
- Stefanía Guðlaug Steinsdóttir
- Sóknarprestur

Kvíabekkjarkirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árið 1892. Hönnuður hennar var Bjarni Einarsson forsmiður. Kirkjan er byggð upp úr efni kirkju sem Bjarni smíðaði árið 1889 en fauk þann 21. janúar árið 1892. Kvíabekkjarkirkja var aflögð árið 1916, en lagfærð og endurvígð árið 1958.
Þak kirkjunnar er krossreist og upp af framstafni er klukknaport með krossreistu þaki. Kirkjan er klædd plastpanel, þök bárujárni og stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökklum. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir gluggar með sex rúðum og annar heldur minni á framstafni. Klukknaport er smíðað úr járni, veggir eru opnir að neðan upp að mæni kirkju en timburklæddir að ofan. Fyrir kirkjudyrum er einföld hurð.
Altaristaflan er olíumálverk eftir Kristin G. Jóhannsson listmálara frá árinu 1977. Hún sýnir Krist í miðju og eru Ólafsfjarðarkirkja í einu horni og Kvíabekkjarkirkja í öðru. Í hinum tveimur hornunum er skip á sjó, annars vegar og blóm hins vegar. Skírnarfonturinn var smíðaður og skorinn út árið 1958 af Þórði Jónssyni á Þóroddsstöðum.
Kirkjan á silfurkaleik og patínu. Áletrun á kaleiknum segir að hann hafi verið endurbættur árið 1746. Klukkur Kvíabekkjarkirkju munu vera fengnar úr Stórholtskirkju í Fljótum.
Ljósmynd tók Rüdiger Þór Seidenfaden.
