- Jóhanna Magnúsdóttir
- Sóknarprestur
Safnakirkjan í Skógum
Safnkirkjan í Skógum undir Eyjafjöllum er eign Byggðasafns Rangæinga og Vestur Skaftfellinga. Hún var vígð þann 14. júní árið 1998. Áður var kirkja í Skógum, að ætla má frá um árið 1100 og til 1890. Safnkirkjan er nýsmíði að grind, ytri klæðningu og yfirgerð.
Inniþiljur eru að mestu úr Kálfholtskirkju í Rangárþingi, frá árinu 1890. Gluggarnir eru úr Grafarkirkju í Skaftártungu frá árinu 1898. Útsagað skraut í þeim er frá Eyvindarhólakirkju, sem byggð var árið 1890.
Prédikunarstóll var í Háfskirkju til ársins 1912 og síðar í Hábæjarkirkju í Þykkvabæ. Altari var í Sigluvíkurkirkju í Vestur-Landeyjum til ársins 1912, hugsanlega smíði Bjarna Gunnarssonar á Sandhólaferju. Ytri hurðir eru nýsmíði en hurðarskráin hin gamla hurðarskrá Þykkvabæjarklausturskirkju í Álftaveri, smíðuð árið 1865. Altaristaflan er hin gamla vængjabrík Holtskirkju frá árinu 1768 og sýnir heilaga kvöldmáltíð, krossfestinguna og upprisu Drottins, væntanlega dönsk. Hún er með ritningargreinum á íslensku máluðum af Ámunda Jónssyni kirkjusmið, ártali og fangamarki gefandans, séra Sigurðar Jónssonar í Holti.
Orgelharmonium eru tvö. Annað er hið fyrsta sem kom í Eyvindarhólakirkju árið 1902. Kirkjan á kaleik og patínu, sem voru gjöf Eyvindarhólakirkju og safnaðar. Skírnarfontinn smíðaði Matthías Andrésson og skreytti. Klukknaport er fyrir kirkjudyrum og framan á útskornar vindskeiðar. Kirkjuklukkur eru samstæðar að stærð og eru fornar. Klukkan til hægri, þegar að er komið, er frá Höfðabrekkukirkju í Mýrdal. Þetta er önnur þeirra klukkna sem séra Jón Salómonsson stökk með upp Tíðabrekku á Höfðabrekku og upp í Klukknahelli er Kötluhlaup tók bæ og kirkju á Höfðabrekku árið 1660. Klukkan til vinstri er frá Eystri-Ásum í Skaftártungu frá árinu 1742.