Sunnudagur í föstuinngang
Estomihi - Krossferillinn / Vegur kærleikans
Grænn eða fjólublár.
SöngurDýrðarsöngur ekki sunginn.
Vers dagsins„Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn.“ (Lúk 18.31)
Kollekta
Við biðjum þig, Drottinn: Heyr þú í mildi bænir okkar. Leys okkur úr viðjum syndanna og varðveit okkur gegn öllu illu. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: Am 5.21-24
Ég hata, ég fyrirlít hátíðir yðar. Ég hef enga ánægju af samkomum yðar. Jafnvel þótt þér færið mér brennifórnir og kornfórnir lít ég ekki við þeim, né heldur matfórnum yðar af alikálfum. Burt með glamur sálma þinna sem aðeins er hávaði. Ég vil ekki heyra hörpuleik þinn. Réttvísi skal streyma fram sem vatn og réttlæti sem sírennandi lækur.
Pistill: Ef 6.18b-20
Verið þannig árvökul og stöðug í bæn fyrir öllum heilögum. Biðjið fyrir mér að mér verði gefin orð að mæla, þá er ég lýk upp munni mínum, til þess að ég kunngjöri með djörfung leyndardóm fagnaðarerindisins. Boðberi þess er ég í fjötrum mínum. Biðjið að ég geti flutt það með djörfung eins og mér ber að tala.
Guðspjall: Mrk 8.31-38
Þá tók Jesús að kenna þeim: „Mannssonurinn á margt að líða. Öldungarnir, æðstu prestarnir og fræðimennirnir munu útskúfa honum. Menn munu lífláta hann en hann mun upp rísa eftir þrjá daga.“ Þetta sagði Jesús berum orðum. En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann. Jesús sneri sér við, leit til lærisveina sinna, ávítaði Pétur og sagði: „Vík frá mér, Satan, eigi hugsar þú um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“ Og Jesús kallaði til sín mannfjöldann ásamt lærisveinum sínum og sagði: „Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu vegna mín og fagnaðarerindisins mun bjarga því. Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn en glata sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína? Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð föður síns með heilögum englum mun hann blygðast sín fyrir hvern þann sem blygðast sín fyrir mig hjá þessari ótrúu og syndugu kynslóð.
Sálmur: Sb. 106
1 Krossferli' að fylgja þínum fýsir mig, Jesú kær, væg þú veikleika mínum þó verði' eg álengdar fjær. Þá trú og þol vill þrotna, þrengir að neyðin vönd, reis þú við reyrinn brotna og rétt mér þína hönd. 2 Oft má af máli þekkja manninn, hver helst hann er, sig mun fyrst sjálfan blekkja sá með lastmælgi fer. Góður af geði hreinu góðorður reynist víst, fullur af illu einu illyrðin sparir síst. 3 Í veraldar vonskusolli velkist eg, Jesú, hér. Falli það oft mér olli, óstöðugt holdið er. Megnar ei móti'að standa mín hreysti náttúrlig. Láttu þitt ljós og anda leiða og styrkja mig. Hallgrímur Pétursson Ps. 11