Annar hvítasunnudagur
Gjöf andans
Rauður.
Vers dagsins„Ekki með valdi né krafti heldur fyrir anda minn, segir Drottinn allsherjar.“ (Sak 4.6b)
Kollekta
Guð sem gafst postulum þínum heilagan anda: Heyr bænir okkar og veit, að við sem þú hefur gefið trúna megum og öðlast frið þinn. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: Esk 11.19-20
Þá mun ég gefa þeim eindrægt hjarta og leggja þeim nýjan anda í brjóst. Ég mun fjarlægja steinhjartað úr líkama þeirra og gefa þeim hjarta úr holdi svo að þeir fylgi lögum mínum og haldi reglur mínar og framfylgi þeim. Þá skulu þeir verða mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð.
Pistill: 1Kor 12.12-13
Því að eins og líkaminn er einn og hefur marga limi en allir limir líkamans, þótt margir séu, eru einn líkami, þannig er og Kristur. Í einum anda vorum við öll skírð til að vera einn líkami, hvort sem við erum Gyðingar eða Grikkir, þrælar eða frjálsir, og öll fengum við einn anda að drekka.
Guðspjall: Jóh 4.19-26
Konan segir við hann: „Drottinn, nú sé ég að þú ert spámaður. Feður okkar hafa tilbeðið Guð á þessu fjalli en þið segið að í Jerúsalem sé sá staður þar sem tilbiðja skuli.“ Jesús segir við hana: „Trú þú mér, kona. Sú stund kemur að þið munuð hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í Jerúsalem. Þið tilbiðjið það sem þið þekkið ekki. Við tilbiðjum það sem við þekkjum því hjálpræðið kemur frá Gyðingum. En sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra tilbiðjenda. Guð er andi og þeir sem tilbiðja hann eiga að tilbiðja í anda og sannleika.“ Konan segir við hann: „Ég veit að Messías kemur – það er Kristur. Þegar hann kemur mun hann kunngjöra okkur allt.“ Jesús segir við hana: „Ég er hann, ég sem við þig tala.“
Sálmur: Sb. 167
1 Í öllum ljóma logar sólin og lýsir gullinn náðarstólinn. Ó, kom þú, hvítasunna' í söng með sumardægrin björt og löng. Nú Drottins mikla máttarorð oss mönnum reiðir nægtaborð. 2 Um gullna óttu áin niðar og árnar hverju lífi friðar. Í kliði hennar Kristur er að kalla mig að fylgja sér. Í draumi lít ég Drottin minn. Í dögun flyt ég lofsönginn. 3 Nú dregur arnsúg ofar tindum. Guðs andi fer í sumarvindum um heiðageim, um fjöll og fjörð að frjóvga landsins ríku jörð. En lífsins elfur leikur sér sem lækur tær við fætur mér. 4 Hér er það Guð sem öllu ræður. Vér erum hans, ó, systur, bræður. Já, endurfædd af anda hans vér elskum guðsmynd sérhvers manns í nafni Krists sem kom á jörð með kærleik Guðs og sáttargjörð. 5 Ó, vertu' ei lengur veill né hálfur. Nei, vittu' að Guð er hjá þér sjálfur. Já, safnist þúsund þjóða mál í þakkarsöngsins fórnarskál. Nú syngi öll hans sveit á jörð með sama rómi lofsöngsgjörð. 6 Við nafn hans lít ég loga brenna og leika á vörum. – Saman renna nú allra þjóða móðurmál í mannssonarins fórnarskál. Í einu nafni ómar hér um eilífð: „Jesú, lof sé þér.“ 7 Þá blómgast rós í ríki þínu. Þú ræður yfir lífi mínu. Með hvítasunnusól ég rís og sest í þinni Paradís. Ég gaf þér, Herra, hjarta mitt og hefi öðlast lífið þitt. Nikolaj F.S. Grundtvig– Heimir Steinsson