Sumardagurinn fyrsti / Dagur jarðar
Grænn eða rauður.
Vers dagsins„Þú vökvar fjöllin frá hásal þinum og af ávexti verka þinna mettast jörðin“. (Slm. 104.13)
Kollekta
Guð sem skapaðir jörðina við biðjum þig. Hjálpa okkur að vera verndarar hinna jarðnesku gæða sköpunar þinnar sem sá fegurð og vexti svo að komandi kynslóðir megi njóta hins góða sem sköpun þín gefur. Þess biðjum við fyrir Drottinn Jesú Krist sem með þér og heilögum anda lifir og ríkir. Einn Guð um aldir alda. Amen.
Lexía: Slm. 104. 1-5, 13-24
Lofa þú Drottin, sála mín. Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill. Þú ert skrýddur dýrð og hátign, sveipaður ljósi sem skikkju. Þú þenur út himininn eins og tjalddúk, reftir sal þinn ofar skýjum. Þú gerir skýin að vagni þínum, ferð um á vængjum vindsins. Þú gerir vindana að sendiboðum þínum, bálandi eld að þjónum þínum. Þú grundvallar jörðina á undirstöðum hennar svo að hún haggast eigi um aldur og ævi. Þú vökvar fjöllin frá hásal þínum og af ávexti verka þinna mettast jörðin. Þú lætur gras spretta handa fénaðinum og jurtir sem maðurinn ræktar svo að jörðin gefi af sér brauð og vín sem gleður mannsins hjarta, olíu sem lætur andlit hans ljóma og brauð sem veitir honum þrótt. Tré Drottins drekka nægju sína, sedrustré Líbanons sem hann gróðursetti. Þar gera fuglar sér hreiður og storkar eiga sér bústað í krónum þeirra. Í gnæfandi fjöllum búa steingeitur og klettarnir eru skjól stökkhéra. Þú gerðir tunglið, sem ákvarðar tíðirnar, og sólina sem veit hvenær hún á að ganga til viðar. Þú sendir myrkrið, þá verður nótt og öll skógardýrin fara á stjá. Ljónin öskra eftir bráð og krefjast ætis af Guði. Þegar sólin rís draga þau sig í hlé og leggjast í bæli sín. Þá fer maðurinn út til starfa sinna og vinnur þar til kvöldar. Hversu mörg eru verk þín, Drottinn? Þú vannst þau öll af speki. Jörðin er full af því sem þú hefur skapað.
Pistill: Róm. 8. 18-25
Ég lít svo á að þjáningar þessa tíma séu ekki neitt í samanburði við þá dýrð sem á okkur mun opinberast. Því að sköpunin vonar og þráir að Guðs börn verði opinber. Sköpunin er hneppt í ánauð hverfulleikans, ekki sjálfviljug heldur að vilja hans sem bauð svo, í þeirri von að sjálf sköpunin verði leyst úr ánauð sinni undir hverfulleikanum og fái frelsið í dýrðinni með börnum Guðs. Við vitum að öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa. Og ekki það eitt, heldur stynjum við sem eigum frumgróða andans einnig með sjálfum okkur meðan við bíðum þeirrar stöðu Guðs barna sem í vændum er með endurlausn líkama okkar. Í þessari von erum við hólpin. Von, sem menn sjá fram komna, er ekki von. Hver vonar það sem hann sér? En ef við vonum það sem við sjáum ekki bíðum við þess með þolinmæði.
Guðspjall: Jóh 15.1-5
„Ég er hinn sanni vínviður og faðir minn er vínyrkinn. Hverja þá grein á mér sem ber ekki ávöxt sníður hann af og hverja þá sem ávöxt ber hreinsar hann svo að hún beri meiri ávöxt. Þér eruð þegar hrein vegna orðsins sem ég hef talað til yðar. Verið í mér, þá verð ég í yður. Greinin getur ekki borið ávöxt af sjálfri sér nema hún sé á vínviðnum. Eins getið þér ekki heldur borið ávöxt nema þér séuð í mér. Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar. Sá ber mikinn ávöxt sem er í mér og ég í honum en án mín getið þér alls ekkert gert.
Sálmur: Sb. 390
1 Líður að dögun, léttir af þoku, ljóðin sín kveða fuglar af snilld. Sönginn og daginn, Drottinn, ég þakka, dýrlegt er orð þitt, lind sönn og mild. 2 Verðandi morgunn, vindur og sunna. Vanga minn strýkur náðin þín blíð. Grasið og fjöllin, Guð minn, ég þakka, geislar þín sköpun, nú er mín tíð. 3 Risinn til lífsins lausnarinn Jesús leið þinni beinir hvert sem ég fer. Indæl er jörðin, eilíf er vonin, allt skal að nýju fæðast í þér. Eleanor Farjeon 1 – Sigríður Guðmarsdóttir