
- Elísa Mjöll Sigurðardóttir
- Sóknarprestur

Árneskirkja hin nýja er teiknuð af Guðlaugi Gauta Jónssyni arkitekt og var vígð í september árið 1991. Yfirsmiður við kirkjubygginguna var Arinbjörn Bernharðsson frá Norðurfirði í Árneshreppi. Fyrirmyndin að ytra útliti hússins er sótt í stórbrotna náttúrufegurð svæðisins og er Reykjaneshyrnan sem er formfagurt fjall í sveitinni þar helst til hliðsjónar.
Kirkjan er stálgrindarhús á steyptum grunni, klædd hvítum Steni-plötum að utan, en viðarþiljuð að innan. Þak er járnklætt ásamt þakbrúnum og gluggabrúnum. Flatarmál er um 150 fermetrar og skiptist í ferningslaga kirkjuskip og áfast fordyri með skrifstofu prests og fatahengi á hvora hlið forkirkjunnar. Horn kirkjuskipsins vísa í höfuðáttir og altarið er staðsett mót austri. Þar er þak hæst og halla fjórar hliðar þess þaðan. Aðskilin, hallandi þök eru yfir forkirkju, skrifstofu og fatahengi með salerni. Sex gluggar eru á norðausturhlið, á suðvesturhlið eru þrír mjóir og tveir stærri gluggar. Smærri gluggar eru undir þakbrún við forkirkju. Allir gluggar eru af harðviði, sem og kirkjudyr, tvíbreiðar, með hvítum dyrahöldum. Á vegg til hliðar við kirkjudyr er áfestur kross af ryðfríu stáli.
Kirkjan á silfurkaleik, sem er nýlegur gripur gerður í rómönskum stíl en smíðaður í Englandi. Patína úr silfri fylgir kaleik. Í kirkjunni er skírnarfat úr messing, líklegast þýskt frá 17. öld með mynd af boðun Maríu. Fatið stendur í nýlegri hnotumálaðri trégrind. Orgelið er af gerðinni Delmarco Tesero. Kirkjuklukka er í sáluhliði. Áletrun á henni er: Árneskirkja 2000.
