- Sólveig Halla Kristjánsdóttir
- Sóknarprestur
Flateyjarkirkja á Skjálfanda
Flateyjarkirkja á Skjálfanda er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1897 að Brettingsstöðum á Flateyjardal. Hún var tekin niður og endurreist í Flatey árið 1957. Kirkjusmiður var Jóhann Bessason á Skarði. Kirkjan var byggð úr timburgrind klædd láréttum strikuðum panel að utan og reist á grjóthlöðnum sökkli. Þak kirkjunnar er krossreist, klætt bárujárni. Hún var án forkirkju, turns eða kórs í upphafi. Gluggar hafa sennilega verið einpósta sexrúðugluggar og ekki bogadregnir eins og þeir eru í dag. Kirkjan fauk af grunni árið 1933 og var þá steyptur undir hana sökkull.
Árið 1953 fór síðasti bærinn á Flateyjardal í eyði. Stuttu síðar var kirkjan tekin niður og endurreist í Flatey þar sem var þá blómleg byggð, og endurvígð þann 17. júlí árið 1960. Björgvin Pálsson húsasmíðameistari í Hrísey var fenginn til að hafa umsjón með verkinu, en sóknarbörn lögðu á sig ómælda vinnu og erfiði við að rífa kirkjuna og flytja hverja fjöl á árabátum milli lands og eyjar.
Kirkjunni var breytt allmikið þegar hún var endurreist, sett á steyptan sökkul, byggð við hana forkirkja, turn, kór og gluggar gerðir bogadregnir. Þá mun hún hafa verið múrhúðuð að utan. Árið 1987 fór fram mikil viðgerð á kirkjunni sem m.a. fólst í því að múrhúðun var tekin af og hún klædd sléttum blikkplötum með innbrenndum hvítum lit og þannig er hún í dag á ytra borði. Yfir altarinu er prentuð eftirmynd myndar eftir sænska listmálarann Julius Kronberg. Hún sýnir engil Drottins birtast fjárhirðunum. Kirkjan á silfurkaleik og patínu úr Brettingsstaðakirkju. Klukkur Flateyjarkirkju eru báðar úr Brettingsstaðakirkju. Önnur er frá árinu 1506, hin er leturlaus.

- Þorgrímur G. Daníelsson
- Sóknarprestur
