Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Ketildalavegi, 466 Bíldudal
Bílastæði
Kirkjugarður
Fjöldi: 50

Selárdalskirkja

Selárdalskirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árunum 1861–1862. Þakturn var reistur á árunum 1891–1892. Hönnuðir kirkjunnar eru ókunnir. Þak kirkjunnar er krossreist og upp af vesturstafni er ferstrendur turn með risþaki. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli.

Fyrstu heimildir um kirkju í Selárdal eru frá 13. öld. Frægastur presta í Selárdal er vafalaust séra Páll Björnsson, sem sagður er hafa afþakkað biskupsstöðu í Skálholti vegna þess hve vel honum leið í Selárdal.

Á hvorri hlið kirkjunnar eru þrír gluggar með sex rúðum og annar sjónarmun minni á framstafni en lítill gluggi á framhlið turns. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir. Altaristaflan er máluð í Danmörku árið 1752 á tré og sýnir síðustu kvöldmáltíðina. Kirkjan á silfurkaleik og patínu í gotneskum stíl.

Hnúðurinn og meðalkafli kaleiks, svo og patínan gæti verið frá árinu 1397, en skál og stétt eru gerð í Kaupmannahöfn árið 1765. Þá á kirkjan þjónustukaleik og patínu úr silfri sem eru íslenskir smíðisgripir frá miðri 19. öld. Skírnarfonturinn er úr ljósum harðviði eftir Wilhelm Beckmann tréskurðarmeistara. Hann var gefinn kirkjunni árið 1961. Prédikunarstóllinn er áttstrendur með máluðum myndum, líklega frá seinni hluta 17. aldar. Klukkur Selárdalskirkju eru frá árunum 1548 og 1737.

Skammt frá Selárdalskirkju stendur Selárdalskirkja Samúels Jónssonar, sem listamaðurinn með barnshjartað reisti á 6. áratug síðustu aldar.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Bryndís Svavarsdóttir
  • Sóknarprestur