Nýársdagur
Í Jesú nafni / Áttidagur jóla /Á Guðs vegi
Hvítur.
Vers dagsins„Hvað sem þið segið eða gerið, gerið það allt í nafni Drottins Jesú og þakkið Guði föður með hjálp hans.“ (Kól 3.17)
Kollekta
Drottinn Guð, eilífi faðir, sem gafst okkur einkason þinn að frelsara og bauðst, að hann skyldi heita Jesús: Veit okkur af náð þinni, að við sem tignum heilagt nafn hans á jörðu, fáum hann sjálfan að sjá og tilbiðja á himnum, því að hann lifir og ríkir með þér í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: 4Mós 6.22-27
Drottinn talaði til Móse og sagði: „Ávarpaðu Aron og syni hans og segðu: Með þessum orðum skuluð þið blessa Ísraelsmenn: Drottinn blessi þig og varðveiti þig, Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur, Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið. Þannig skuluð þið leggja nafn mitt yfir Ísraelsmenn og ég mun blessa þá.
Pistill: Post 10.42-43
Og hann bauð okkur að prédika fyrir alþjóð og vitna að hann er sá sem Guð hefur skipað dómara lifenda og dauðra. Honum bera allir spámennirnir vitni að sérhver sem trúir á hann fái vegna hans fyrirgefningu syndanna.“
Guðspjall: Jóh 2.23-25
Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn sem hann gerði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki að neinn bæri öðrum manni vitni. Hann vissi sjálfur hvað í manni býr.
Sálmur: Sb. 78
1 Sjá, nú er runninn nýársdagur en nótt hinn liðna tímann fól, að nýju blómgast náðarhagur því nú skín Drottins elsku sól. Ó, Guð, vor faðir, þökk sér þér, af þinni miskunn fögnum vér. 2 Hve mjög á liðnum æviárum þér ávallt brotið höfum mót. Vér biðjum því með trega' og tárum í trausti Krists af hjartans rót: Um eilífð hyl þú afbrot vor og afmá nú vor syndaspor. 3 Með nýju ári nú vér biðjum að nýjan mátt oss gefir þú svo þér til dýrðar allt vér iðjum með elsku, hlýðni' og sannri trú. Þinn helgur andi leggi' oss lið svo lesti' og syndir skiljumst við. 4 Krýn þú hið nýja náðarárið með náðargæðum himni frá. Græð þinna barna sérhvert sárið, í sorg og neyð þeim vertu hjá. Æ, farsæl vora fósturjörð og frelsa þína kristnu hjörð. 5 Í Jesú nafni öll vor efni þér, eilíf gæskan, felum nú. Í verki' og hvíld, í vöku' og svefni oss verndi' og blessi náð þín trú. En þegar dauðans dregst að nótt, ó, Drottinn, gef að sofnum rótt. 6 Oss síðar vek til lífs í ljósi er ljómar dýrðarsólin skær og sælan æ með sigurhrósi og sérhvert unaðsblómið grær þar sem að nýár eilíft er og eilíft friðarlíf hjá þér. Páll Jónsson