Sunnudagur milli nýárs og þrettánda
Í vernd Guðs / Guðs hús
Hvítur.
Vers dagsins,,Hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum. Jóh. 1,14b
Kollekta
Drottinn Guð, þú sem hefur bæði tákn og leiðir til að lýsa veginn til einkasonar þíns: Leið einnig okkur sem nú þekkjum þig fyrir trúna, að við megum um síðir líta fegurð hátignar þinnar. Gjör okkur að vegvísum kærleika þíns sem birtist okkur í syni þínum Jesú Kristi sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: Jes 61.10-62.3
Ég gleðst yfir Drottni, ég fagna yfir Guði mínum því að hann bjó mig klæðum hjálpræðisins, sveipaði mig skikkju réttlætisins. Eins og brúðgumi setur upp höfuðdúk sinn og brúður býr sig skarti sínu og eins og jörðin gefur gróðrinum vöxtinn og garður lætur frækornin spíra mun Drottinn Guð láta réttlæti dafna og orðstír frammi fyrir öllum þjóðum. Sökum Síonar get ég ekki þagað og vegna Jerúsalem ekki verið hljóður fyrr en réttlæti hennar brýst fram eins og ljómi og hjálpræði hennar logar sem kyndill. Þjóðirnar munu sjá réttlæti þitt og allir konungar dýrð þína, þér verður gefið nýtt nafn sem munnur Drottins ákveður. Þú verður vegleg kóróna í hendi Drottins og konunglegt höfuðdjásn í hendi Guðs þíns.
Pistill: 1Jóh 3.1-3
Sjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefur auðsýnt okkur, að við skulum kallast Guðs börn. Og það erum við. Heimurinn þekkir okkur ekki vegna þess að hann þekkti hann ekki. Þið elskuðu, nú þegar erum við Guðs börn og það er enn þá ekki orðið bert hvað við munum verða. Við vitum að þegar hann birtist, þá verðum við honum lík því að við munum sjá hann eins og hann er. Hver sem hefur þessa von til hans hreinsar sjálfan sig eins og Kristur er hreinn.
Guðspjall: Matt 2.13-15
Þegar vitringarnir voru farnir þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: „Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera uns ég segi þér því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því.“ Jósef vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands. Þar dvöldust þau þangað til Heródes var allur. Það átti að rætast sem Drottinn lét spámanninn segja: „Frá Egyptalandi kallaði ég son minn.“
Sálmur: Sb. 700
1 Héti ég María, hefði barn armi á, neyddist til að flýja nauð og stríð, lands míns vá, fyndir þú mér friðsælt skjól? 2 Brynnu mér að baki brýrnar heim, minni' á ferð, voða' og vopnabraki vígslóð frá, grimmri mergð, fyndir þú mér friðsælt skjól? 3 Féllu' á sprengjur fláar fagra sveit, sem ég veit, hittu fyrir hús mitt, heimafólk, dýr á beit, fyndir þú mér friðsælt skjól? 4 Hyrfi' um nótt í hafið hriplekur báturinn, yrði' úr öldum dreginn aðeins ég, grátur minn, fyndir þú mér friðsælt skjól? 5 Langförul ég legði land við fót, norðurgrjót og þér sögu segði sára um meinin ljót, fyndir þú mér friðsælt skjól? 6 Héti ég María, hefði barn armi á, ef hann héti Jesús ... John L. Bell – Sigríður Guðmarsdóttir