
- Elísa Mjöll Sigurðardóttir
- Sóknarprestur
Staðarkirkja í Steingrímsfirði er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árunum 1855–1856. Hönnuður hennar var Einar Einarsson smiður. Á árunum 1887–1888 var loft smíðað í tvö fremstu stafgólf kirkjunnar, súðar og skammbitaloft yfir innri hluta framkirkju og hvelfing yfir kór. Kvistur var smíðaður yfir prédikunarstól og turn upp af framstafni. Hönnuður breytinganna var Sigurður Sigurðsson snikkari frá Kleifum. Þak kirkjunnar er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með risþaki. Tígulgluggi er á framhlið turns og hljómop á hvorri hlið. Kirkjan stendur á steinhlöðnum sökkli og er klædd slagþili en þök bárujárni. Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstagluggar með þriggja rúðu römmum og einn heldur minni er á framstafni uppi yfir dyrum. Kvistur með fjögurra rúðu glugga er á suðurþekju yfir prédikunarstóli. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir.
Altaristaflan er frá 18. öld með kvöldmáltíðarmynd fyrir miðju, skírn Jesú á vinstri hönd og upprisuna á þá hægri. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, smíðuð af Sigurði Þorsteinssyni gullsmíðameistara í Kaupmannahöfn árið 1746. Prédikunarstóllinn er frá árinu 1731 með máluðum myndum af frelsaranum og guðspjallamönnunum. Kirkjan á skírnarfat úr látúni, sem er hollenskt eða þýskt með ártalinu 1487. Tvær klukkur eru í Staðarkirkju. Önnur er gömul og leturlaus, hin er frá árinu 1602.
