1. sunnudagur eftir þrettánda
Guðssonurinn / Skírn Jesú
Grænn eða hvítur.
Vers dagsins„Allir sem leiðast af anda Guðs eru Guðs börn.“ (Róm 8.14)
Kollekta
Drottinn Guð. Með skírn þíns eingetna sonar vísaðir þú okkur veginn til náðar þinnar og fyrirgefningar syndanna. Styrk og glæð trúna í hjörtum okkar og gef okkur sem skírð erum að boði þíns elskulega sonar, náð til þess að halda trúlega skírnarsáttmála okkar og öðlast eilíft líf fyrir Drottin Jesú Krist sem með þér og heilögum anda lifir og ríkir . Einn Guð um aldir alda.
Lexía: Jes 42.1-4
Sjá þjón minn sem ég styð, minn útvalda sem ég hef velþóknun á. Ég legg anda minn yfir hann, hann mun færa þjóðunum réttlæti. Hann kallar ekki og hrópar ekki og lætur ekki heyra rödd sína á strætunum. Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur og dapran hörkveik slekkur hann ekki. Í trúfesti kemur hann rétti á. Hann þreytist ekki og gefst ekki upp uns hann hefur grundvallað rétt á jörðu og fjarlæg eylönd bíða boðskapar hans.
Pistill: 1Kor 1.26-31
Minnist þess, systkin, hvernig þið voruð þegar Guð kallaði ykkur: Mörg ykkar voru ekki vitur að manna dómi, ekki voldug eða ættstór. En Guð hefur útvalið það sem heimurinn telur heimsku til að gera hinum vitru kinnroða og hið veika í heiminum til þess að gera hinu volduga kinnroða. Og hið lítilmótlega í heiminum, það sem heimurinn telur einskis virði, hefur Guð útvalið til þess að gera að engu það sem er í metum. Enginn maður skyldi hrósa sér fyrir Guði. Honum er það að þakka að þið eruð í samfélagi við Krist Jesú. Hann er orðinn okkur vísdómur frá Guði, bæði réttlæti, helgun og endurlausn. Eins og ritað er: „Sá sem vill hrósa sér hrósi sér í Drottni.“
Guðspjall: Jóh 1.29-34
Daginn eftir sér Jóhannes Jesú koma til sín og segir: „Sjá, Guðs lamb sem ber synd heimsins. Þar er sá er ég sagði um: Eftir mig kemur maður sem er mér fremri því hann var til á undan mér. Sjálfur þekkti ég hann ekki. En til þess kom ég og skíri með vatni að hann opinberist Ísrael.“ Og Jóhannes vitnaði: „Ég sá andann koma af himni ofan eins og dúfu og hann nam staðar yfir honum. Sjálfur þekkti ég hann ekki en sá er sendi mig að skíra með vatni sagði mér: Sá sem þú sérð andann koma yfir og nema staðar á, hann er sá sem skírir með heilögum anda. Þetta sá ég og ég vitna að hann er sonur Guðs.“
Sálmur: Sb. 350
1 Með fangið fullt af ást og trú við erum er okkar litla barn til skírnar berum, þar í skírnarbaði blessun Drottinn gefur, börn sín Kristur örmum vefur. 2 Við biðjum þig, ó, Kristur, kom í anda, þinn kærleik gef þú leiðsögn okkar handa. Þetta skírnarvatn úr lífsins lindum streymir, líkn Guðs náðar barnið geymir. 3 Þú minnir okkur á hve miklu stærra er mannlegt líf, það leitar áfram, hærra, upp til þín, ó, Guð, sem nýjum heimi heitir, hann er gjöf sem náð þín veitir. 4 Við skulum því til skírnar börnin bera, í blessun Guðs er öllum sælt að vera, líkt og vorregn elska Drottins drýpur niður, dögg á enni, líf og friður. Christiane Gammeltoft-Hansen – Kristján Valur Ingólfsson