Páskadagur
Hinn krossfesti lifir / Gegnum dauðann til lífsins
Hvítur.
Vers dagsins„Ég dó en nú lifi ég um aldir alda og ég hef lykla dauðans og heljar.“ (Opb 1.18b) Andstef: Drottinn er upprisinn, hann er sannarlega upprisinn.
Kollekta
Eilífi Guð og faðir, þú sem með sigri einkasonar þína á dauðanum hefur opnað okkur dyrnar til eilífs lífs: Hjálpa okkur að sú góða von og þrá sem þú hefur vakið með okkur megi lifa og dafna hjá þér. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: Jes 25.6-9
Drottinn allsherjar mun á þessu fjalli búa öllum þjóðum veislu, veislu með réttum fljótandi í olíu og með dreggjavíni, með réttum úr olíu og merg og skírðu dreggjavíni. Á þessu fjalli, fyrir framan fortjaldið, sem er hula öllum þjóðum og forhengi öllum lýðum, mun hann afmá dauðann að eilífu. Drottinn Guð mun þerra tárin af hverri ásjónu og afmá smán lýðs síns af allri jörðinni því að Drottinn hefur talað. Á þeim degi verður sagt: Þessi er Guð vor sem vér höfum vonað á og hann mun frelsa oss. Þessi er Drottinn sem vér höfum vonað á, fögnum og gleðjumst yfir hjálp hans
Pistill: 1Kor 15.1-8a
1Kor 15.1-8a Ég minni ykkur, systkin, á fagnaðarerindið sem ég boðaði ykkur, sem þið og veittuð viðtöku og þið standið einnig stöðug í. Það mun og frelsa ykkur ef þið haldið fast við það sem ég boðaði ykkur, ella hafið þið til einskis tekið trú. Því það kenndi ég ykkur fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna synda okkar samkvæmt ritningunum, að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf. Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu sem flestir eru á lífi allt til þessa en nokkrir eru sofnaðir. Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum. En síðast allra birtist hann einnig mér,
Guðspjall: Matt 28.1-10
Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir. En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, hann fer á undan ykkur til Galíleu. Þar munuð þið sjá hann. Þetta hef ég sagt ykkur.“ Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin. Allt í einu kemur Jesús á móti þeim og segir: „Heilar þið!“ En þær komu, féllu fram fyrir honum og föðmuðu fætur hans. Þá segir Jesús við þær: „Óttist ekki, farið og segið bræðrum mínum og systrum[ að halda til Galíleu. Þar munu þau sjá mig.“
Sálmur: Sb. 132
1 Sigurhátíð sæl og blíð ljómar nú og gleði gefur, Guðs son dauðann sigrað hefur, nú er blessuð náðartíð. Nú er fagur dýrðardagur, Drottins hljómar sigurhrós, nú vor blómgast náðarhagur, nú sér trúin eilíft ljós. 2 Ljósið eilíft lýsir nú dauðans nótt og dimmar grafir. Drottins miklu náðargjafir, sál mín, auðmjúk þakka þú. Fagna, Guð þér frelsi gefur fyrir Drottin Jesúm Krist og af náð þér heitið hefur himnaríkis dýrðarvist. 3 Drottinn Jesú, líf og ljós oss þín blessuð elska veitir, öllu stríði loks þú breytir sæluríkt í sigurhrós. Mæðu' og neyð þín miskunn sefi, með oss stríði kraftur þinn. Sigur þinn oss sigur gefi, sigurhetjan, Jesú minn. Páll Jónsson