6. sunnudagur eftir páska
Exaudi - Söfnuðurinn bíður / Hjálparinn kemur
Hvítur eða rauður.
Vers dagsinsJesús segir: „Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu mun ég draga alla til mín.“ (Jóh 12.32)
Kollekta
Almáttugi, eilífi Guð: Gef þú að vilji okkar sé ávallt helgaður þér og við þjónum hátign þinni af einlægu hjarta. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: Sak 14.5c-9
En Drottinn, Guð minn, mun koma og með honum allir heilagir. Á þeim degi verður hvorki hlý sólarbirta né svalt mánaskin, það verður samfelldur dagur og á því kann Drottinn einn skil. Ekki dagur, ekki nótt og jafnvel að kvöldinu verður bjart. Á þeim degi mun ferskt vatn streyma frá Jerúsalem, að hálfu í austurhafið og að hálfu í vesturhafið, jafnt sumar sem vetur. Drottinn mun þá verða konungur yfir veröldinni allri. Á þeim degi mun Drottinn verða einn og nafn hans eitt.
Pistill: Post 1.12-14
Þá sneru þeir aftur til Jerúsalem frá Olíufjallinu, sem svo er nefnt og er í nánd við Jerúsalem, hvíldardagsleið þaðan. Er þeir komu þangað fóru þeir upp í loftstofuna þar sem þeir dvöldust: Það voru þeir Pétur og Jóhannes, Jakob og Andrés, Filippus, Tómas, Bartólómeus, Matteus, Jakob Alfeusson, Símon vandlætari og Júdas Jakobsson. Konurnar voru einnig með þeim og María móðir Jesú og bræður hans. Öll voru þau með einum huga stöðug í bæninni.
Guðspjall: Jóh 17.9-17
Ég bið fyrir þeim. Ég bið ekki fyrir heiminum heldur fyrir þeim sem þú hefur gefið mér því að þeir eru þínir og allt mitt er þitt og þitt er mitt. Í þeim er ég dýrlegur orðinn. Ég er ekki lengur í heiminum. Þeir eru í heiminum en ég kem til þín. Heilagi faðir, varðveit þá í þínu nafni, því nafni sem þú hefur gefið mér, svo að þeir verði eitt eins og við. Meðan ég var hjá þeim varðveitti ég þá í nafni þínu sem þú hefur gefið mér, og gætti þeirra og enginn þeirra glataðist nema sonur glötunarinnar svo að ritningin rættist. Nú kem ég til þín. Þetta tala ég í heiminum til þess að þeir eigi í sjálfum sér fögnuð minn fullkominn. Ég hef gefið þeim orð þitt og heimurinn hataði þá af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Ég bið ekki að þú takir þá úr heiminum heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa. Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur.
Sálmur: Sb. 177
1 Vor Guð er eilíf ást og náð, sig á það fast má reiða. Þótt einatt skilji' eg ei hans ráð úr öllu kann hann greiða. Þá hér ég græt sú huggun mæt í harmi svölun veitir. Á dauðans stund, við dómsins fund sér Drottins líkn ei breytir. 2 Ég vil hann elska' af allri sál og öllum mínum huga. Þótt mér hann byrli beiska skál hans blessun samt mun duga. Hans kærleiks bál mér kveiki' í sál einn kærleiks neista skæran svo elski' eg hann og hvern einn mann ég hafa megi kæran. 3 Ef einhver segist elska hann af öllu sínu hjarta en naumur lætur náungann í neyð án hjálpar kvarta, þá sannleikann ei segir hann því sá ei elskað getur þann ei hann sér fyrst hinna hér hann harma neins ei metur. 4 Ó, Guð, í mér þinn kærleik kveik svo kærleiks veg ég feti og aumka hjartans óstyrkleik svo elskað heitt ég geti, svo öll mín leið um æviskeið um elsku vitni sanna og auðnist mér að enda hér í ást til þín og manna. Thomas Kingo – Valdimar Briem