9. sunnudagur eftir þrenningarhátíð
Gjafir andans / Góðir ráðsmenn
Grænn.
Vers dagsins„Hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn og af þeim verður meira heimtað sem meira er léð.“ (Lúk 12.48b)
Kollekta
Almáttugi Guð: Heyr í mildi bænir okkar sem leitum ásjár þinnar og gef að vér óskum þess eins sem þér er þóknanlegt svo að þú fáir veitt okkur það sem við beiðumst. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: Jer. 1: 4-10
Orð Drottins kom til mín: Áður en ég mótaði þig í móðurlífi valdi ég þig. Áður en þú fæddist helgaði ég þig og ákvað að þú yrðir spámaður fyrir þjóðirnar. Ég svaraði: „Drottinn minn og Guð. Ég er ekki fær um að tala því að ég er enn svo ungur.“ Þá sagði Drottinn við mig: „Segðu ekki: Ég er enn svo ungur. Þú skalt fara hvert sem ég sendi þig og boða hvað eina sem ég fel þér. Þú skalt ekki óttast þá því að ég er með þér til að bjarga þér,“ segir Drottinn. Síðan rétti Drottinn út hönd sína, snerti munn minn og sagði við mig: „Hér með legg ég orð mín þér í munn. Ég veiti þér vald yfir þjóðum og ríkjum til að uppræta og rífa niður, til að eyða og umturna, til að byggja upp og gróðursetja.“
Pistill: Ef. 5. 8b-14
Hegðið ykkur því eins og börn ljóssins. Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur. Metið rétt hvað Drottni þóknast. Eigið engan hlut í verkum myrkursins, sem ekkert gott hlýst af, heldur flettið miklu fremur ofan af þeim. Því að það sem slíkir menn fremja í leyndum er jafnvel svívirðilegt um að tala. En allt það sem ljósið afhjúpar verður augljóst. Því að allt sem er augljóst er í ljósi. Því segir svo: Vakna þú sem sefur og rís upp frá dauðum og þá mun Kristur lýsa þér.
Guðspjall: Lúk 12.42-48
Drottinn mælti: „Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður sem húsbóndinn setur yfir hjú sín að gefa þeim skammtinn á réttum tíma? Sæll er sá þjónn er húsbóndinn finnur breyta svo er hann kemur. Ég segi yður með sanni: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar. En ef sá þjónn segir í hjarta sínu: Það dregst að húsbóndi minn komi, og tekur að berja þjóna og þernur, eta og drekka og verða ölvaður, þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi er hann væntir ekki, á þeirri stundu er hann veit ekki, höggva hann og láta hann fá hlut með ótrúum. Sá þjónn sem veit vilja húsbónda síns og hirðir ekki um að hlýða honum mun barinn mörg högg. En hinn sem veit ekki hvað húsbóndi hans vill en vinnur til refsingar mun barinn fá högg. Hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn og af þeim verður meira heimtað sem meira er léð.
Sálmur: Sb. 568
1 Þú, Drottinn, átt það allt sem öðlumst vér á jörð. Hver gjöf og fórn sem færum vér er fátæk þakkargjörð. 2 Vor eign og allt vort lán þér einum heyrir til. Þótt gætum vér það gefið allt vér gerðum engin skil. 3 Hér svíða hjartasár, hér sveltur fátækt barn, og vonarsnauður villist einn um veglaust eyðihjarn. 4 Að létta bróður böl og bæta raunir hans, að seðja, gleðja, græða mein sé gleði kristins manns. 5 Vér trúum á þitt orð þótt efi myrkvi jörð að miskunn við hinn minnsta sé þér, mannsins sonur, gjörð. William W. How – Sigurbjörn Einarsson