
- Snævar Jón Andrésson
- Sóknarprestur

Staðarfellskirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1891. Hönnuður hennar var Guttormur Jónsson, forsmiður. Í öndverðu var þak kirkjunnar klætt járni, en veggir listaþili og hún stóð á steinhlöðnum sökkli. Í gluggum voru átta rúður og yfir þeim laufsagaðar rósir en þrír minni gluggar voru á turnhliðum. Árin 1962–1963 voru gerðar ýmsar breytingar á kirkjunni. Sökkull var styrktur með steinsteypu, kirkjan klædd bárujárni að utan en bjúgstallur og turnþak eirklædd og gluggarammar fjarlægðir. Veggir voru klæddir krossviði að innan, skot þiljuð af hvorum megin altaris og kirkjan skrautmáluð af Jóni og Grétu Björnsson. Hönnuður breytingar var embætti Húsameistara ríkisins. Þak kirkjunnar er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með lauklaga þaki og bjúgstalli undir. Kirkjan er bárujárnsklædd en bjúgstallur og turnþak eirklædd og stendur kirkjan á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir bogadregnir gluggar, tveir minni á framstafni yfir forkirkju og einn á framhlið turns. Í þeim er krosspóstur og fjórar rúður.
Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir og bogagluggi yfir. Altaristaflan er olíumálverk frá árinu 1891 eftir danska málarann Anker Lund. Myndin er eftirmynd af málverki Carls Bloch og sýnir Krist upprisinn fyrir framan grafarmunnann og tvo varðmenn sem hrökklast undan honum. Kirkjan á kaleik og patínu, sem eru nýlegir gripir í gotneskum stíl og eru erlend smíði. Gripir þessir voru lagðir til kirkjunnar árið 1912. Prédikunarstóllinn er áttstrendur, með myndum af guðspjallamönnunum og áletrun og ártalinu 1788. Orgel á sönglofti var smíðað af Gissuri Elíassyni í Reykjavík árið 1948. Tvær klukkur eru í Staðarfellskirkju. Önnur er frá miðöldum, hin er með ártalinu 1722.
Ljósmynd tók Guðmundur Karl Einarsson
