
- Halla Rut Stefánsdóttir
- Sóknarprestur
Ketukirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1895. Hönnuður hennar var Árni A. Guðmundsson forsmiður og bóndi í Víkum á Skaga. Þak kirkjunnar er krossreist og bárujárnsklætt og járnkross upp af stafni. Framstafn er klæddur listaþili en aðrar hliðar slagþili og kirkjan stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökklum. Á hvorri hlið kirkju eru tveir bogadregnir gluggar með átta rúðum. Tvær stoðir eru undir framhlið þess, ferstrendar að neðan og ofan en rúnnaðar á miðhluta. Fyrir kirkjudyrum er einföld hurð og um hana ávalir faldar.
Altaristaflan er eftir Jóhann Briem listmálara og var máluð árið 1965. Hún sýnir Krist og kanversku konuna. Kirkjan á kaleik og patínu úr tini frá árinu 1717. Prédikunarstóllinn er 17. aldar smíð, ferstrendur með máluðum myndum af frelsaranum og tveimur guðpjallamönnum. Kirkjan á bæði skírnarskál úr gleri á fæti og silfurskírnarskál með laufmynstri, sem stendur á víðum fæti. Í litlu porti vestan á kirkjunni hanga tvær koparklukkur. Önnur klukkan er gömul skipsklukka frá árinu 1733, hin klukkan er leturlaus.
Ljósmynd tók Kristjana Agnarsdottir.


