Sunnudagur milli jóla og nýárs
Símeon (fjölskyldan) Símeon og Anna / Fjölskylda Guðs
Hvítur.
Vers dagsins,,Nú lætur þú Herra, þjón þinn í friði fara, eins og þú hefur heitið mér, því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt.” Lúk. 2,29
Kollekta
Almáttugi, eilífi Guð: Bein athöfnum okkar að því sem þér er þóknanlegt, svo að við verðum auðug að góðum verkum. Fyrir son þinn Drottin Jesú Krist, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: 1Sam 1.19b-23 (-28)
Elkana kenndi Hönnu, konu sinnar, og Drottinn minntist hennar og varð hún þunguð. Í lok ársins fæddi hún son og nefndi hann Samúel, „af því að ég hef beðið Drottin um hann“. Elkana fór nú ásamt allri fjölskyldu sinni upp til Síló til þess að færa Drottni hina árlegu sláturfórn og heitfórn. En Hanna fór ekki heldur sagði hún við mann sinn: „Ég verð hér þar til drengurinn hefur verið vaninn af brjósti. Þá fer ég með hann til að sýna hann fyrir augliti Drottins. Upp frá því skal hann ævinlega vera þar.“ „Gerðu það sem þér þykir rétt,“ svaraði Elkana, maður hennar. „Vertu um kyrrt heima þar til þú hefur vanið hann af brjósti. Megi Drottinn láta heit þitt rætast.“ Konan var síðan um kyrrt heima og hafði soninn á brjósti þar til hún vandi hann af. (Þegar hún hafði vanið hann af brjósti fór hún með hann með sér upp eftir. Hún hafði einnig með sér þriggja vetra naut, eina efu mjöls og vínbelg. Hún fór með drenginn í hús Drottins í Síló en hann var enn mjög ungur. Þau færðu nautið í sláturfórn og fóru síðan með drenginn til Elí og Hanna sagði: „Hlýddu á mál mitt, herra. Svo sannarlega sem þú lifir, herra, er ég konan sem stóð hér hjá þér og bað til Drottins. Ég bað um þennan dreng og Drottinn heyrði bæn mína og gaf mér það sem ég bað um. Nú gef ég hann Drottni. Drottinn hefur beðið um hann. Alla ævi sína skal hann heyra Drottni til.“ Síðan báðu þau til Drottins.)
Pistill: Heb 1.1-4
Guð talaði fyrrum oftsinnis og með mörgu móti til feðranna fyrir munn spámannanna. En nú í lok þessara daga hefur hann til okkar talað í syni sínum sem hann setti erfingja allra hluta. Fyrir hann hefur hann líka heimana gert. Hann, sem er ljómi dýrðar hans og ímynd veru hans og ber allt með orði máttar síns, hreinsaði okkur af syndum okkar og settist til hægri handar hátigninni á hæðum. Hann er orðinn englunum þeim mun meiri sem hann hefur að erfðum tekið ágætara nafn en þeir.
Guðspjall: Lúk 2.22-33
En er hreinsunardagar þeirra voru úti eftir lögmáli Móse fóru þau með hann upp til Jerúsalem til að færa hann Drottni, en svo er ritað í lögmáli Drottins: „Allt karlkyns, er fyrst fæðist af móðurlífi, skal helgað Drottni,“ og til að bera fram fórn, eins og segir í lögmáli Drottins, „tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur“. Þá var í Jerúsalem maður er Símeon hét. Hann var réttlátur og guðrækinn og vænti þess að Guð frelsaði Ísrael. Heilagur andi var yfir honum og hafði hann vitrað honum að hann skyldi ekki deyja fyrr en hann hefði séð Krist Drottins. Að leiðsögn andans kom hann í helgidóminn. Og er foreldrarnir færðu þangað sveininn Jesú til að fara með hann eftir venju lögmálsins tók Símeon hann í fangið, lofaði Guð og sagði: Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara eins og þú hefur heitið mér því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt, sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða, ljós til opinberunar heiðingjum og til vegsemdar lýð þínum Ísrael. Faðir hans og móðir undruðust það er sagt var um hann.
Sálmur: Sb. 665
1 Nú héðan á burt í friði' eg fer, ó, faðir, að vilja þínum, í hug er mér rótt og hjartað er af harminum læknað sínum. Sem hést þú mér, Drottinn, hægan blund ég hlýt nú í dauða mínum. 2 Því veldur hinn sæli sonur þinn er sála mín heitast þráði, þú sýndir mér hann, ó, Herra minn, af hjarta þíns líknarráði, í lífi og deyð mig huggar hann, þá huggun ég besta þáði. 3 Þú hefur hann auglýst öllum lýð af ástríkri föðurmildi til þess honum lúti veröld víð og verða hans erfð hún skyldi, að ljósið hans orða lýsi blítt um löndin öll náð þín vildi. 4 Hann öllum er heimi ljós og líf og leiðtoginn villtra besti, í nauðunum örugg hann er hlíf þótt hjálpina manna bresti, hann, Ísrael, þínum eignarlýð er yndið og heiður mesti. Martin Luther – Helgi Hálfdánarson