður þar sem ég er og þeir sem mig elska fá vegsemd hjá mér. Ég lifi' æ og þér munuð lifa og sá sem lifir og trúir skal dauðann ei sjá.“ 4 Vér treystum þeim orðum og trúum þig á, með titrandi hjörtum þig væntum að sjá, þú, frelsarinn ástkæri, föðurins son, vér fylgjum þér glaðir, vor lifandi von. Friðrik Friðriksson