
- Kristín Þórunn Tómasdóttir
- Sóknarprestur
Búrfells kirkja er friðlýst timburkirkja, byggð árið 1845. Hönnuður hennar var Bjarni Jónsson forsmiður. Þak kirkjunnar er krossreist og upp af framstafni er turn með risþaki. Bogadregin hljómop, með hlera eru á þremur turnhliðum. Kirkjan stendur á steinsteyptum sökkli, veggir eru klæddir listaþili, en þak bárujárni. Á hvorri hlið kirkju eru tveir póstagluggar með þriggja rúðu römmum, en fjögurra rúðu gluggi á framstafni.
Fyrir kirkjudyrum er spjaldsett hurð og strikuð brík yfir. Altaristöfluna málaði Þorsteinn Guðmundsson, frá Hlíð, árið 1849 og sýnir hún tvær konur við kross Krists. Kirkjan á kaleik og patínu, sem eru danskir gripir frá árinu 1848. Stöpull með skírnarskál var smíðaður af Bjarna Jónssyni kirkjusmið árið 1845 og er hann í stíl við prédikunarstólinn. Á stöplinum er skírnarskál úr skornu gleri. Orgelharmóníum af ítalskri gerð var keypt árið 1995. Í kirkjunni eru tvær kirkjuklukkur, önnur gamalleg úr kopar og er leturlaus, hin er einnig úr kopar, nýleg og leturlaus.

